Svarfdælingar Unnur Ólafsdóttir og Þórarinn Eldjárn á góðum slóðum.
Svarfdælingar Unnur Ólafsdóttir og Þórarinn Eldjárn á góðum slóðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórarinn Eldjárn rithöfundur á athvarf í Svarfaðardal og vinnur þar að ýmsum ritstörfum. Rætur hans liggja þar í sveit. Þau Unnur Ólafsdóttir kona hans eiga húsið Gullbringu sem er í landi kirkustaðarins Tjarnar en þaðan var faðir Þórarins; Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og forseti Íslands

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Þórarinn Eldjárn rithöfundur á athvarf í Svarfaðardal og vinnur þar að ýmsum ritstörfum. Rætur hans liggja þar í sveit. Þau Unnur Ólafsdóttir kona hans eiga húsið Gullbringu sem er í landi kirkustaðarins Tjarnar en þaðan var faðir Þórarins; Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og forseti Íslands. Sambyggð Gullbringu er Arngrímsstofa, agnarlítið timburhús með torfþaki sem er fyrsta vinnustofa listamanns á Íslandi. Hús þetta var byggt árið 1884 og er kennt við listmálarann Arngrím Gíslason (1829-1887) sem sín síðustu ár bjó í Gullbringu.

„Saga Arngríms er um margt heillandi,“ sagði Þórarinn Eldjárn þegar hann sýndi blaðamanni Arngrímsstofu á dögunum. Byggingin var árið 1953 gefin Þjóðminjasafni Íslands og er hluti af húsasafni þess. Á hverjum stað sinnir heimafólk daglegri umsjón með byggingunum og fyrir nokkrum árum samdi Þjóðminjasafnið við Þórarin og Unni um að þau önnuðust Arngrímsstofu. Í því felst að hafa tilsjón með húsinu og fylgjast með ástandi þess. Einnig yfir sumartímann að taka á móti gestum, segja þeim sögu fólks og staðar.

Ástir í meinum

Í stofu Arngríms eru ljósmyndir af allnokkrum verka hans og er þar vel fyrir komið, enda þótt veggpláss sé ekki mikið. „Húsið okkar í Gullbringu var byggt 1912 og svo byggt við það fyrir um tuttugu árum. Við erum þar mikið við leik og störf. Svo er líka alltaf gaman að fá gesti og segja þeim af Arngrími málara, sem pabbi skrifaði reyndar bók um,“ sagði Þórarinn.

Þingeyingurinn Arngrímur Gíslason lagði um sína daga hönd á margt en varð þekktastur fyrir málaralist sína. Hann fór um og teiknaði eða málaði. Var á prestssetrinu á Skinnastað í Öxarfirði þegar leiðir hans, kvænts mannsins, og prestsdótturinnar Þórunnar Hjörleifsdóttur lágu saman. Með þeim tókust ástir í meinum. Þau náðu þó saman að lokum, en þá var Þórunn flutt í Svarfaðardal þar sem sr. Hjörleifur Guttormsson faðir hennar var þá tekinn við prestskap á Tjörn og síðar Völlum.

Sterkt myndmál

„Ævintýrið um Arngrím er sagan um manninn sem er gagntekinn af listrænni þrá og þörf en fæddur á röngum tíma í röngu landi. Nær samt ótrúlegum árangri á sínu sviði. Einnig hin merkilega og fallega ástarsaga hans og Þórunnar Hjörleifsdóttur,“ sagði Þórarinn Eldjárn.

Eftir andlát Arngríms flutti Þórunn Hjörleifsdóttir að Tjörn þar sem systir hennar Petrína Soffía var orðin prestsfrú, gift séra Kristjáni Eldjárni Þórarinssyni. Hann var síðasti presturinn á Tjörn en keypti jörðina af ríkinu og sonur hans Þórarinn hóf þar búskap, afi Þórarins yngri. Afsal á jörðinni var undirritað 1914 af Páli Einarssyni sýslumanni Eyjafjarðarsýslu, síðar hæstaréttardómara, sem áður var fyrsti borgarstjórinn í Reykjavík. Og þarna flétta örlögin merkilegan þráð; Páll sýslumaður er afi Unnar konu Þórarins.

Arngrímsstofa er upp af Tjörn; utarlega í dalnum vestanverðum, um 5 km frá Dalvík. Þótt gestgjararnir í Gullbringu séu ekki alltaf á staðnum er þó hægt að líta við í stofunni; sem er opin alla daga og á borðum eru blöð með ýmsum fróðleik. Á veggjum hanga ljósmyndir af verkum Arngríms. Í kirkjum norðanlands og víðar eru svo altaristöflur hans þar sem heilaga ritningin sprettur ljóslifandi fram með sterku myndmáli.