Niðurlæging Rússa í Norður-Kóreu

Einangrun Rússlands ásamt vandræðum eftir hina illa heppnuðu innrás í Úkraínu var bersýnileg í ferð Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta til Pjongjang, höfuðborgar útlagaríkisins Norður-Kóreu.

Þangað þurfti Pútín að fara til að leita stuðnings við stríð sitt og ekki þó síður í leit að vopnunum til þess að heyja það.

Norður-Kórea er ömurlegt ríki, undir járnhæl einnar fjölskyldu, sem þjóðinni er talin trú um að sé goðumlík. Þar er rekið kommúnískt stríðshagkerfi, aflögufært til þess að sjá Rússum fyrir hergögnum og eitt örfárra ríkja sem einnig eru viljug til þess. Eins og Íran, annað útlagaríki.

Þetta er félagsskapurinn sem Pútín hefur haft upp úr krafsinu og þess vegna þurfti hann að fara til Pjongjang til að niðurlægja sig og flaðra upp um einræðisherrann Kim Jong-un.

Rússar fá þar eldflaugar og stórskot, sem ört gengur á í Úkraínustríðinu, en láta hráolíu í skiptum. Nú gefa þeir til kynna að kjarnorkukafbátur og gervihnattatækni kunni einnig að vera á boðstólum.

Það verður ekki friðvænlegra í heiminum við það, en stóra spurningin er hvort Kínverjar vilji leyfa það.

Pútín á mikið undir stjórninni í Peking, eins og sjá má af yfirlæti Xi Jingping í hans garð, en það er óvíst að hún vilji að Kim Jong-un færi sig upp á skaftið í bakgarðinum.

En það eru fleiri sem Pútín getur reitt sig á. Nú í maí seldu Rússar meira jarðgas til Evrópu en Bandaríkin gerðu. Hvernig ber að túlka það að velflest Vestur-Evrópuríki dragi lappirnar í hernaðarstuðningi við Úkraínu en séu enn að kosta herför Pútíns með orkukaupum í Rússlandi?