Skál Rússlandsforseti og leiðtogi Norður-Kóreu sjást hér snæða léttan hádegisverð. Heimsókn forsetans til Pjongjang virðist afar glæsileg.
Skál Rússlandsforseti og leiðtogi Norður-Kóreu sjást hér snæða léttan hádegisverð. Heimsókn forsetans til Pjongjang virðist afar glæsileg. — AFP/KCNA
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu hafa myndað nýtt varnarbandalag. Ríkin hafa verið bandamenn allt frá stofnun Norður-Kóreu skömmu eftir seinna stríð, en nú hefur hins vegar tekið gildi samkomulag um hernaðaraðstoð sé á þau ráðist

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu hafa myndað nýtt varnarbandalag. Ríkin hafa verið bandamenn allt frá stofnun Norður-Kóreu skömmu eftir seinna stríð, en nú hefur hins vegar tekið gildi samkomulag um hernaðaraðstoð sé á þau ráðist. Rússlandsforseti segir bandalagið sögulegt.

„Þetta er sannkölluð tímamótayfirlýsing,“ segir Pútín en ummælin lét hann falla á sameiginlegum blaðamannafundi hans og leiðtoga Norður-Kóreumanna í Pjongjang. Segir hann það meðal annars fela í sér „sameiginlega hernaðaraðstoð“ verði ráðist á annað hvort ríkið. Yfirlýsing leiðtoganna kemur ekki Vesturlöndum alfarið á óvart. Samband Rússlands og Norður-Kóreu hafi styrkst jafnt og þétt frá upphafi árásarstríðs Rússa í Úkraínu. Hafa Rússar t.a.m. þurft á hernaðaraðstoð að halda og eru norðanmenn sagðir hafa sent þeim bæði skotfæri og eldflaugar. Bandalagið er þó sagt áhyggjuefni og gulltryggir að mati Vesturlanda áframhaldandi vopnasendingar frá Norður-Kóreu til innrásarsveita Rússlands í Úkraínu.

Vesturlönd séu kúgarar

Pútín segir Rússland ekki útiloka að veita vísindamönnum í Pjongjang aðgang að tækniupplýsingum sem mikilvægar eru til að þróa og hanna hátæknivopnakerfi. Eins opnar nýgert samkomulag á náið samstarf ríkjanna í hönnun nýrra vopnakerfa. Hvaða vopnakerfi þetta eru nákvæmlega er ekki vitað en líklega er um að ræða eldflaugatækni og hugsanlega einnig vopn sem grandað getur njósnahnöttum á sporbraut um jörðu.

Leiðtogi Norður-Kóreu segir Rússlandsforseta vera „náinn vin norðurkóresku þjóðarinnar“ og að Pjongjang styðji ákvörðun Moskvuvaldsins um að ráðast inn í Úkraínu.

Rússlandsforseti tekur í svipaðan streng, segir Moskvu standa í þakkarskuld við Pjongjang vegna hins mikla stuðnings við Úkraínuinnrásina. Eins segir hann Bandaríkin og Vesturlönd beita Norður-Kóreu ósanngjörnum refsiaðgerðum og að afnema eigi þær hið snarasta. Þær séu í raun ekkert annað en „kúgun“.

Höf.: Kristján H. Johannessen