Ljóðalestur Ari Gísli hyggst lesa upp ljóð með tilþrifum í dag og aldrei að vita nema höfundar og góðvinir Bókarinnar mæti og lesi úr verkum sínum.
Ljóðalestur Ari Gísli hyggst lesa upp ljóð með tilþrifum í dag og aldrei að vita nema höfundar og góðvinir Bókarinnar mæti og lesi úr verkum sínum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mjög langt síðan við höfum verið með útsölu í Bókinni og það er gríðarlega mikið magn af bókum sem til eru hjá okkur svo mér fannst tilvalið að halda myndarlega bókaveislu og bjóða upp á flatan 50% afslátt af öllum bókum búðarinnar…

Viðtal

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er mjög langt síðan við höfum verið með útsölu í Bókinni og það er gríðarlega mikið magn af bókum sem til eru hjá okkur svo mér fannst tilvalið að halda myndarlega bókaveislu og bjóða upp á flatan 50% afslátt af öllum bókum búðarinnar næstu tíu daga,“ segir Ari Gísli Bragason, eigandi Bókarinnar á Klapparstíg.

Ari Gísli hefur rekið fornbókabúðina Bókina á horninu á Klapparstíg og Hverfisgötu árum saman, en margir af eldri kynslóðinni muna eftir henni sem Fornbókabúð Braga, sem var kennd við föður Ara Gísla, Braga Kristjónsson. Nú er Bragi alveg hættur að sýsla í búðinni en fastagestir í gegnum tíðina sækja búðina heim reglulega, enda er verslunin vin í miðbænum fyrir bókasafnara og áhugamenn um andans málefni.

Vin í miðbænum

Allir sem hafa heimsótt Bókina vita að Ari Gísli fer ekki með fleipur þegar hann segir að mikið sé til af bókum, því bækur og alls kyns varningur þekur alla veggi og allir bókaskápar eru stútfullir af bókum og gersemum. Orðspor verslunarinnar hefur enda borist víða og ekki bara íslenskir bókasafnarar og unnendur orðsins sem heimsækja verslunina heldur einnig bókasafnarar víðs vegar að. „Helsta gáfufólk landsins hittist hér og þótt víðar væri leitað,“ segir Ari Gísli. „Við fáum líka margar heimsóknir frá erlendum bókasöfnurum sem gera sér sérstaka ferð til að heimsækja búðina og einnig Íslendingar erlendis og Íslandsvinir.“

Hann segir líka að túristar komi í búðina í torfum þótt hann hafi ekki gert gangskör að því að laða þá til sín sérstaklega. „En þótt við séum mest með íslenskar bækur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og skáldsögur, erum við líka með mikið af erlendum bókum.“

Lét senda póstinn í búðina

Velunnarar Bókarinnar hafa skipt þúsundum í gegnum árin og sumir hafa nú yfirgefið sviðið. „Einn af þeim var Jóhann Pétursson vitavörður, sem var mikill vinur minn og daglegur gestur í árdaga verslunarinnar. Hann hafði verið mikill vinur Steins Steinarrs og Ragnars í Smára og sagði skemmtilegar sögur af áhugaverðu fólki.“

Þá lét fyrrverandi heimsmeistari í skák, Bobby Fischer, senda sér póst í verslunina, en hann bjó stutt frá á Hverfisgötunni. „Eitt sinn kom Fischer í búðina og spurði hvort hann hefði fengið póst og þá hafði hann fengið bréf í bleiku umslagi. Hann bað mig vinsamlegast um að opna póstinn, og þegar ég gerði það sá ég hann bakka í burtu. Þegar ég dró upp bréfið, sem mér sýndist vera aðdáandabréf frá kvenkyns aðdáanda, kallaði Fischer, sjáanlega órólegur: „It’s poisoned! It’s poisoned!“ Það rann upp fyrir mér að hann taldi bréfið baneitrað og ég sá að skákmeistarinn hafði ákveðið að fórna mér eins og hverju öðru peði í þessari skák lífsins,“ segir Ari Gísli.

Málin rædd yfir kaffibolla

Ari Gísli segir fólk á öllum aldri koma í Bókina til sín. „Það hafa í gegnum tíðina verið ívið fleiri karlar en konur,“ en segir að samt hafi nokkrar konur verið í hópi fastagesta sem hittust í búðinni og fengu oft kaffibolla meðan verið var að grúska og ræða um bókmenntir og landsins gagn og nauðsynjar. „Síðan er ungt fólk að sækja sig í veðrið og ég hef gaman af því hvað því er að fjölga í viðskiptahópnum okkar,“ segir hann og bætir við að margt af unga fólkinu sæki í ljóðabækurnar enda sé mikil ljóðavakning meðal ungs fólks í landinu eins og sjá megi af blómlegri ljóðaútgáfu ungra skálda síðustu ár.

Ljóð eru Ara Gísla hugleikin, enda hefur hann samið þau nokkur og hyggst flytja nokkur þeirra í dag fyrir viðskiptavini.

„Ég hef gaman af því að flytja ljóð með tilþrifum og svo býst ég við að nokkur skáld og rithöfundar komi og lesi kannski upp úr sínum verkum. Þetta verður líf og fjör hjá okkur og ef veður leyfir setjum við út bókaborð á pallinn Klapparstígsmegin.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir