40 ára Guðjón ólst upp í Kópavogi frá sex ára aldri, fyrir það bjó hann í Bandaríkjunum og Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum í Kópavogi, eftir það lá leiðin í Háskóla Íslands í líffræði þar sem hann útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í líffræði og M.Sc.-gráðu í sjávarlíffræði

40 ára Guðjón ólst upp í Kópavogi frá sex ára aldri, fyrir það bjó hann í Bandaríkjunum og Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum í Kópavogi, eftir það lá leiðin í Háskóla Íslands í líffræði þar sem hann útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í líffræði og M.Sc.-gráðu í sjávarlíffræði. Þaðan lá leiðin til New Brunswick í Kanada í sex ár, þar sem hann lauk doktorsprófi í sjávarlíffræði. Eftir heimkomu hefur hann búið ásamt Valeyju eiginkonu sinni (og hundi og ketti) í Hafnarfirði og Reykjavík, áður en leiðin lá á heimaslóðir í Kópavogi.

Guðjón hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun frá 2015, fyrst við rannsóknir og stofnmat á flatfiskastofnum við landið, en síðar við rannsóknir á meðafla fugla og sjávarspendýra og brottkasti í fiskveiðum. Frá 2022 hefur hann leitt rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á hvölum við landið. Guðjón hefur birt á fimmta tug vísindagreina og skýrslna, aðallega um meðafla í fiskveiðum, en einnig um vistfræði og stofnmat hvala, vistfræði humra og marglyttna, og far fiska.

Guðjón hefur ýmis áhugamál, hann er virkur í félaginu Fágun – félagi áhugafólks um gerjun, stundar hjólreiðar og fjallgöngur, og finnst fátt skemmtilegra en að vesenast úti í bílskúr við að setja saman eða laga hjól.

Fjölskylda Maki Guðjóns er Valey Jökulsdóttir, f. 1986, MIS í upplýsingafræði, skjalastjóri hjá skattinum. Foreldrar Guðjóns eru hjónin Guðríður Guðfinnsdóttir, f. 1958, sérkennari og Sigurður Guðjónsson, f. 1957, fiskifræðingur. Bræður Guðjóns eru þeir Gunnar Valur, f. 1988, Arnar, f. 1992, og Birkir, f. 1992.