Eggert Halldór Kristjánsson fæddist á Hvallátrum í Vestur-Barðastrandarsýslu 7. desember 1925. Hann lést á Skógarbæ 10. júní 2024.

Foreldrar Eggerts voru hjónin Kristján Hjálmar Sigmundsson, bóndi á Hvallátrum, f. 6. september 1889, d. 4. nóvember 1976, og Sigríður Eggertsdóttir, f. 12. október 1900, d. 17. nóvember 1981. Systkini Eggerts eru Ragnheiður, f. 1917, d. 1982, Gísli, f. 1921, d. 2011, Ingibjörg Kristín, f. 1923, d. 2005, Hulda, f. 1926, d. 2019, Sigurður Ágúst, f. 1929, d. 2011, Ardís Guðrún, f. 1931, d. 2020, Kristín Hrefna, f. 1932, d. 2017, Einar Sigmundur, f. 1936, d. 2017, og Jóna Margrét, f. 1941.

Eggert ólst upp á Hvallátrum með foreldrum sínum og systkinum, einnig bjó á heimilinu móðuramma hans, Halldóra Gísladóttir, sem Eggert var mjög hændur að.

Á Hvallátrum var stundaður sauðfjárbúskapur og sjósókn á opnum bátum. Þau störf voru Eggerti lítt að skapi. Hann fór ungur að heiman, fyrst að vinna við loðdýrarækt á Katrínarkoti á Álftanesi en sneri aftur heim í sveitina og vann einnig við fiskvinnslu á Patreksfirði. Vorið 1944 fór Eggert alfarinn að heiman. Réð sig að Skálholti yfir sumarið en fluttist síðan til Reykjavíkur. Um haustið fékk hann vinnu á Álafossi. Á 19 ára afmælisdegi sínum gekk hann í KFUM og tók virkan þátt í starfinu. Hann starfaði í frítíma sínum við drengjadeildir félagsins á árunum 1947-1964. Eggert hóf störf hjá Pósti og síma árið 1954 og starfaði þar í 40 ár. Hann lauk hefðbundinni skólagöngu í heimabyggð og seinna stundaði hann nám í kvöldskólum, Málaskólanum Mími og Námsflokkum Reykjavíkur. Eggert var fróðleiksfús og fylgdist vel með öllum heimsmálum.

Hann átti pennavini í mörgum löndum heims, hann ferðaðist til fimmtíu landa í fjórum heimsálfum. Hann fór gjarnan í heimsóknir til pennavina sinna og var alls staðar vel tekið.

Eggert kvæntist ekki og eignaðist ekki börn.

Útför Eggerts fer fram í Fossvogskirkju í dag, 20. júní 2024, klukkan 13.

Hvallátrar við Látrabjarg eru vestasta byggð á íslandi. Látravíkin er umlukt fjöllum á þrjá vegu, en á mót vestri er opið Atlantshafið. Þarna getur oft verið kalt og veðrasamt, en hrikaleg fegurðin í umhverfi Látrabjargs ásamt björtum vornóttum og löngum sumardögum gera þennan afskekkta stað að einni af náttúruperlum Íslands.

Á þessum stað fæddist Eggert bróðir minn árið 1925. Hann var fjórði í röð tíu systkina og fékk nöfn móðurforeldra sinna, Eggerts og Halldóru. Á þessum tíma voru Látrar eins og lítið þorp. Bændur stunduðu útgerð með búskapnum og fluttu aflann til Patreksfjarðar. Fengsæl fiskimið voru við landsteina og fugl og egg í Látrabjargi. Leiksvæði barnanna var öll víkin frá hvítri sandströnd upp í háa kletta sem freistandi var að klifra í.

Eggert var 16 ára þegar ég, yngsta barnið, fæddist. Ég man því best eftir þessum myndarlega og dökkhærða bróður mínum þegar hann kom í heimsóknir í sveitina á sumrin. Hann kom alltaf færandi hendi, kannski nýkominn frá útlöndum, og oft komu með honum vinir hans sem dvöldu hjá okkur í nokkra daga. Allt var þetta spennandi og ég held að það hafi ekki verið síður spennandi fyrir vini hans frá Reykjavík, því að til að komast að Hvallátrum þurfti annaðhvort að sigla á opnum báti frá Patreksfirði eða koma ríðandi yfir fjöll og heiðar.

Eggert fór ungur til Reykjavíkur og kunni strax vel við sig þar. Smátt og smátt fylgdum við systkinin á eftir honum og var Eggert reiðubúinn til að aðstoða okkur á allan hátt.

Eggert tók mikinn þátt í starfi KFUM og eignaðist fjölda góðra vina og margir voru hans velgjörðarmenn í áraraðir. Honum var afar annt um starfsemi þess félagsskapar. Einnig eignaðist hann vini hjá samstarfsfólki sínu hjá Pósti og síma.

Eggert bjó alltaf einn og sagði að sér líkaði vel að hafa sína eigin hentisemi. Eftir að hann fór á eftirlaun var hans daglega líf í föstum skorðum, lestur dagblaðanna og bréfaskriftir til pennavina um allan heim fyrri hluta dags. Hann fór langa göngutúra um miðjan daginn, oftast niður Laugaveginn, og hvíldi sig á milli á bekkjum. Oft tók hann þá tali sem settust hjá honum, hvort sem það voru landar hans eða erlendir ferðamenn. Ferðamenn fræddi hann um Ísland, sérstaklega Látrabjarg sem var honum hugleikið og hvatti þá til að fara þangað. Margir af þessum ferðamönnum sendu honum síðar póstkort frá sínu heimalandi.

Eggert átti góða ævi, en síðustu mánuðir voru honum þó erfiðir.

Blessuð sé minning Eggerts bróður míns.

Jóna Margrét Kristjánsdóttir.

Mig langar að minnast föðurbróður míns Eggerts H. Kristjánssonar. Hann var fjórði elsti af tíu börnum Sigríðar Eggertsdóttur og Kristjáns H. Sigmundssonar á Hvallátrum. Eggert náði háum aldri og var á 99. aldursári þegar hann lést. Af systkinunum er aðeins Jóna Margrét á lífi, en hún er yngst þeirra. Eggerti þótti vænt um frændsystkini sín og fór ég ekki varhluta af því. Hann kynnti KFUM fyrir mér þegar ég var sjö eða átta ára og sótti ég fundi þar í mörg ár og þótti skemmtilegt að sækja samkomur og ferðir félagsins. Lesnar voru spennandi sögur í bland við trúarlega fræðslu.

Eggert var einhleypur alla ævi og ferðaðist mikið og sendi myndir úr þessum ferðum vestur til foreldra sinna á Látrum, og var spennandi að skoða myndir frá fjarlægum löndum. Einnig eignaðist Eggert marga bréfavini um allan heim og þegar þeir heimsóttu hann til Íslands kom hann oft með þá í mat til foreldra minna. Var það mjög fræðandi að kynnast fólki frá öðrum löndum, þó að málkunnátta mín hafi ekki verið upp á marga fiska þegar ég var yngri, en eftir að ég varð eldri gat ég rætt við þessa vini Eggerts. Einnig minnist ég þess að þegar við Halldóra systir fórum í kirtlatöku og lágum á sjúkrahúsi í nokkra daga kom Eggert í heimsókn og færði okkur m.a. sælgæti.

Þegar Eggert kom að Hvallátrum var hann í fylgd einhvers vinar síns, sem átti bíl. Fékk ég einu sinni far með honum vestur seinni hluta sumars þegar ég var fjórtán ára. Ferðin var hin ánægjulegasta, en sérstaklega minnist ég þess hve veglegt og gott nestið var sem við borðuðum á leiðinni, en slík ferð tók tíu til tólf tíma á þessum árum.

Eggert var alla tíð mikill KFUM-maður og kom hann eitt sinn með stóran hóp KFUM- og KFUK-félaga að Látrum og sló upp mikilli tjaldborg með stóru samkomutjaldi og haldin var samkoma sem sveitungum var boðið á.

Eggert hélt góðri heilsu alla ævi. Á seinni árum hitti ég Eggert einstöku sinnum niðri í miðbæ, en hann gekk heiman frá sér á Snorrabrautinni og niður í miðbæ á hverjum degi eftir að hann fór á eftirlaun. Hann var skrafhreifinn og skemmtilegur. Mun margur erlendur ferðamaður notið góðs af leiðsögn Eggerts í miðbænum.

Ég þakka frænda mínum samfylgdina.

Gísli Már Gíslason.

Látinn er vinur minn Eggert Halldór Kristjánsson frá Hvallátrum.

Fyrst man ég eftir honum fermingarveturinn minn á fundum í KFUM. Seinna störfuðum við saman sem sveitarstjórar 9. sveitar KFUM við Amtmannsstíg.

Fljótlega eftir að ég kynntist Eggerti varð hann heimilisvinur á heimili foreldra minna og tók virkan þátt í lífi fjölskyldunnar. Foreldrar mínir voru með kartöflugarð eins og þá var títt. Eitt sinn sem oftar ætlaði Eggert að aðstoða við vinnu í garðinum, en var ekki viss hvort hann kæmist. Þetta var fyrir tíma almennrar símanotkunar. Þar sem Eggert var ekki kominn á tilsettum tíma lögðum við af stað, en áður skrifaði mamma smákveðju til Eggerts ef svo ólíklega vildi til að hann kæmi. Miðann festi hún á hurðina á íbúðinni á Ljósvallagötunni þar sem við bjuggum. Þegar Eggert kom að dyrum heimilis okkar blasti miðinn við honum, en þar var skrifað stórum stöfum: Ekkert. Eggert las orðið ekkert og ályktaði sem svo að ekkert yrði úr ferðinni í kartöflugarðinn, en mamma var dönsk og ekki með stafsetninguna alveg á hreinu. Þetta var trúlega eina skiptið sem Eggert og mamma skildu ekki hvort annað.

Við Eggert ferðuðumst mikið saman fyrr á árum. Þar er nú fyrst að telja ferðir á bernskustöðvar hans fyrir vestan. Minnisstæð er mér fyrsta flugferðin mín. Við fórum með katalínuflugbáti og lent var á Patreksfirði í þó nokkru ölduróti svo okkur stóð ekki á sama, en opinn vélbátur kom að flugvélinni og sótti okkur og komumst við klakklaust í land. Það var mikil reynsla. Seinna fórum við aðra ferð sem var raunveruleg lífsreynsla, það var í júní árið 1967 þegar við ásamt góðum samferðamönnum lentum í sex daga stríðinu. Þá vorum við stödd í Jerúsalem og þurftum að flýja til Amman í Jórdaníu og síðan fljúga með bandarískri herflugvél til Teheran í Íran. Ekki voru mikil þægindi í þeirri ferð því engin voru sætin og við sátum flötum beinum á gólfi gluggalausrar flugvélarinnar. Vegna stríðsástandsins var flugtíminn óvenju langur þar sem við þurftum að fara stóran sveig suður fyrir Írak til að komast til Teheran.

Eggert ferðaðist víða og átti marga pennavini.

Eitt sinn er hann fór um Þýskaland hitti hann ungan mann með finnska fánann á jakkanum. Eggert gaf sig á tal við hann og úr því varð hin besta vinátta. Eggert útvegaði honum vinnu á Íslandi og var hann hér í tvö sumur. Seinna lá leið þessa manns víða um heim og var hann sendiherra í fjarlægum löndum. Um skeið missti Eggert samband við hann, en dag einn komu hann og kona hans til Íslands þar sem systir hans starfaði í finnska sendiráðinu í Reykjavík. Þá endurnýjaðist vináttan og átti Eggert ánægjulegar stundir með þeim.

Eggert var trúfastur kirkjugestur í Neskirkju áratugum saman. Hann hafði ungur tekið þá ákvörðun að fylgja frelsaranum og sú samfylgd varði ævina á enda.

Að leiðarlokum þakka ég einlæga vináttu og tryggð.

Guð blessi allar góðu minningarnar.

Guð blessi Margréti systur hans og ástvini hans alla.

Frank M. Halldórsson.

Mikill öndvegismaður, Eggert H. Kristjánsson, hefur nú kvatt þetta jarðlíf í hárri elli. Hann var ættaður frá Látrum á Vestfjörðum og bjó þar fyrstu 16 ár ævinnar eða þar til hann flutti til Reykjavíkur, þar sem hann ól aldur sinn síðan.

Eggert kom víða við í vinnu hér fyrir sunnan, var meðal annars í Skálholti sem vinnumaður um tíma, vann hjá Álafossi og víðar. Lungann úr starfsævi sinni var Eggert yfirmaður hjá Póstinum eða í rúma fjóra áratugi.

Á fyrstu árum sínum í Reykjavík kynntist hann starfi KFUM og gerðist þar fljótlega dyggur og trúfastur félagsmaður, sem sótti fundi og samkomur allt til æviloka.

Hann var sannur lærisveinn Jesú Krists, hæglátur og hógvær, en jafnframt mannblendinn, glaðvær og vinmargur. Einnig sótti Eggert kirkju reglulega og þá fyrst og fremst hjá aldarvini sínum, sr. Frank M. Halldórssyni í Neskirkju.

Snemma vaknaði áhugi Eggerts á ferðalögum erlendis og í þeim ferðum eignaðist hann fjölda vina og pennavina, sem hann hélt sambandi við marga svo áratugum skipti.

Eggert átti óvenjugott með að gefa sig á tal við ókunnugt fólk, sérstaklega erlenda ferðamenn, hvort sem var hér á landi eða erlendis.

Pennavinirnir skiptu tugum ef ekki yfir hundrað þegar best lét. Að halda utan um öll þessi samskipti reyndist honum leikur einn, enda minnisgóður með afbrigðum.

Vil að lokum þakka einlæga og trausta vináttu til áratuga og bið Guð að blessa minningu Eggerts H. Kristjánssonar um ókomin ár.

Bjarni Árnason.

Við í KFUM og KFUK kveðjum í dag Eggert H. Kristjánsson, okkar elsta félaga, 98 ára að aldri.

Eggert ólst upp á Hvallátrum við Látrabjarg. Hann kynntist starfi KFUM er hann flutti sem ungur maður til Reykjavíkur. Stuttu síðar gekk hann í aðaldeild KFUM með formlegum hætti eins og þá tíðkaðist. „Ég var tekinn inn í félagið 1944 af Magnúsi Runólfssyni sem var mikill leiðtogi og framkvæmdastjóri KFUM á þeim árum,“ nefndi Eggert við okkur fyrir ekki svo löngu.

Alla tíð sýndi Eggert KFUM ræktarsemi og tók virkan þátt í starfi félagsins. Á efri árum sótti hann vikulega fundi aðaldeildar KFUM af mikilli trúfesti, allt þar til síðasta vetur að heilsan stóð í vegi fyrir fundarsókn.

Starf KFUM í Vatnaskógi var Eggerti mjög hugleikið. Hann sýndi starfinu mikinn áhuga, hvatti okkur til dáða, spurði frétta og studdi við starfið.

Eggert hafði ferðast víða, var fróður og ræðinn. Pennavini átti hann um allan heim, svo marga að það vakti athygli fjölmiðla, einkum er hann sendi þeim árlega dagatöl með fallegum myndum frá Íslandi.

Þegar við vorum kallaðir til forystustarfa á vettvangi félagsins gaf Eggert störfum okkar gaum. Jákvæð hvatning og hlý orð frá félaga á virðilegum aldri voru okkur yngri mönnum mikils virði.

Komið er að leiðarlokum á langri ævigöngu. Við minnumst Eggerts með virðingu og hlýhug og þökkum samfylgdina. Fjölskyldu og vinum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Kveðja frá KFUM og KFUK,

Tómas Torfason,
framkvæmdastjóri KFUM og KFUK, og Ársæll Aðalbergsson, framkvæmdastjóri Vatnaskógar.