Minnisvarði Á koparklæðningu Eddu – Húss íslenskunnar er að finna minnisvarða um zetuna, „allz ver erum æinnar tungu“ stendur þar ritað.
Minnisvarði Á koparklæðningu Eddu – Húss íslenskunnar er að finna minnisvarða um zetuna, „allz ver erum æinnar tungu“ stendur þar ritað. — Ljósmynd/Alda Möller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það var þannig að maðurinn minn ákvað að fara aftur í nám þannig að ég ákvað að gera slíkt hið sama,“ segir Alda Möller, í samtali við Morgunblaðið, sem í vor lauk meistaraprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands og skrifaði…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Það var þannig að maðurinn minn ákvað að fara aftur í nám þannig að ég ákvað að gera slíkt hið sama,“ segir Alda Möller, í samtali við Morgunblaðið, sem í vor lauk meistaraprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands og skrifaði lokaverkefni sitt um líklega umdeildasta bókstaf íslenskrar tungu, zetuna, sem íslenskir þingmenn deildu hástöfum um árin 1974 til '78, jafnvel á næturfundum.

Skartar ritgerð Öldu titlinum „Z“ í íslensku ritmáli frá öndverðu til okkar daga og rekur hún þar sögu bókstafsins, eða öllu heldur framkvæmir „athugun á notkun táknsins „z“ og hlutverki þess í íslensku ritmáli, allt frá því „z“ birtist í elstu handritsbrotum frá miðri 12. öld og þar til hún var aflögð í skólastarfi og opinberum gögnum með stjórnvaldsaðgerð 1973“.

Ekki lítil athugun þar á ferð sem Alda tókst á hendur undir handleiðslu Haralds Bernharðssonar, dósents við íslensku- og menningardeild HÍ, sem hún ber ákaflega vel söguna og kallar strangan og góðan leiðbeinanda. Kveikjan að rannsókn Öldu voru skrif ekki ómerkari manns en Sveinbjarnar rektors og skálds Egilssonar við Lærða skólann í Reykjavík.

Sveinbjörn sem frumkvöðull

„Ég hafði skrifað og lesið dálítið mikið um Sveinbjörn Egilsson, BA-ritgerðin mín var um íslenskukennslu í Bessastaðaskóla og þó að Sveinbjörn kenndi formlega séð ekki íslensku heldur grísku var hann samt alltaf að kenna íslensku,“ segir Alda sem kveðst hafa heillast af þýðingu rektorsins á Ódysseifskviðu gríska skáldsins Hómers og greint þar málbreytingar er vakið hafi forvitni hennar.

„Ég fór að líta á hann sem frumkvöðul í þeirri málstöðlun sem fyrst og fremst átti sér stað á 19. öld, en í verkum sínum er hann svolítið á undan öðrum því við erum yfirleitt að tala um málstöðlunina frá miðri þeirri öld, en hann var virkastur sjálfur eftir að hann kom til starfa 1820 og fram undir 1850,“ útskýrir Alda.

Með endurritun Ódysseifskviðu 1845 hafi markmið kennarans og tungumálagarpsins Sveinbjarnar verið að samræma stafsetningu og málfar. Í því handriti Sveinbjarnar segist Alda hafa greint ýmsar nýjungar sem síðar urðu hluti af málstaðlinum.

„Sem kennari og rektor hafði Sveinbjörn áhrif á mjög marga og um þetta átti meistaraprófsritgerðin mín að fjalla, en ég leiddist út í að skrifa um zetuna vegna þess að ég sá þarna hjá honum svo mikinn vafa um hvort zetan væri yfirleitt á vetur setjandi ef það má orða það svo,“ heldur hinn nýútskrifaði magister áfram.

Fikraði sig aftur á bak

Sveinbjörn hafi í téðu handriti í fyrstu köflunum ekki notað zetuna heldur ts, ds og ðs, en síðar snúist hugur og með yfirstrikunum bætt henni í textann.

„Ég hef að gamni mínu rakið það til þess að hann hitti fyrir mann sem síðar varð kennari í Lærða skólanum, Gísla Magnússon, sem greinilega las honum pistilinn um að hann væri ekki að samræma málfarið eða hlýða nýjustu kenningum um zetuna. Þá fór ég að hugsa um hvernig hinn mikli málvísindamaður hefði verið í vafa um þetta atriði, það var svo greinilegt að hann ætlaði sér ekki að nota zetu þarna 1845 en lét svo til leiðast,“ segir Alda.

Hún hafi þar með tekið að fikra sig aftur á bak og þannig séð hvernig zetan hafi komið inn aftur í íslensku. Svarið hafi hún fundið er hún var komin aftur að danska málfræðingnum Rasmusi Christian Rask sem lést árið 1832.

Haraldur féllst á verkið

„Það er eiginlega í Fornmanna sögum frá 1825 sem zetan kemur inn og búnar eru til reglur um notkun hennar sem síðar voru teknar upp. Enginn vafi leikur því á að upphafsmaðurinn hafi verið Rask, en Sveinbjörn, sem dáði Rask mikið sem málvísindamann, er þó mjög hikandi við að taka upp þetta tákn,“ segir Alda frá.

Þar með hafi hún hafið ferðalag sitt aftur í aldir og þá séð hve margvísleg notkun zetunnar var í eldri íslenskum handritum þar sem hún var notuð hvort tveggja fyrir tannhljóð + s en einnig s + t.

„Svo er ég komin aftur til 1150 áður en ég veit af og þá er þessi stúdía orðin svo viðamikil að Haraldur féllst á að þetta yrði meistaraverkefnið mitt,“ segir Alda og hlær við, „ég myndi kalla þetta sjálfsprottið en til að setja punktinn aftan við þetta þá vildi ég nú ekki gera þessar rannsóknir mínar á Sveinbirni að engu, svo ég tók tíu eininga rannsóknarverkefni um Sveinbjörn sem ég skilaði núna í maí sem var í raun mitt síðasta verkefni í náminu – að taka upp þráðinn og klára þetta mál með Sveinbjörn,“ heldur hún áfram.

Voru það þá aðallega skrif Sveinbjarnar sem þú studdist við auk þess sem aðrir fræðimenn hafa sent frá sér?

„Nei,“ svarar Alda um hæl enda skoðaði hún fjölda handrita við rannsóknina þar sem hún kannaði notkun zetunnar og var elsta viðfang hennar handritið AM 237 a fol frá um 1150, tvö blöð úr predikunarbók fornri.

Sleppir ekki Flateyjarbók

„Þar sér maður zetuna í fyrsta skipti og þar kemur hún til dæmis fyrir í orðinu „allz“. Svo skoðaði ég Íslensku hómilíubókina sem er náttúrulega mest rannsakaða verkið frá þessum tíma og þar var zetan orðin mjög áberandi,“ segir Alda sem hélt áfram eljuverki sínu og rakti sig gegnum alla 13. öldina.

„Þar sá ég að zetan var að skjóta rótum víðar og víðar í textanum og um miðja 13. öld er hún komin inn í miðmyndina og efsta stigið þar sem hún var ekki til að byrja með. Þá er hún farin að standa líka fyrir st en ekki aðeins tannhljóð + s,“ segir Alda sem næst tók fyrir stórvirkið Flateyjarbók, „þú stúderar ekkert íslensk fornrit án þess að taka hana fyrir svo ég skoðaði hana mjög ítarlega og sá hvernig tveir helstu ritarar hennar höfðu nokkuð mismunandi reglur, annar þeirra töluvert íhaldssamari en hinn.“

Á 16. öldinni kveðst Alda hafa orðið vör við miklar breytingar, einkum hvað snerti sjálfa Guðbrandsbiblíu er leit dagsins ljós árið 1584. „Ég sé fyrir mér að Guðbrandur sjálfur hafi verið þar yfirprófarkalesari og þá hættir hann að nota zetu í miðmynd og efsta stigi. Við þetta verður dálítið mikil hreinsun í textanum,“ segir rannsakandinn.

Kveður hún annað ótækt en að bera saman við þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540, á milli þessara geistlegu rita tveggja verði miklar breytingar á rithætti að því leyti sem sjónarhorn rannsóknar hennar snerti. „Þá fer þetta að líkjast miklu meira því sem við myndum kannast við,“ segir Alda og á þar við breytinguna á þeim áratugum sem líða milli útgáfu ritanna tveggja á 16. öld.

Öldina eftir fari svo mikið púður í að skrifa upp gömul handrit og segir Alda að þar megi greina mikla hreinsun í uppskriftunum, það er að segja fækkun bókstafsins sem rannsókn hennar snerist um. „Henni er samt haldið, og það á svolítið ólíkum stöðum, en svo þegar kemur fram á 18. öld hverfur zetan bara og er hreint ekkert notuð þá öldina, menn meira að segja amast við henni þar sem hennar er getið,“ segir hún frá og nefnir tilvísun í Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðing, sem henni hafi þótt skondin.

Aldrei séð neitt fallegt um z

„Hann segir að ef menn vilji megi hún sjálfsagt vera í stafrófinu sem iðjulaus stafur og mér finnst það orðalag dálítið skemmtilegt. Ég hef aldrei séð neitt fallegt skrifað um zetuna,“ bætir Alda við og hlær.

Er komið hafi fram á 19. öldina hafi Rask einfaldlega ákveðið að zetan stæði fyrir ts, ds eða ðs samkvæmt uppruna og þá bæði í stofni og beygingarendingum „þar sem ætla mætti að staðið hefði ts, ds eða ðs“. „Þannig að þessar reglur Rasks eru í rauninni smíðaðar og hann segir á einum stað að þar með geti menn fækkað samhljóðum um einn í samhljóðarunum og þá verði málið minna „barbarískt“, hann notar það orð,“ vitnar Alda í málfræðinginn og Íslandsvininn danska.

Hún segir þó augljóst að menn hafi almennt ekki ætlað sér að taka þessar reglur upp, hvorki Fjölnismenn né Árni Helgason, stiftprófastur í Görðum, þótt svo hafi síðar orðið.

„Það verður því ofan á að fylgja reglum Rasks og svo kemur til starfa maður sem hafði óskaplega mikil áhrif á stafsetningu fram á okkar daga og það er Halldór Kr. Friðriksson í Lærða skólanum sem var svo strangur kennari að menn bara lærðu reglurnar sem hann setti og svo síuðust þær út í þjóðfélagið,“ útskýrir Alda.

Annar maður sem tók fljótt upp notkun zetu er Jón Sigurðsson forseti. „Hann var áhrifamaður á svo mörgum sviðum og þess vegna efast ég ekki um að skrif hans, til dæmis í Ný félagsrit, hafi haft mikil áhrif. Hann skrifaði zetu algjörlega samkvæmt reglum Rasks, en hann var hins vegar aldrei í Lærða skólanum eða Bessastaðaskóla þannig að hann tekur þetta upp sjálfur, enda mikill fornmenntamaður,“ segir Alda.

Hins vegar segist hún telja að málfar Jóns Sigurðssonar hafi ekki verið rannsakað að neinu ráði þar sem efni þess sem hann skrifaði hafi haldið athygli lesenda langt umfram málfarið.

„Ég var nú í einum af síðustu árgöngunum sem lærðu zetu og þeir sem lærðu zetu sjá sumir eftir henni,“ rifjar Alda upp og getur ekki varist hlátri. „Hún varð hins vegar að fara þar sem lærðir málfræðingar, sem voru líka kennarar, sögðu að það færi bara of mikill tími í að kenna hana,“ segir Alda Möller að síðustu, nýbakaður magister í íslenskri málfræði með rannsókn sinni á notkun zetunnar í málinu frá örófi alda og allar götur fram til ársins 1973.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson