Bæn Milljónir leggja árlega í pílagrímaför til Mekka.
Bæn Milljónir leggja árlega í pílagrímaför til Mekka. — AFP
Gífurleg hitabylgja geisar nú í Sádi-Arabíu, en hitastig hefur mælst vel yfir 50 gráðum víðs vegar um landið. Hitinn hefur sérstaklega leikið borgina Mekka grátt, þar sem hin árlega hadsjí-pílagrímaför til borgarinnar stendur nú sem hæst

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Gífurleg hitabylgja geisar nú í Sádi-Arabíu, en hitastig hefur mælst vel yfir 50 gráðum víðs vegar um landið. Hitinn hefur sérstaklega leikið borgina Mekka grátt, þar sem hin árlega hadsjí-pílagrímaför til borgarinnar stendur nú sem hæst.

Hitinn í borginni hefur mælst um 51,8 gráður, en að sögn AFP-fréttastofunnar hafa um 2.700 manns þurft að leita sér aðstoðar vegna örmögnunar og um 922 látist vegna hitans.

Þar sem ekki sér fyrir endann á hitabylgjunni þykir einnig líklegt að fjöldi látinna muni aðeins aukast á næstu dögum.

Borgin Mekka er sú heilagasta innan múhameðstrúar, en þar má finna steinbygginguna Kaba, sem múslimar álíta gjöf frá Guði og þar á kveðjupredikun Múhameðs spámanns einnig að hafa farið þar fram. Milljónir múslima heimsækja borgina árlega en lagt er upp með að allir múslimar fari í slíka pílagrímsferð að minnsta kosti einu sinni á ævinni.

Vegabréfsáritanir til borgarinnar eru þó af skornum skammti og því reynir mikill fjöldi pílagríma að komast þangað eftir öðrum leiðum. Margir þeirra sem leggja í förina eru á efri árum og því viðkvæmir fyrir háum hita, auk þess sem takmarkað er hvað pílagrímar geta lagt sér til munns meðan á ferðinni stendur.

Undanfarin ár hefur pílagrímaförin verið farin að sumri til. Tímatal múhameðstrúar byggist á tunglganginum og ber helgidaga múhameðstrúar því alltaf upp á sömu daga tunglársins, sem verður til þess að þeir færast til á árinu og getur borið upp á öllum árstímum.

Höf.: Sveinn Valfells