[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmenningarskóli Vesturlands er verkefni hjá Símenntun á Vesturlandi, styrkt af Sóknaráætlun Vesturlands og Þróunarsjóði innflytjendamála. Jovana Pavlovic, fjölmenningarfulltrúi Símenntunar, heldur utan um verkefnið

Sviðsljós

Guðrún Vala Elísdóttir

Borgarnesi

Fjölmenningarskóli Vesturlands er verkefni hjá Símenntun á Vesturlandi, styrkt af Sóknaráætlun Vesturlands og Þróunarsjóði innflytjendamála. Jovana Pavlovic, fjölmenningarfulltrúi Símenntunar, heldur utan um verkefnið.

Í stuttu máli má segja að Fjölmenningarskólinn sé þverfaglegt verkefni sem leggur áherslu á fjölmenningarfærni, fræðslu og þjónustu við alla einstaklinga. Markmið skólans eru fjögur; valdefling, inngilding, lýðræðisleg þátttaka og aukin vitund um ósýnilega menningu. Jovana segir að ósýnileg menning sé að gera sér grein fyrir ólíkum reynsluheimum fólks og þeirri þekkingu sem aðrir menningarhópar eiga. Í því felist auðmagn fjölmenningar og eins sé það lykilatriði að búa yfir menningarnæmi í fjölmenningarlegu samfélagi.

Á að ná til allra

Langtímamarkmið Fjölmenningarskólans eru að markmiðin fjögur verði að einhverskonar ríkjandi normi. „Við viljum með skólanum auka vitund fólks um að fjölmenning sé meira en tungumál eða tónlist, okkur skortir og þekkingu á hvað það sé að búa í fjölmenningarlegu samfélagi, hvað gengur vel og hvað mætti fara betur. Umræðan er oft svo grunn og fólk almennt óvirkt þegar að því kemur að vilja gera betur í þessum málaflokki. Með þessu verkefni sjáum við tækifæri til þess að virkja umræðuna um fjölmenningarlegt samfélag og uppfylla markmið okkar,“ segir Jovana.

Verkefnið á sér aðdraganda og var áður svokallað innflytjendaverkefni styrkt af Sóknaráætlun til að bregðast við eftir covid. Þá var aðaláherslan á að ná til fólks af erlendum uppruna með fræðslu og náms- og starfsráðgjöf. Fjölmenningarskólinn á að ná til allra, líka Íslendinga. Á þessu ári er búið að kynna verkefnið í öllum sveitarfélögunum á Vesturlandi. Þar hafa flestir tekið vel í verkefnið, segir Jovana, og að einnig hafi skapast áhugaverðar umræður í kringum málefnið.

„Við sjáum að það þarf að sækja fram í þessum málflokki á Vesturlandi. Við höfum meðal annars reynt að virkja umræðuna um mikilvægi móðurmálskennslu, haldið námskeið í fjölmenningarfærni, en kannski stærsta og mikilvægasta verkefnið enn sem komið er var átakið „Hér er töluð allskonar íslenska“. Íslenskan er stór partur af allri umræðunni um fjölmenningu, en síðan eru líka kröfur samfélagsins gagnvart fólki af erlendum uppruna oft óskýrar og óljósar. Stundum er sagt að fólk eigi að tala íslensku, og samtímis að hún sé ekki nógu góð og fólk skilji ekki innflytjendur. Við verðum öll að gera betur og ekki fara alltaf í ensku.“

„Hér er töluð allskonar íslenska“

Það er staðreynd segir Jovana að margir hópar fólks af erlendum uppruna læri ensku á undan íslensku. „Tilgangur verkefnisins er að efla samtal og samskipti á allskonar íslensku. Við viljum að fólk af erlendum uppruna fái vitneskju um að það sé í lagi að tala málið þrátt fyrir að það sé ekki „fullkomið“ og um leið efla vitund og þolinmæði um að íslenska sé allskonar, bara eins og flest önnur tungumál. Það gildir engin sérstaða um hana eins og kannski þjóðernisumræðan vill oft meina.“

Símenntun lét gera barmmerki sem á stendur „Hér er töluð allskonar íslenska“ og dreifði um það bil 2.000 stykkjum um allt Vesturland til stofnana og fyrirtækja. Merkin eru fyrir alla, bæði innfædda og innflytjendur, og með merkjunum skapast rými til þess að fólk megi tala á allskonar íslensku. „Umræðan hefur lengi snúist um ofuráherslu á að auka framboð á íslenskunámskeiðum,“ segir Jovana „og við höfum svo sannarlega gert það líka hér í Símenntun í gegnum árin. En það þarf líka að vera pláss í samfélaginu til að tala málið, ef það er ekki þannig þá skapast fjarlægð og útilokun milli menningarhópa.“ Tungumálið sé ein meginforsenda inngildandi samfélags og það hafi reyndar komið á óvart hvað margar stofnanir hefðu viljað fá fleiri merki. Verkefnið stóð yfir í maímánuði og vakti athygli víðs vegar um Vesturland.

„En það er ekki nóg að hafa þetta einu sinni, við viljum gera þetta aftur á næsta ári og þarnæsta ári og svo framvegis. Að maímánuður á Vesturlandi verði mánuður allskonar íslensku og þó að allir dagar séu það, þá þurfum við oft áminningu,“ bætir Jovana við.

Á Facbook-síðu Símenntunar má sjá myndir sem margar stofnanir deildu frá sínum vinnustöðum af þátttakendum með merki í barminum. Í framhaldinu hafa allskonar aðrar hugmyndir sprottið úr þessu verkefni og umræður. T.d. að hafa opið hús í haust þar sem fólk í nærsamfélaginu getur komið saman og spjallað á allskonar íslensku. „Við verðum að valdefla fólk og gefa því pláss til að læra og líka gera mistök, það er besti lærdómurinn.“

Ljósmyndakeppni og margt fleira fram undan

Í sumar stendur Símenntun fyrir ljósmyndakeppni eins og í fyrra. Viðfangsefnið er eins og áður Fjölmenning og eiga þátttakendur taka mynd af einhverju sem þeim fannst vera fjölmenning, eitthvað sem þeir tengja við fjölmenningu eða eitthvað sem minnir þá á fjölmenningu. Jovana segir að þá hafi einnig skapast umræða um það hvað fjölmenning sé, enda sé það einmitt markmið verkefnisins. Hún bendir á að fylgjast með á Facebook og heimasíðu Símenntunar.

Spurð um verkefnin fram undan segir Jovana að margt sé á dagskrá í haust.

„Við höldum áfram að bjóða upp á fjölmenningarfærninámskeiðið sem hefur fengið frábærar viðtökur, að þróa námskeið í íslensku sem eru aðgengileg, ekki aðeins fjarnámskeið heldur viljum við líka huga að sveigjanleika eins og fyrir fólk sem er í vaktavinnu. Við stefnum á að bjóða stjórnendum menntastofnana ráðgjöf um fjölmenningu, að efla fyrirmyndir fyrir fólk af erlendum uppruna, sérstaklega börn og unglinga eins og t.d. í gegnum íþróttastarf. Líka almennt að virkja og hvetja alla hópa innflytjenda til að stunda meiri hreyfingu, eins og t.d með sundkennslu og fótboltamóti, sem er samfélagsleg þátttaka. Við ætlum að tala við félög sem standa að félags- og sjálfboðaliðastörfum og fá þau til að kynna innflytjendum starfsemi sína til að ýta undir samfélagslega þátttöku. Við gleymum gjarnan þessum mannlega þætti, oftast þarf bara lítið samtal til þess að tengja fólk,“ segir Jovana og bætir við:

Samtalið sé í báðar áttir

„Síðan þarf að huga að því að nú er um það bil ár í alþingiskosningar og mikilvægt að efla og bjóða upp á almenna fræðslu í haust um íslensk stjórnmál og stjórnmálasögu. Samræður sem Íslendingar eiga heima hjá sér um stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn ná ekki til fólks af erlendum uppruna og er þekking sem við þurfum að vera duglegri að miðla til þeirra. Þegar fólk veit meira um stjórnmál landsins og t.d. sögu flokkanna og annað þá getur það farið að taka þátt.“

Jovana segir að Símenntun geti boðið upp á fræðslu um borgaravitund en bæði fræðslan og samtalið þurfi hins vegar að fara í báðar áttir. Fólk af erlendum uppruna gleymist gjarnan þar til rétt fyrir kosningar þegar það þarf að tikka í box og skreyta framboðslistann með erlendum einstaklingi. „Þessu þarf að breyta og vonandi að það takist vel,“ segir Jovana að lokum.

Höf.: Guðrún Vala Elísdóttir