Gestir Kalman Stefánsson, annar f.v., ásamt konu sinni, Bryndísi Jónsdóttur. Með þeim Jónas og Brynja Kjerúlf.
Gestir Kalman Stefánsson, annar f.v., ásamt konu sinni, Bryndísi Jónsdóttur. Með þeim Jónas og Brynja Kjerúlf. — Morgunblaðið/A.I.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1965 „Einhverju sinni lýsti ágætur maður því yfir, að engir væru eins ósamvinnuþýðir og Borgfirðingar.“ Kalman Stefánsson, bóndi og formaður Félags ungra sjálfstæðismanna í Mýrasýslu.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Hin árlegu héraðsmót Sjálfstæðisflokksins voru fastur punktur í tilveru margra á sjöunda áratugnum. Sumarið 1965 stóð til að halda 27 slík mót og hugðist Morgunblaðið gera þeim öllum skil í máli og myndum, að því er fram kom í grein í blaðinu um miðjan júní. Þá voru fyrstu héraðsmótin einmitt nýafstaðin og hafði vel tekist til og glatt verið á hjalla, svo sem fram kom strax í fyrirsögn.

„Héraðsmótin sækja jafnt ungir sem hinir eldri. Þar er jafnan margt um manninn, enda kom það í ljós um sl. helgi,“ sagði Morgunblaðið. „Áður en dans hefst, er tveggja klukkustunda dagskrá, ávörp og þess á milli dagskrá í umsjá hljómsveitar Svavars Gests. Svarari er sannarlega lagið að koma öllum í gott skap, og hin ágæta hljómsveit hans er öllum að góðu kunn. Efnisskrá er hin fjölbreyttasta: létt músík fyrir alla, mörg laganna með gamansömum textum eftir Ómar Ragnarsson, en hljómsveit Svavars gerir sér einmitt far um að flytja lög með íslenzkum textum. Þá hefur Svavar sett saman gamanþætti, sem meðlimir hljómsveitarinnar flytja.“

Hófst svo yfirferðin og blaðamaður Morgunblaðsins drap fyrst niður fæti í Hlégarði, sem þá var í Mosfellssveit. Meðal ræðumanna voru dr. Bjarni Benediktssson forsætisráðherra og Árni Grétar Finnsson, lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, en rík áhersla var lögð á það þetta sumar að láta rödd unga fólksins heyrast.

Góður rómur var gerður að skemmtidagskrá Svavars Gests, ekki síst spurningakeppni sem hann blés til milli Mosfellssveitunga og Kjósverja. Blaðið sagði spurningarnar hafa vakið óskipta kátínu og nefndi dæmi: Hvenær stendur Ástralíubúi á öðrum fæti?

Því miður fylgdi ekkert svar með. En þið kannski vitið þetta?

Mosfellssveitungar fóru með sigur af hólmi en enn kitlaði Svavar hláturtaugar viðstaddra þegar hann mismælti sig og talaði um Mosfellssýslu en ekki -sveit.

„Að dagskrá lokinni var dansað og með því að jafnt hlutfall var milli ungs fólks og hinna eldri, var dansmúsíkin miðuð við það. Sumir höfðu þó lítinn áhuga á dansi, og það sagði okkur ung stúlka úr sveitinni, sem hafði komið með foreldrum sínum, að það væri ómögulegt með þessa „gömlu karla“, – þeir sætu frammi í anddyri og rifust um hreppapólitík,“ sagði tíðindamaður.

Þarna hitti blaðið að máli ung hjón, sem bjuggu að Reykjum í Mosfellssveit, Garðar Halldórsson og Ástu Kristjánsdóttur. Létu þau vel af félagslífinu í sveitinni: „Hér að Hlégarði eru haldin þorrablót, hjónaböll, Félag ungra sjálfstæðismana gengst fyrir margvíslegum skemmtunum og Ungmennafélagið sér um íþróttamót – já, og 17. júní hátíðarhöldin fara fram hér. Hér eru kvikmyndasýningar tvisvar í viku og dansleikir um hverja helgi. Annars er því ekki að neita, að fólk sækir talsvert til Reykjavíkur enda ekki langt að fara.“

– Og samgöngur til Reykjavíkur í góðu lagi?

„Já, mikil ósköp, – fjórar ferðir á dag og fleiri um helgar.“

Stólakostur dugði ekki til

Kvöldið eftir var útsendari Moggans mættur að Flúðum, þar sem næsta héraðsmót fór fram.

„Mikill mannfjöldi sótti þetta héraðsmót, flestir úr Árnessýslu, en einnig voru margir langt að komnir. Þarna sáum við meðal annarra allmarga nýslegna stúdenta frá Laugarvatni. Þeir höfðu sloppið úr síðasta prófinu þá um daginn, og gerðu sér dagamun að Flúðum. Hinn stóri salur samkomuhússins var þéttsetinn, er dagskráratriði hófust, en undir lokin dugði stólakostur hússins ekki til,“ stóð í fréttinni. Dr. Bjarni var aftur mættur til að ávarpa samkomuna, ásamt fleirum.

Svavar Gests og félagar voru aftur mættir og gerðu ekki minni lukku. Áður en spurningakeppnin hófst tilkynnti Svavar að þeir sem bæru sigur úr býtum fengju ókeypis aðgang að dansleiknum að loknum dagskráratriðum, hinir fengju að skúra gólf samkomuhússins að dansleik loknum. Dátt var hlegið.

„Þegar leið á dansleikinn fór ekki á miIli mála, að unga fólkið var í miklum meirihluta, og það kunni sannarlega að meta hina góðu dansmúsík.“

Morgunblaðið tók Sigmund Sigurðsson oddvita tali á héraðsmótinu en hann bjó að Syðra Langholti. Fyrst var spurt hvort gróska væri í félagslífinu.

„Það er víst óhætt að segja það,“ svaraði Sigmundur. „Segja má að félagsheimilið sé upptekið flest kvöld, einkum á vetuma. Það er alltaf eitthvað um að vera: leikæfingar, söngæfingar, spilakvöld, körfuboltaæfing, bændafundir, ungmennafélagsfundir eða kvenfélagsfundir. Óhætt er að fullyrða, að við höldum unga fólkinu alveg í sveitinni.“

Söngur vinstri handarinnar

Morgunblaðið lét ekki þar við sitja heldur var mætt í samkomuhúsið að Brún í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu að kvöldi sunnudags. Enn var Svavar mættur með sitt lið og sömu dagskrá, utan það, að Ragnar Bjarnason og Garðar Karlsson fluttu gamanþátt, sem lagður var út af „Söng villiandarinnar“. Svavar nefndi þáttinn raunar „Söng vinstri handarinnar“.

Dr. Bjarni lét sig heldur ekki vanta. Flandur á forsætisráðherra þessa helgina.

Kalman Stefánsson bóndi í Kalmanstungu hélt einnig ræðu en hann var formaður Félags ungra sjálfstæðismanna í Mýrasýslu. Blaðamaður Moggans notaði tækifærið og spjallaði við Kalman um stund meðan dansinn dunaði. Fyrst var spurt hvort fólk væri félagslynt þar um slóðir?

„Einhverju sinni lýsti ágætur maður því yfir, að engir væru eins ósamvinnuþýðir og Borgfirðingar,“ svaraði Kalman.

– Og finnst þér svo vera?

„Ég er nú ekki svo mjög kunnugur því. Það er sjálfsagt undir þeim komið, sem veljast til forystu, hvernig til tekst með félagsstarfsemina.“

– Hvað hefur helzt verið gert í þessum efnum?

„Jú, það má segja, að á vegum sýslunefndarinnar undir forystu Ásgeirs Péturssonar, sýslumanns, sé öflug æskulýðsstarfsemi. Hér eru haldnar margvíslegar samkomur fyrir ungt fólk og vélanámskeið var haldið í Reykholti í vor, þar sem veitt var tilsögn í viðgerð búvéla.“

Loks var Kalman spurður um það hvort mikil brögð væru að því að jarðir féllu úr byggð.

„Það er blessunarlega lítið um það í Borgarfirðinum og engin brögð að slíku í Hvítársíðunni. Þar eru yfirleitt ungir bændur og framkvæmdir afar miklar. Það er mjög mikils um vert að jarðirnar falli ekki úr byggð. Þegar átthagaböndin rofna kemur sjaldan fólk í staðinn, sem tekur þeirri tryggð við staðinn, sem nauðsynleg er.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson