Flóð Titilverkið á sýningu Jónsa „Flóð“ er hljóð- og ljósainnsetning.
Flóð Titilverkið á sýningu Jónsa „Flóð“ er hljóð- og ljósainnsetning.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsi – Listahátíð í Reykjavík Flóð ★★★★½ Jón Þór Birgisson, Jónsi, sýnir. Sýningarstjórn: Markús Þór Andrésson. Sýningin stendur til 8. september 2024. Opið alla daga frá kl. 12-17, fimmtudaga til 22.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Einn af lykilviðburðum Listahátíðar í ár er sýning Jóns Þórs Birgissonar, Jónsa, í Hafnarhúsinu. Sýningin ber titilinn Flóð sem er jafnframt heiti meginverks hennar. Jónsi er þekktari sem tónlistarmaður en myndlistarmaður, en hann er lykilaðili í hljómsveitinni Sigur Rós. Á þessari sýningu kynnist fólk myndrænum verkum sem Jónsi hefur unnið við á síðustu sjö árum. Á sýningunni eru í heild þrjú rýmisverk, flest umlykjandi innsetningar þar sem fjölþættir miðlar vekja skynhrif hjá viðstöddum.

Jónsi hefur undanfarin þrjátíu ár starfað með Sigur Rós. Fyrir utan seiðandi og áleitna tónlistina hefur hljómsveitin vakið athygli fyrir sviðsframkomu þar sem myndefni og lýsing hefur verið nýtt til að skapa fjölbreytt skynhrif. Myndbönd hljómsveitarinnar hafa einnig verið sérstæð og listræn. Opinber myndbönd við lög þeirra hafa verið gerð af myndlistarmönnum, innlendum sem erlendum; sérstæð myndverk sem styrkja yfirbragð tónlistarinnar.

Umlykjandi innsetningar, eins og þær sem eru á sýningunni nú, eru listaverk sem höfða til fjölbreyttra skynfæra. Þau rekja sögu sína allt aftur til sjötta áratugar síðustu aldar en hafa á síðustu árum orðið sífellt meira áberandi hér á landi. Sigurður Guðmundsson á iðulega í samstarfi við tónlistarmenn um hljóðmynd við kvikmyndaefni sitt í umlykjandi verkum sínum. Rúrí hefur um árabil unnið viðamikla kvikmyndagjörninga í samstarfi við tónlistarmenn. Hljóð- og ljósainnsetningar Finnboga Péturssonar eru sterkar og ævinlega alltumlykjandi. Viðamiklar innsetningar Ólafs Elíassonar hafa einnig lengi haft sterka tengingu við íslenskan myndlistarheim. Það er á þessum grunni sem greina má rætur Jónsa í myndlist. Hann hefur sóst eftir að ná fram heildrænum hughrifum í verkum sínum, í því að skapa ástand upplifunar sem er umfram tónlistina sjálfa. Þessi myndræna sýn er í meðförum hans nauðsynleg viðbót við tónlistina. Form innsetningarinnar og áhrif hennar bjóða upp á mun heildstæðari og stýrðari upplifun en tónlistin ein og sér, nokkuð sem birtist okkur í núverandi sýningu.

Meginverk sýningarinnar er innsetningin „Flóð“, í stóra salnum á fyrstu hæð. Gengið er inn í almyrkvaðan sal. Fjölmargir hátalarar allt í kring skapa víðóma og alltumlykjandi hljóðheim. Í lofti fyrir miðju er fínlegur ljósaborði. Birtan flæðir um hann og er á stöðugu flökti og hreyfingu. Stundum er gesturinn í myrkri, stundum verður birtan skærari þannig að hægt er að greina rýmið óljóst í gegnum eiminn frá reykvél sem fyllir salinn og ber keim af reykmettuðum sjávarilmi. Gesturinn er staddur í hráu umhverfi; myrkrið er allt um kring, stundum rofið af vélrænni lýsingu. Lýsingin er reikul, að því er virðist í takt við hljóðheim verksins. Hér er um að ræða alltumlykjandi verk þar sem gestur sýningarinnar er staddur í altæku umhverfi sem yfirgnæfir skilningarvitin. Hljóðheimurinn er þungamiðja verksins sem byggist á samsetningu náttúrulegra hljóða sem umhverfast í söngl og tónlist: arfleifð Sigur Rósar leynir sér ekki.

„Sad“ er, eins og „Flóð“, verk þar sem hljóð og lýsing eru samverkandi. Verkið er tromlulaga ljósaveggur þar sem skært hvítt ljós umlykur líkama gestsins. Ljósið er ofurskært, það flöktir og tifar í takt við tónlistina og gefur stundum eftir. Hljóðheimurinn er einfaldari og líkist tónlist Sigur Rósar. Skær birtan og tónlistin hafa á sér guðlegt og háleitt yfirbragð, í áhugaverðri andstöðu við þungann í „Flóð“.

„Rek“ er sýnu drungalegra. Sex stórar ryðgaðar stálplötur mynda rými verksins, hangandi á báðar hendur í myrkvuðum salnum. Þröng lýsing afmarkar miðju hverrar plötu. Á baki hverrar plötu er sveiflugjafi sem fær plöturnar til að titra, þannig að þær óma. Hér skapast framandi efnisleg og jarðkennd tilfinning þar sem menn eru fjarri.

Í heildina er þetta sterk og áhrifarík sýning þar sem hljóðvinnsla og skýr mynd- og rýmishugsun skilar sér í sterkri líkamlegri upplifun gesta hennar. Verkin eru einföld í uppbyggingu en smáatriðin við útfærslu þeirra skila sér í áhugaverðri samsetningu ólíkra þátta: lýsingar, rýmiskenndar, hljóðheims og tónlistar, sem og angandi andrúmslofti.