Stórbrotið Fegurð eyjarinnar er engu lík.
Stórbrotið Fegurð eyjarinnar er engu lík.
„Ég er alinn upp hér í Eyjum og hef verið mikið á mótorkrosshjóli á hraunjaðrinum. Mér finnst þetta alltaf svo flott, mikil fegurð og fallegt landslag. Það er eins og maður sé kominn á aðra plánetu þegar maður stendur þarna,“ segir Þorsteinn Traustason, annar eigenda Volcano ATV

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

„Ég er alinn upp hér í Eyjum og hef verið mikið á mótorkrosshjóli á hraunjaðrinum. Mér finnst þetta alltaf svo flott, mikil fegurð og fallegt landslag. Það er eins og maður sé kominn á aðra plánetu þegar maður stendur þarna,“ segir Þorsteinn Traustason, annar eigenda Volcano ATV. Fyrirtækið sérhæfir sig í fjórhjólaferðum um Vestmannaeyjar sem hafa verið gríðarlega vinsælar á meðal erlendra ferðamanna en einnig Íslendinga. Ferðirnar eru blanda af fróðleik og skemmtun.

„Það er svo mikil saga á bak við þær staðsetningar sem við förum á svo okkur fannst sniðugt að blanda þessu saman. Annars vegar að vera í stórbrotnu landslagi og fá að stoppa inn á milli og hlusta á stórmerkilegar sögur.“

Í upphafi var áherslan lögð á hraunið en nú eru staðsetningarnar orðnar fleiri. „Við erum með skipulagðar ferðir þar sem við skoðum lundann og hraunið. Það er ekkert skemmtilegra en að keyra um eyjuna í góðu veðri og njóta útsýnisins.“

Stendur upp úr hjá börnunum

Meirihluti viðskiptavina eru erlendir ferðamenn að sögn Þorsteins.

„Við einbeitum okkur að því að þetta sé skemmtilegt en líka fróðleikur. Þetta er ekki bara að fara af stað, spóla og leika sér í klukkutíma,“ segir hann og hlær.

„En helsti markhópurinn af Íslendingum er fjölskyldufólk. Við höfum fengið góð viðbrögð við fjölskylduferðunum og krökkunum finnst það svo gaman. Það hefur verið gaman að heyra frá foreldrunum að þetta hafi staðið upp úr hjá börnunum. Við höfum fengið börn frá sex ára og upp úr og elsti viðskiptavinurinn sem fór með okkur var held ég 90 ára.“

Sumarið lítur vel út en hann segir þau þéttbókuð í allt sumar. „Það hefur verið mikið um hvata- og starfsmannaferðir, steggjanir, einkaferðir og ferðir fyrir stórfjölskyldur. Við sníðum svo ferðir fyrir hvern og einn hóp líka og gerum nánast allt sem kúnnanum dettur í hug að gera. Innan skynsamlegra marka þó.“

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir