[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vegagerðin hefur opnað fyrir umferð um þrjá hálendisvegi til viðbótar við þá sem höfðu verið opnaðir. Um er að ræða Lakagígaveg, Landmannaleið og Veiðivatnaleið. Þetta kemur fram á nýju hálendiskorti sem birt var á þriðjudag, en það gildir frá og með gærdeginum

Guðrún Sigríður Arnalds

gsa@mbl.is

Vegagerðin hefur opnað fyrir umferð um þrjá hálendisvegi til viðbótar við þá sem höfðu verið opnaðir. Um er að ræða Lakagígaveg, Landmannaleið og Veiðivatnaleið. Þetta kemur fram á nýju hálendiskorti sem birt var á þriðjudag, en það gildir frá og með gærdeginum. Meðal þeirra hálendisleiða sem sem áður var búið að opna eru Kjalvegur og Sigölduleið inn í Landmannalaugar.

Sverrir Unnsteinsson, þjónustufulltrúi Vegagerðarinnar, segir vegi á Norðurlandinu vera í ákveðinni biðstöðu vegna hrets í byrjun mánaðarins, og einnig sé ekki alveg hægt að segja til um opnun á einhverjum vegum sunnar. „Það náttúrulega frestaðist allt út af þessu hreti sem var á Norðurlandinu í byrjun mánaðarins.“

Víða enn lokað

Þá segir Sverrir erfitt að segja til um hvenær vegirnir sem á eftir að opna verði tilbúnir, en búast megi við því að vegirnir á Suðurlandi verði opnaðir í fyrra falli í ár. „Það á eftir að gera við einhverjar skemmdir á einhverjum vegum, og einhvers staðar á eftir að leyfa þeim að þorna betur. Það er svo náttúrulega búið að opna í Landmannalaugar og Laka, það er að segja Dómadalsleiðina og Sigölduleiðina.“

Enn er Sprengisandur lokaður sem og svæðið norðan Vatnajökuls, en Sverrir segir stefnt að því að opna Sprengisand upp að Nýjadal eftir að búið er að opna Fjallabak syðra, og það vonandi fyrir mánaðamót, ásamt öðrum vegum sem á eftir að opna.

Kaldidalur og Arnavatnsheiði eru einnig enn lokuð svæði, en þessar leiðir eru oft með þeim fyrstu sem opnast á sumrin og jafnan búið að opna þær á þessum tíma árs.

Aðspurður segir Sverrir hins vegar stöðuna á opnun vega núna vera ögn betri en hún var í fyrra, en það sé þó misjafnt eftir landshlutum. „Til dæmis er Norðurlandið verra en í fyrra, en Suðurlandið líklega heldur betra. Það er út af þessu hreti sem Norðurlandið er svona eftir á.“

Allur akstur innan skyggðra svæða er bannaður þar til annað verður auglýst. Er það vegna hættu á vegaskemmdum. Meðfylgjandi kort segir aðeins til um hvar umferð er heimil eða óheimil vegna aurbleytu en segir ekki til um færð utan skyggðra svæða sem er háð aðstæðum hverju sinni.

Höf.: Guðrún Sigríður Arnalds