Alþingi Um 60 þingmál ríkisstjórnarinnar bíða afgreiðslu á þingi.
Alþingi Um 60 þingmál ríkisstjórnarinnar bíða afgreiðslu á þingi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ekkert samkomulag er um þinglok, en viðræður þar um áttu sér stað á milli þingflokksformanna stjórnar og stjórnarandstöðu í gær. Á dagskrá þingfundar í gær voru 39 mál og sóttist róðurinn seint. Líklegt er talið að fundir Alþingis muni dragast fram í næstu viku

Ekkert samkomulag er um þinglok, en viðræður þar um áttu sér stað á milli þingflokksformanna stjórnar og stjórnarandstöðu í gær. Á dagskrá þingfundar í gær voru 39 mál og sóttist róðurinn seint. Líklegt er talið að fundir Alþingis muni dragast fram í næstu viku.

„Þetta mjakast áfram en það liggur ekki fyrir neitt heildarsamkomulag og málin eru ekki komin á neinn endapunkt,“ segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis í samtali við Morgunblaðið, spurður um stöðu mála á þingi og áformuð þinglok.

Listi forgangsmála ríkisstjórnarinnar er langur, telur um 60 mál og sum þeirra eru langt komin í nefndum. Þá eru ótalin þau þingmál sem stjórnarandstaðan vill að fái brautargengi, en ekki er óvanalegt að einhver þeirra nái fram að ganga fyrir frestun funda Alþingis. Framvinda þeirra mála mun skýrast á fundum þingflokksformanna.

Eftir því sem næst verður komist eru allmörg mál þannig vaxin að um þau ríkir ágreiningur. Sem dæmi um slík mál má nefna frumvarp dómsmálaráðherra til lögreglulaga, en það var t.a.m. til umræðu á fundi allsherjar- og menntamálanefndar síðdegis í gær.

Af öðrum málum sem ósætti ríkir um má nefna frumvarp til húsaleigulaga, vindorkumál, lagareldi og frumvarp til sóttvarnalaga, en öll eru þau umfangsmikil. Einnig má þar nefna mál frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um sameiningar stofnana. Þá er frumvarp um kvótasetningu á grásleppu umdeilt, bæði innan stjórnarflokkanna sem og stjórnarandstöðu.