Ferskt Maturinn á Vöruhúsinu er ferskur, góður og á hagstæðu verði.
Ferskt Maturinn á Vöruhúsinu er ferskur, góður og á hagstæðu verði.
Anton Örn Eggertsson, einn eigenda Vöruhússins í Vestmannaeyjum, segir staðinn hafa verið fullsetinn frá því hann var opnaður í maí síðastliðnum. Það sé líklega hagstæðu verði að þakka. Vöruhúsið er fjölskyldurekinn veitingastaður sem einblínir á góðan og ferskan mat

Anton Örn Eggertsson, einn eigenda Vöruhússins í Vestmannaeyjum, segir staðinn hafa verið fullsetinn frá því hann var opnaður í maí síðastliðnum. Það sé líklega hagstæðu verði að þakka. Vöruhúsið er fjölskyldurekinn veitingastaður sem einblínir á góðan og ferskan mat. Auk Antons eru þau Róbert Agnarsson, Hildur Rún Róbertsdóttir og Sigrún Ósk Ómarsdóttir eigendur staðarins.

„Það er greinilegt að það skilar sér með einhverju móti að vera hagstæður í verði, þá færðu fólkið sem oftast. Við erum dugleg að vinna hérna sjálf en það er yfirleitt þannig að eigendur eru ódýrasta vinnuaflið,“ segir Anton og bætir við að hann standi vaktina í eldhúsinu sjö daga vikunnar og í kringum sextán klukkustundir á dag.

„Það gefur okkur frelsi til að halda verðinu í lágmarki. Oftast er það launakostnaðurinn sem er það helsta sem gerir veitingastöðunum erfitt fyrir þó að hráefnið sé ekki gefins heldur. En við erum með lægri álagningu á hlutunum en gengur og gerist í þjóðfélaginu okkar.“

Íslendingarnir eyða meiru

Íslendingar eru mikilvægustu viðskiptavinirnir að hans sögn . „Við einblínum aðallega á heimamennina og þá gesti sem koma til Eyja. Við erum ekki sérstaklega að einblína á túristana en Íslendingar eru verðmætari kúnnar. Það eru meiri líkur á að þeir heimsæki þig aftur og þeir leyfa sér oft meira. Þeir eyða meiru inni á staðnum.“

Anton vonast til að sjá sólina mikið í sumar þar sem verið er að klára tvö hundruð fermetra útisvæði sunnanmegin við staðinn. „Það er verið að smíða skjólveggi, smíða bar og allan pakkann. Svo þegar sólin lætur sjá sig þá erum við með sólina frá morgni til kvölds yfir sumarmánuðina. Við erum bjartsýn á að klára þetta um næstu helgi, það er raunhæft markmið.“

Þá eru fótboltamótin, Gosloka- og Þjóðhátíð stærstu helgarnar í Vestmannaeyjum í sumar. „Svo eru golfmót inn á milli og Bjórhátíðin um næstu helgi. Þá myndast ákveðin stemning í bænum. Svo það er bara eintóm gleði fram undan,“ segir Anton að lokum.