Langá Fyrsta lax sumarsins fékk Hans Hjalti Skaale, 78 cm hrygnu.
Langá Fyrsta lax sumarsins fékk Hans Hjalti Skaale, 78 cm hrygnu. — Ljósmynd/Arngrímur Fannar
Þrjár laxveiðiár á vegum Stangaveiðifélags Reykjavíkur opna í dag, en þetta eru Haukadalsá í Dölum, Laugardalsá við Ísafjarðardjúp og Elliðaárnar í Reykjavík. Þar að auki er opnað fyrir veiði í Þverá í Haukadal, en áin sú fellur í Haukadalsá, en er leigð út sérstaklega

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Þrjár laxveiðiár á vegum Stangaveiðifélags Reykjavíkur opna í dag, en þetta eru Haukadalsá í Dölum, Laugardalsá við Ísafjarðardjúp og Elliðaárnar í Reykjavík. Þar að auki er opnað fyrir veiði í Þverá í Haukadal, en áin sú fellur í Haukadalsá, en er leigð út sérstaklega.

Venjulega kastar borgarstjórinn í Reykjavík fyrstur agni í Elliðaárnar ár hvert, en að sögn Ingimundar Bergssonar framkvæmdastjóra Stangaveiðifélags Reykjavíkur, kemur það í hlut Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur forseta borgarstjórnar að opna árnar að þessu sinni, ásamt Reykvíkingi ársins sem kunngjört verður um við opnunina.

Veiðihorfur eru vænlegar hvað laxagengd varðar, en undanfarna daga hafa göngur tekið við sér í Elliðaánum. Á móti kemur að árnar eru í vexti, en úrhelli var í borginni í gær og vatnsmagn í ánum með meira móti. Aðstæður gætu því verið krefjandi.

Í gær voru gengnir á fimmta tug laxa um teljarann sem er ívið meira en á sama tíma í fyrra og þó nokkuð var af laxi neðan hans. Aðal göngutími Elliðaárlaxsins er í júlí. Í fyrra gengu alls 2.027 laxar í árnar sem þótti gott í samanburði við aðrar laxveiðiár.

Veiði í Langá hófst í gær og segir Ingimundur talsvert af laxi gengið í ána og veiðimenn hefðu orðið vel varir.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson