Úrslit Snæfríður Sól var með þriðja besta tímann í undanúrslitum í gær.
Úrslit Snæfríður Sól var með þriðja besta tímann í undanúrslitum í gær. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snæfríður Sól Jórunnardóttir var með þriðja besta tímann og bætti eigið Íslandsmet þegar hún synti á 1:57,87 mínútum í undanúrslitum 200 metra skriðsunds á Evrópumeistaramótinu í sundi í Belgrad í Serbíu í gær

EM í sundi

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Snæfríður Sól Jórunnardóttir var með þriðja besta tímann og bætti eigið Íslandsmet þegar hún synti á 1:57,87 mínútum í undanúrslitum 200 metra skriðsunds á Evrópumeistaramótinu í sundi í Belgrad í Serbíu í gær.

Þar með tryggði hún sér sæti á meðal átta keppenda í úrslitasundinu í sinni sterkustu grein. Úrslitasundið fer fram klukkan 17.38 í dag.

Fyrra Íslandsmet Snæfríðar Sólar í greininni var 1:57,98 mínútur. Ólympíulágmarkið í 200 m skriðsundi er þá 1:57,26 mínútur og færist hún nær því.

Jafnvel þótt Snæfríður Sól næði ekki lágmarki er hún að öllum líkindum á leið á Ólympíuleikana í París í næsta mánuði.

Anton Sveinn McKee náði ólympíulágmarki í 200 m bringusundi á síðasta ári og þar sem reglur Ólympíuleikanna kveða á um að hvert land verði að senda að minnsta kosti einn karl og eina konu til keppni í sundi telst það mjög líklegt að Snæfríður Sól fái það sæti þar sem hún er að öðrum ólöstuðum sterkasta sundkona landsins.

Anton með besta tímann

Anton Sveinn synti í undanúrslitum 200 m bringusunds í gær og var með besta tímann af öllum er hann synti á 2:10,14 mínútum.

Flaug hann því í úrslitasundið í sinni sterkustu grein, en úrslitasundið fer fram klukkan 17.31 í dag.

Íslandsmet Antons Sveins frá 2017 er 2:08,74 mínútur.

Verður Anton Sveinn að teljast líklegur til afreka enda borið af í greininni á mótinu til þessa.

Á meðal efstu í undanrásum

Bæði höfðu þau flogið í undanúrslit með því að hafna í efstu sætum riðla sinna í undanrásum í gærmorgun.

Anton Sveinn kom fyrstur allra í mark í undanrásum 200 m bringusunds. Snæfríður Sól var fyrst í mark sínum riðli og fjórða í heildina í undanrásum 200 m skriðsunds.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson