Samgöngur Mælingar sýna færslu Siglufjarðarvegar fram í sjó.
Samgöngur Mælingar sýna færslu Siglufjarðarvegar fram í sjó. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Þetta seinkar öllu en það var búið að eyrnamerkja ákveðna fjárhæð í undirbúnings- og rannsóknarvinnu sem við teljum mjög brýnt að fari af stað ekki seinna en strax.“ Þetta segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri í Fjallabyggð, en…

„Þetta seinkar öllu en það var búið að eyrnamerkja ákveðna fjárhæð í undirbúnings- og rannsóknarvinnu sem við teljum mjög brýnt að fari af stað ekki seinna en strax.“

Þetta segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri í Fjallabyggð, en jarðgöng frá Fljótum yfir í Siglufjörð eru númer tvö á samgönguáætlun sem verður ekki samþykkt á vorþingi.

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu um liðna helgi er engu líkara en fjallshlíðin við Almenninga sé að skríða í sjó fram en með opnun Héðinsfjarðarganga varð vegurinn að varaleið fyrir Öxnadalsheiði.

„Við erum að sjá það núna aftur og aftur, bæði þegar slys verða á Öxnadalsheiðinni og þegar heiðinni er lokað vegna veðurs, að þá er þetta varaleiðin. Þessi vegur ber ekki þá umferð þegar ástandið er svona.“ Að mati Sigríðar átti að halda beint áfram í ný Siglufjarðarskarðsgöng eftir Héðinsfjarðargöng og taka af þann stórhættulega vegkafla sem Almenningarnir eru. „Við vorum að vona að samgönguáætlun færi í gegn.“

Sigríður segir viðhald á veginum mikið, mælingar sýni færslu hans fram í sjó og um sé að ræða stórhættulegt ástand. Segir hún ekki borga sig að malbika eða setja varanlegt slitlag því vegurinn sé í stöðugri færslu og alltaf verið að bæta við hann. „Ég var sjálf á ferðinni seint í gærkvöldi og bíllinn rásaði þegar hann fór yfir þessar vegbætur, þennan bútasaum sem alltaf er verið að gera þarna.“

Of mikið talað

Fólkið í Fjallabyggð vill að ríkisvaldið fari að láta verkin tala að sögn bæjarstjórans. Búið sé að tala allt of lengi og menn átti sig vel á alvöru málsins. Vegurinn sé ekki einungis úreltur heldur á mörkum þess að vera akfær. Tímaspursmál sé hvenær þurfi að fara í verulegar takmarkanir á umferð. „Við teljum gríðarlega mikilvægt að farið verði í að hefja undirbúning strax og að fjármagn verði sett í það.“ olafur@mbl.is