Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Vantrauststillaga Miðflokksins á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra verður tekin til umræðu á Alþingi fyrir hádegið í dag. Þingfundur hefst klukkan 10.30 og er fyrsti dagskrárliðurinn óundirbúnar fyrirspurnir, en að þeim loknum hefst umræða um vantrauststillöguna

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Vantrauststillaga Miðflokksins á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra verður tekin til umræðu á Alþingi fyrir hádegið í dag. Þingfundur hefst klukkan 10.30 og er fyrsti dagskrárliðurinn óundirbúnar fyrirspurnir, en að þeim loknum hefst umræða um vantrauststillöguna. Gera má ráð fyrir að hún hefjist um eða upp úr klukkan 11. Atkvæði verða síðan greidd í beinu framhaldi, að líkindum í hádeginu.

Allt eins var búist við að málið kæmi á dagskrá þingsins í gær, en af því varð ekki sökum þess að matvælaráðherra var erlendis.

Ljóst er orðið að þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna munu greiða atkvæði með vantrauststillögunni og þá hefur varaformaður Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, greint frá því að hún geri ráð fyrir að þingmenn flokksins muni verja ráðherrann vantrausti.

Meiri óvissa er um þingmenn Sjálfstæðisflokksins í því efni, en a.m.k. þrír þeirra hafa verið mjög gagnrýnir á ráðslag ráðherrans í hvalveiðimálinu sem er tilefni vantrauststillögunnar. Þetta eru þeir Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn verður fjarri góðu gamni á Alþingi í dag þar sem hann er í veikindaleyfi eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð. Þá hafa hvorki Jón né Óli Björn viljað greina frá áformum sínum í væntanlegri atkvæðagreiðslu.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson