Halldór Kristmannsson
Halldór Kristmannsson
Með fullri virðingu fyrir öllum þeim jákvæðu og nauðsynlegu breytingum sem nú er unnið að innan félagsins, þá tel ég að fjárfestar hafi sent stjórnendum skýr skilaboð.

Halldór Kristmannsson

Ég hef áður skrifað um fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn og skorað á stjórn fyrirtækisins að skila 2,5 milljarða bókfærðum hagnaði (30% af markaðsvirði Sýnar) vegna sölu Ljósleiðarans til hluthafa, gefa út afkomuspá og miðla skýrari fjárfestasögu. Sýn hefur alla burði til þess að vera eitt af mest spennandi fyrirtækjum á íslenskum hlutabréfamarkaði. Til þess að svo geti orðið þarf að endurskilgreina kjarnastarfsemi og miðla vegferð verðmætaaukningar á skýrari hátt. Hægt er að þrefalda virði Sýnar á næstu 12 mánuðum.

Engin verðmæti sköpuð fyrir hluthafa

Virði Sýnar á markaði hefur helmingast frá því nýr fjárfestahópur kom að félaginu fyrir tveimur árum. Þrátt fyrir stöðugar skipulagsbreytingar og niðurskurð hafa engin verðmæti verið sköpuð fyrir hluthafa. Óumdeilt er að innan Sýnar er öflugt starfsfólk og traust vörumerki og má þar nefna Vodafone, visir.is, Bylgjuna, FM957, X-ið, Stöð2, Endor og Ja.is. Hvers vegna tekst stjórnendum ekki að miðla skýrari fjárfestasögu sem betur endurspeglar virði undirliggjandi eigna? Er hugsanlega tímabært að endurskilgreina kjarnastarfsemi Sýnar?

Nýtt viðskiptamódel

Eftir nýlegar skipulagsbreytingar er stjórnendateymi Sýnar vel mannað og ég skynja mikinn metnað til að gera betur. Áfram er hægt að auka skilvirkni í rekstri og sú vegferð þarf að halda áfram. Hinsvegar er ljóst að takmörkuð samlegðartækifæri eru á milli tveggja verðmætustu rekstrareininga Sýnar; annarsvegar Vodafone og Vefmiðla og útvarps hinsvegar. Vissulega er hægt að halda áfram að vinda kostnaðartuskuna en tækifæri til vaxtar eru lítil. Þetta vita stjórnendur Sýnar.

Ég tel tímabært að teknar verði stefnumótandi ákvarðanir með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa og starfsmanna að leiðarljósi. Endurskilgreina þarf kjarnastarfsemi fyrirtækisins í kringum fjarskiptaþjónustu (Vodafone) og leita þarf leiða til að skapa arðsamt viðskiptamódel á þeim grunni. Ástæðan fyrir þessu er einföld: 1) markaðsvirði Sýnar er vel innan við helmingur af virði undirliggjandi eigna, 2) nánast engin samlegð er á milli Vodafone og Vefmiðla og útvarps, 3) Vodafone er í nánast engum vexti og þarf að mæta breyttum þörfum viðskiptavina með því að „böndla“ saman tilboðum á breiðari grunni. Samhliða endurskilgreindri kjarnastarfsemi verði ráðist í eignasölu Vefmiðla og útvarps, upplýsingatæknifyrirtækisins Endors og Stöðvar 2 sem getur skilað um eða yfir 10 milljörðum króna fyrir hluthafa. Eftir stendur verðmætasta eign fyrirtækisins, Vodafone. Líklega er óþarfi að benda á að virði Sýnar á markaði er 7,9 milljarðar króna þegar þetta er skrifað.

Sýn 2.0

Tækifæri eru til að útvíkka þjónustu Vodafone með það markmið að skapa rekstrargrunn sem getur betur mætt þörfum viðskiptavina og aukið vöxt og arðsemi. Neysluhegðun tekur sífelldum breytingum og viðskiptavinir vilja einfalda heimilisbókhaldið og hagræða í innkaupum. Þetta skapar tækifæri fyrir Vodafone til að vera hluti af samstæðu sem bjóði vörur og þjónustu sem heimilin þurfa einu sinni í viku eða oftar: Fjarskipti (farsímar og heimatengingar), sjónvarp og ýmsa afþreyingu, matvæli og rekstrarvörur, orku (raforka, heitt vatn og eldsneyti), lyf og heilsutengdar vörur og póstþjónustu.

Á markaði eru nú þegar risar sem selja matvæli, raftæki, eldsneyti og ýmsar rekstrarvörur til heimilisins. Hagar og Festi ráða yfir öflugum vörumerkjum á borð við Bónus, Krónuna, Elko, N1, Hagkaup og Olís. Með boðuðum samruna Heimkaupa, Samkaupa, Lyfjavals og Orkunnar verður einnig til öflugt fyrirtæki sem mun veita risunum verðuga samkeppni. Vodafone byggir á lengri tíma viðskiptasamböndum en viðskiptavinir ofangreindra fyrirtækja eru yfirleitt kvikari í ákvörðunum sínum um hvar skuli verslað hverju sinni sem gerir Vodafone að verðmætu akkeri í slíku viðskiptamódeli. „Sky is the limit“ í því hvernig hægt væri að „böndla“ saman tilboðum og lækka rekstrarkostnað heimila.

Vegferð verðmætaaukningar í fimm skrefum

Skref 1 – Stjórnendur þurfa að halda áfram vegferð aukinnar skilvirkni og hagræðingar.

Skref 2 – Sjónvarpsrekstur tilheyrir ekki nýju viðskiptamódeli eins og það blasir við mér. Leita þarf leiða til að koma þeim rekstri í hendur þriðja aðila sem annast innlenda framleiðslu og verslar með erlenda sýningarrétti. Sérstaða Stöðvar 2 þarf fyrst og fremst að snúast um innlenda dagskrárgerð og íþróttaumfjöllun og draga þarf markvisst úr fjárfestingum í erlendum sýningarréttum. Hlutverk Vodafone í þessu samhengi væri fyrst og fremst að selja áskriftir og „böndla“ saman tilboðum fyrir viðskiptavini. Þetta felur í sér skýrari fókus í rekstri og mikið hagræði.

Skref 3 – Vefmiðlar og útvarp (visir.is, Bylgjan, FM957, X-ið, Ja.is og bland.is) verði selt á fjórða ársfjórðungi 2024. Rekstur miðlanna blómstrar um þessar mundir, vöxtur er umfram væntingar og arðsemi fer vaxandi. Framundan eru alþingis- og sveitastjórnarkosningar á næstu tveimur árum og stjórnmálamenn hafa boðað minni umsvif RÚV á auglýsingamarkaði. Virði miðlanna liggur á bilinu 8-10 milljarða króna sem endurspeglar óviðunandi kyrrstöðu gagnvart hluthöfum. Hægt yrði að skila fjármunum til hluthafa með svokölluðu „reverse buyback“-fyrirkomulagi og greiða niður vaxtaberandi skuldir um ca. 1,5 milljarða króna.

Skref 4 – Upplýsingatæknifyrirtækið Endor yrði einnig selt en Vodafone myndi áfram bjóða fyrirtækjum alrekstrarþjónustu þess fyrrnefnda. Væntanlegt virði Endor er 1,5-2 milljarðar króna (a.m.k. 20% af markaðsvirði Sýnar). Fyrirtækið er í miklum vexti og áhugasamir kaupendur hafa nú þegar gefið sig fram. Líkt og með sjónvarpsrekstur þá þarf Sýn ekki að standa í þessum rekstri heldur á hann betur heima hjá þriðja aðila. Fjármunum yrði skilað til hluthafa og helmingur nýttur til að greiða niður vaxtaberandi skuldir.

Skref 5 – Gangi eignasala eftir, verður rekstur Sýnar á fyrri helmingi næsta árs aðeins á sviði fjarskiptaþjónustu. Rekstrartekjur Vodafone á næsta ári verða líklega á bilinu 15-15,5 milljarðar króna og raunhæft hlutfall rekstrarhagnaðar um 10%. Vaxtaberandi skuldir væru líklega norðan við þrjá milljarða króna eftir eignasölur. Arðsemiskennitölur evrópskra fjarskiptafyrirtækja eru 14 sinnum rekstrarhagnaður þannig að heildarvirði Vodafone getur hæglega verið allt að tvöfalt meira en Vefmiðla og útvarps. Mikil tækifæri geta skapast fyrir viðskiptavini, starfsmenn og hluthafa Sýnar með sameiningu við Haga eða Festi.

Með endurskilgreindri kjarnastarfsemi, eignasölu og áframhaldandi hagræðingu í rekstri er hægt að þrefalda virði Sýnar á 12 mánuðum.

Frá sjónarhóli hluthafa

Ég hef talað fyrir því að hluthafar skráðra fyrirtækja komi skoðunum sínum á framfæri. Stjórnendur þurfa aðhald og verða að þola gagnrýni. Stjórn Sýnar hefur í raun tvo valkosti: 1) áframhaldandi hagræðing í rekstri þar sem vonast er til ásættanlegrar arðsemi og að markaðsvirði endurspegli virði undirliggjandi eigna einn góðan veðurdag, eða 2) að kjarnastarfsemi verði endurskilgreind og ráðist verði í eignasölu, samhliða hagræðingu í rekstri.

Ég geri mér grein fyrir því að stjórn Sýnar á aðeins erfitt með að hefja aftur eignasölu eftir að hafa lagt af stað í illa ígrundað söluferli með Kviku banka síðasta haust. Sölunni var m.a. slegið á frest vegna þess að ekki var hægt að slíta Vefmiðla og útvarp frá móðurskipinu án þess að skaða verulega aðra starfsemi. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að rekstur miðlanna hefur gengið umtalsvert betur en þegar viðræður hófust á síðasta ári sem ætti að vera jákvætt fyrir báða aðila. Stjórnendur Sýnar hafa jafnframt gripið til viðeigandi ráðstafana og aðskilið rekstrareiningar betur en áður var gert.

Markmið þessa pistils er að skapa umræðu um þau tækifæri sem felast í undirliggjandi eignum Sýnar og hvernig hægt er að skapa verðmæti fyrir hluthafa. Vegferð stöðugra skipulagsbreytinga og niðurskurðar getur ein og sér ekki gert Sýn að áhugaverðum fjárfestingakosti.

Virði Sýnar hefur lækkað um nær 30% frá því nýr forstjóri kynnti hagræðingaraðgerðir ársins og vegferð umbreytinga undir merkjum skilvirkni, vaxtar og samvinnu. Með fullri virðingu fyrir öllum þeim jákvæðu og nauðsynlegu breytingum sem nú er unnið að innan félagsins, þá tel ég að fjárfestar hafi sent stjórnendum skýr skilaboð. Þegar markaðsvirði fyrirtækisins hefur helmingast á tveimur árum og er innan við helmingur af virði undirliggjandi eigna, hlýtur það að vera forgangsverkefni stjórnar og lykilstjórnenda að leita nýrra leiða til að skapa verðmæti fyrir hluthafa.

Höfundur er búsettur í Sviss, rekur eigið ráðgjafarfyrirtæki, Aviva Communication, og sinnir eigin fjárfestingum. Hann og tengdir aðilar eiga um 4% hlut í Sýn.

Höf.: Halldór Kristmannsson