Afmæli Anna Elín Ringsted er 100 ára í dag, 20. júní.
Afmæli Anna Elín Ringsted er 100 ára í dag, 20. júní.
Fyrir nokkru sótti Anna Elín Ringsted um færni- og heilsumat til að komast inn á hjúkrunarheimili á Hrafnistu í Garðabæ en umsókninni var hafnað. „Mér var sagt að ég væri of hress,“ segir hún

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrir nokkru sótti Anna Elín Ringsted um færni- og heilsumat til að komast inn á hjúkrunarheimili á Hrafnistu í Garðabæ en umsókninni var hafnað. „Mér var sagt að ég væri of hress,“ segir hún. Anna Elín á 100 ára afmæli í dag og er vissulega vel á sig komin, tignarleg, há og grönn, ber sig vel og er hress, en æ skertari sjón er farin að há henni. Þó ekki svo að haldið verður upp á daginn með pomp og prakt. „Ég vildi bara bjóða fjölskyldunni hingað í íbúðina mína en börnin og barnabörnin vildu halda almennilegt partí í sal og þannig verður það. Ég ræð engu orðið!“

Foreldrar Önnu Elínar voru Sigurður Gísli Jóhannsson Ringsted, skipstjóri og útgerðarmaður, og Guðríður Gunnarsdóttir húsfreyja. Hún var yngst fimm systkina og ólst upp í Sigtúnum á Kljáströnd í Höfðahverfi við austanverðan Eyjafjörð. Í sama húsi bjuggu Ólafur Gunnarsson móðurbróðir hennar og Anna María Vigfúsdóttir ásamt átta börnum sínum. Dóra Ólafsdóttir var þar á meðal en hún var 109 ára þegar hún andaðist elst Íslendinga fyrir um tveimur árum. „Það er mikið langlífi í fjölskyldunni. Amma mín varð til dæmis 93 ára og var mjög hress, þvoði andlitið alltaf upp úr ómenguðu rigningarvatni.“

Útgerðin í Sigtúnum gekk vel og nóg var að bíta og brenna. „Við höfðum allt til alls og ólumst mest upp á fiski. Ég vildi helst borða fisk alla daga. Mér þykir þorskurinn bestur. Og svo lúðan. Ekki þurfti langt að fara. Sjóbirtingurinn var í fjörunni hjá okkur.“ Hún byrjaði ung að veiða með strákunum en hugurinn stefndi ekki til sjómennsku.

Hún man fyrst eftir sér þegar hún var fjögurra ára. „Pabbi var að koma frá Akureyri með bátinn úr slipp. Hann hafði lofað að kaupa handa mér vaðstígvél. Ég var í rúminu og beið eftir honum þegar hann kom snemma að morgni. „Komdu fram, Ella mín,“ kallaði hann. „Nei, ég ætla bara að vera svona,“ svaraði ég og rétti út annan fótinn undan sænginni, en málið var að ég hafði pissað á mig.“ Hún bætir við að faðir sinn hafi tekið á móti sér í fæðingu, því ljósmóðirin hafi ekki verið komin. „Hann byrjaði á því að rassskella mig, því ég orgaði ekki. Hafði lært þetta í sjómannaskólanum.“

Gekk fimm km í skólann

Önnu Elínu hefur aldrei orðið misdægurt. Hún þakkar það fiskneyslu og mikilli hreyfingu enda enginn bíllinn í æsku. „Ég hef alltaf gengið mikið. Við krakkarnir gengum til dæmis í skólann út á Grenivík daglega fram að fermingu, um fimm kílómetra hvora leið í hvaða veðri sem var. Brýnt var fyrir okkur að fara varlega og ekki nálægt mógröfunum en ganga undir Hrafnabjörgunum. Engin hús voru á leiðinni og færðin á veturna var oft hryllileg. Faðir minn varð úti á þessari leið, 70 ára að aldri.“

Hún fór í berjamó á hverju ári, síðast 89 ára, hefur alla tíð gengið mikið og fer í dagvistun tvo daga í viku, þar sem hún stundar líkamsrækt. „Ég gekk gjarnan meðfram sjónum um Álftanesið og stundum upp á Hafnarfjarðarveg og til baka. Þegar ég vann á Vífilsstöðum gekk ég oft í vinnuna.“

Enginn bíll var í Sigtúnum og heimilismenn fóru því allra leiða sinna gangandi eða siglandi. „Þegar foreldrar okkar vildu gera vel við okkur á sunnudögum var siglt út í Hrísey og þegar strákarnir vildu fara á ball á Akureyri fór pabbi með þá yfir Eyjafjörðinn og þeir tóku rútuna frá Dalvík.“

Dalvíkurskjálftinn svonefndi, sem reið yfir 2. júní 1934, situr enn í Önnu Elínu. „Húsið okkar skekktist á grunninum og ekki var hægt að loka tveimur stofuhurðum. Strákarnir, bræður mínir og frændur, þorðu ekki að sofa heima og fóru í snurpunótarbátinn og sváfu þar. Ég hef verið hrædd við jarðskjálfta síðan.“

Magnús Daníelsson, vélstjóri og lögreglumaður og eiginmaður Önnu Elínar, andaðist 2011. „Við hittumst á balli fyrir norðan,“ segir hún um fyrstu kynnin, en þau eignuðust sjö börn. Barnabörnin eru 15 og barnabarnabörnin 12. Hjónin ráku prjóna- og saumastofuna Sólina í Kópavogi um árabil en lengst af vann Anna Elín á hótelum og spítölum, m.a. á Vífilsstöðum síðustu 20 ár starfsævinnar, stundum 16 tíma vaktir. „„Er hún Elín góða með baðið núna?“ spurðu sjúklingarnir stundum. Þar hugsaði ég um sjúklinga til rúmlega sjötugs og átti mínar yndislegustu stundir.“

Anna Elín er ánægð með lífsins göngu, en segist sakna þess að geta ekki haldið áfram að sauma vegna sjónleysis. „Ég saumaði alltaf mikið, öll föt á mig og krakkana, líka utanyfirflíkur. „Ella, hvar fékkstu þennan jakka,“ spurði forstöðukonan þegar ég mætti eitt sinn í nýjum jakka. „Home made,“ svaraði ég. Mér leið aldrei eins vel og við saumavélina. Ég hefði aldrei beðið um að fara á Hrafnistu ef sjónin hefði verið í lagi, því þá hefði ég getað dundað við að sauma út.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson