Við þurfum sjálf að verja frelsið

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vék í þjóðhátíðarávarpi sínu að grundvelli lýðveldisstofnunar fyrir 80 árum, grundvelli lýðræðis okkar og frelsis enn þann dag í dag.

Þar minntist hann á veglyndi Dana, sem hefðu samið við Íslendinga um fullveldið í friði og spekt, en á grundvelli sambandslagasamningsins hefði lýðveldið verið stofnað.

Ekkert af þessu hefði verið eða væri sjálfsagt, líkt og stríð í Evrópu, þar sem reynt er að neyta aflsmunar og árás gerð á fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt þjóðar, bæri glöggt vitni um.

Það var til nokkurs að berjast fyrir – sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar – en það hefur Íslendingum blessunarlega tekist í friði og með tilstuðlan öflugra grannþjóða og bandamanna, sem einnig virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða; fullveldi og frelsi, lýðræði, lög og rétt.

En sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar er líka nauðsynlegt að verja gegn ásælni ytri alræðisafla eða sundrungaröflum og handhöfum stórasannleika. Nú sem fyrr.

Bjarni minntist sérstaklega á landvinningastríð Rússa í Úkraínu og sagði að slíkri framgöngu yrði að mæta af festu:

„Það er frumskylda okkar að huga enn betur að eigin vörnum og styðja við varnir bandamanna okkar – rétt eins og við treystum á að þeir gerðu væri á okkur ráðist. Það fer vel saman að vera friðelskandi þjóð og verja þau gildi sem tilvist okkar sem sjálfstæðrar þjóðar grundvallast á.“

Undir það skal tekið, því eins og reynslan sýnir láta yfirgangsseggir eins og Pútín ekki staðar numið nema þeir séu stöðvaðir og reknir heim.

Friður Íslands er tryggður af Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin, en í vályndum heimi þurfa Íslendingar að sýna meira frumkvæði í þeim efnum.

Líkt og Bjarni nefndi þurfa Íslendingar að huga betur að eigin vörnum, en þá er lykilatriði að búa yfir þekkingu til þess. Nú eru öll Norðurlönd og Eystrasaltslönd komin saman í Atlantshafsbandalagið og það er rétt að efla samvinnu á þeim vettvangi um leið og tímabært er að treysta varnarviðbúnað hér á landi.