Matseðill dagsins Svona lítur einn matseðill dagsins út hjá Eflu þar sem sjá má kolefnisspor matarins. Fleira er gefið upp, eins og næringargildið.
Matseðill dagsins Svona lítur einn matseðill dagsins út hjá Eflu þar sem sjá má kolefnisspor matarins. Fleira er gefið upp, eins og næringargildið. — Skjámynd/Efla
Matarspor, matarreiknir sem verkfræðistofan Efla hefur þróað til að reikna út kolefnisspor máltíða, hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár. Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá Eflu, heldur utan um hugbúnaðinn

Sviðsljós

Sigríður Helga Sverrisdóttir

sigridurh@mbl.is

Matarspor, matarreiknir sem verkfræðistofan Efla hefur þróað til að reikna út kolefnisspor máltíða, hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár.

Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá Eflu, heldur utan um hugbúnaðinn. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að allra fyrsta útgáfan hafi komið út árið 2019 en stór uppfærsla var gerð fyrir um það bil tveimur árum. Er hugbúnaðurinn í reglulegum uppfærslum og endurbótum eftir óskum viðskiptavina.

Níu vinnustaðir með Matarspor

Auk Eflu eru átta mötuneyti að nota hugbúnaðinn núna. Er notendur panta sér máltíð sýnir forritið á myndrænan hátt ýmsar upplýsingar um máltíðina, m.a. reiknað kolefnisspor. Nýjasti aðilinn er Landspítalinn, en hin fyrirtækin eru Orkuveita Reykjavíkur, Kokkarnir fyrir Reykjavíkurborg, Iðan fræðslusetur, Brim, Félagsstofnun stúdenta/Háskóli Íslands, Umbra þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins og Landsvirkjun. Flest eru þetta stærri mötuneyti en forritið getur einnig hentað fyrir smærri fyrirtæki.

Í nýjustu uppfærslunni er ekki bara kolefnisspor matarins og næringargildi birt heldur birtir forritið nú einnig upplýsingar um ofnæmisvalda, sem hluti hugbúnaðarins heldur utan. Þannig að nú er hægt að birta það meðfram öðrum upplýsingum.

Grundvallarhugsunina með hugbúnaðinum segir Sigurður vera þá að vekja fólk til umhugsunar eða meðvitundar um loftslagsáhrif matarins og einnig að uppfræða um næringargildi hans, ekki bara fyrir notendurna eða matargestina í mötuneytinu heldur líka fyrir kokkinn. Hann hafi heyrt það frá kokkum að þeim hafi þótt þægilegt að fylgjast með næringargildinu þegar þeir eru að stilla upp máltíðum, passa upp á að grænmetisrétturinn sé með nægt prótín sem dæmi, og einnig að fólk læri um loftslagsáhrifin, sem komi oft á óvart fyrst þegar það sér niðurstöðurnar. Með öðrum orðum þá auki þetta á umhverfismeðvitund fólks.

Hugbúnaðurinn býður einnig upp á loftslagsbókhald fyrir fyrirtæki sem eru t.d. að halda utan um losun vegna aksturs bílaflotans og flugferða á vegum fyrirtækisins. „Þarna er líka tækifæri fyrir fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð í verki,” sagði Sigurður.

Aðspurður hvort einhverjar óánægjuraddir væru um þetta segir Sigurður að forritið birti upplýsingar á hlutlausan máta.

„Þetta eru upplýsingar sem lágu ekki fyrir áður. Það er ekki verið að mæla með neinum mat umfram annan heldur er þetta einfaldlega aukin upplýsingagjöf, sem margir hafa verið að kalla eftir.“ Hann kvaðst ekki hafa heyrt um neinn sem væri á móti þessu.

Gott verkfæri

Sveinn Steinsson, kokkur hjá Eflu, tekur undir orð Sigurðar um að Matarspor sé gott verkfæri fyrir sig sem notanda til að koma upplýsingum áfram, t.d. hvernig hann býr til matseðilinn.

Í leiðinni sé þetta vitundarvakning fyrir fólk til að sjá betur hvað mengi og hvað ekki. Fólk sér hvert fótsporið er.

Eitt sem hann kveðst hafa uppgötvað eftir að hann fór að nota þetta er hve lítill munur er á milli grænmetisrétta og fisks sem við veiðum hér á Íslandi hvað varðar kolefnisspor. Telur hann að það veki fólk til umhugsunar, því fólk haldi að það eigi að borða meira grænmeti til að bjarga jörðinni en það sé líka allt í lagi að borða meiri fisk.

Sveinn segir mikilvægt fyrir þá sem hafi t.d. ofnæmi að hugbúnaðurinn reikni bæði næringargildi og ofnæmisvalda.

Sveinn bendir á að hann eldi ekki sjaldnar nautakjöt þó þar séu mestu umhverfisáhrifin. Þá myndi fólk ekki átta sig á því ef það sæi aldrei muninn. Telur hann að þetta hafi meiri áhrif á það hvernig fólk raði í körfuna úti í búð og hvað það velji heima hjá sér, með Matarsporið í kollinum á sér. Hann segist sjá það hjá sér að grænmetisréttunum sé ekki að fjölga en að dýraprótínin sem fara á diskinn séu að minnka. „Fólk er að borða meira grænmeti hlutfallslega,“ segir Sveinn.

Hann væri til í að sjá þessar upplýsingar á fleiri vörum í verslunum, t.d. hvað er á bak við eina kókdós, lifrarkæfu, o.s.frv. Það sé eitthvað sem framleiðendur þurfi að taka upp hjá sér. Þetta sé góð leið til að koma skilaboðunum áfram.

Hann segist ekki merkja marktækt minni matarsóun þar sem fleiri þættir komi inn í það, s.s. eins og ef það er mikil röð í mötuneytinu þá setur fólk meira á diskinn hjá sér svo það þurfi ekki að fara aftur. En það sé ekki mikil matarsóun hjá Eflu hvort sem er, þó hann viti ekki alveg hver ástæðan sé.

Reynslan af Matarspori

Skiptar skoðanir notenda

Samkvæmt upplýsingum blaðsins eru skiptar skoðanir meðal notenda forritsins hjá Landspítala. Ekki eru allir jafn sáttir við þessa nýbreytni í mötuneytinu. Upplifun starfsmanna er á ýmsa vegu, sumum finnst þetta gott framtak á meðan öðrum finnst það þreytandi eða með rangar áherslur. Aðra snertir þetta lítið.

„Matvælaframleiðsla veldur um fjórðungi af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Það er hægt að lækka kolefnissporið með því að búa til loftslagsvænar máltíðir, draga úr kjötneyslu og mjólkurneyslu fyrst og fremst,“ segir Sigurður.

„Þetta eru lífsstílsbreytingar sem við þurfum að koma í gegn hjá okkur. Þetta er ekkert flókið. Við þurfum bara aðeins að brjóta vegginn. Þetta er hugarfarsbreyting,“ segir Sveinn, kokkur hjá Eflu.

Höf.: Sigríður Helga Sverrisdóttir