Ellý Kratsch fæddist 19. maí 1946 í Reykjavík. Hún lést 8. júní 2024 á Landsspítalanum í Fossvogi.

Foreldrar Ellýjar voru Ólafur Walter Reynir Kratsch bifvélavirki, f. í Reykjavík 25. apríl 1922, og Guðrún Þorbjörg Jónsdóttir húsmóðir, f. 20. júní 1925 í Hnífsdal.

Ellý ólst upp á Snorrabraut fyrstu árin en fluttist svo í Skeiðarvog 115 með foreldrum sínum og gekk í Langholtsskóla og síðar í Vogaskóla. Ellý var elst þriggja systkina. Bræður hennar eru Þorsteinn Óli Kratsch, giftur Rósu Friðriksdóttur, og Jón Aðalbjörn Kratsch, giftur Unni Óladóttur.

Ellý vann ýmis verslunarstörf þegar á vinnumarkað kom, auk þess starfaði hún sem aðstoðarkona tannlæknis, ritari á lögfræðiskrifstofu, á skrifstofu Ferðafélags Íslands og sem stuðningsfulltrúi á geðdeild Landspítalans.

Eftirlifandi eiginmaður Ellýjar er Þröstur Jónsson, f. 15. janúar 1945. Þau giftu sig 15. október 1966. Ellý og Þröstur stofnuðu sitt fyrsta heimili í Hraunbæ 32, þaðan flutti stækkandi fjölskylda í Hraunbæ 110. Árið 1981 fluttust þau í Brekkubæ 36 og bjuggu þar til ársins 2019 er þau fluttu í Boðaþing 20 í Kópavogi.

Börn Ellýjar og Þrastar eru: 1) Þóra, f. 8. mars 1967, sambýlismaður Jón Örvar Baldvinsson. Börn Þóru og fyrrverandi maka, Tómasar Ragnarssonar, eru Ellý, maki Hilmar Sigurjónsson, börn þeirra eru Ragnar, Stefán Þór og Tómas Hrafn. Ragnar, maki hans er Tinna Níelsdóttir, börn þeirra eru Sölvi og Kolbrún. Rúna, maki Skúli E. Kristjánsson Sigurz, dóttir þeirra er Hrafntinna Rún. 2) Guðrún Svava, f. 15. október 1971, sambýlismaður hennar er Guðmundur K. Björnsson, eiga þau Þóru. Fyrir átti Guðrún Svava soninn Þröst. 3) Reynir Örn, f. 15. október 1971, börn hans eru Þórður Örn og Margrét Júlía.

Útför Ellýjar fer fram í Langholtskirkju í dag, 20. júní 2024, klukkan 13.

Þann 9. des. 1961 fórum við bræður í Trípólíbíó. Þegar við erum búnir að koma okkur vel fyrir í sætunum setjast tvær stelpur við hliðina á okkur, mér fannst þessi sem settist hjá mér virkilega sæt. Eftir bíó ákveðum við að labba rúntinn og rekumst þá á stelpurnar og spyrjum hvernig þeim fannst myndin, ekki man ég svarið en ísinn var brotinn. Spjallið leiddi til þess að við buðum Ellý far, veifuðum leigubíl og henni var skutlað heim. Á leiðinni var skipst á símanúmerum og loforði um að hringjast á. Leigubíllinn kostaði skilding úr miðbæ inn í Skeiðarvog og þaðan í Samtún, þá kom sér vel að Kristján bróðir var togarasjómaður og taldi ekki eftir sér að borga því ég var blankur.

Frá þessum degi var líf okkar Ellýjar samofið. Bæði hundleið á skóla fórum við að vinna og safna okkur fyrir íbúð, Ellý í verslunarstörfum, skrifstofustarfi á lögmannsstofu og sem aðstoðarkona tannlæknis, ég í verkamannavinnu en fljótlega stefndi ég á iðnnám. Mér var bent á að í bókbandi væri mikið að gera, næg vinna og góðir tekjumöguleikar, það hentaði mér vel. Ég var góður í teikningu og laginn í höndunum þannig að það varð úr að ég nam þá iðn. Við lifðum spart og söfnuðum með það í huga að kaupa okkur íbúð en leyfðum okkur bíóferð einu sinni í viku.

Árið 1965 er Hraunbærinn að byggjast upp og þekkti mamma Ellýjar til byggingameistara sem seldi okkur fokhelda íbúð en skaffaði jafnframt iðnaðarmenn til að ljúka verkinu sem við fjármögnuðum með því að herða sparnaðinn. Þá gerðist það sem ekki var planað, Ellý kemur alvarleg á svip og segir „ég er ófrísk og ég ætla ekki að eiga barn í lausaleik“. Presturinn var ráðinn og Dómkirkjan bókuð, brúðkaup var haldið 15. okt. 1966 með tilheyrandi veisluhöldum í Rafveituheimilinu í Elliðaárdal. Brúðkaupsnóttina sváfum við í fyrsta sinn í nýju íbúðinni okkar í Hraunbæ 32. Frumburðurinn fæddist 8. mars 1967, gullfallegt stúlkubarn sem var skírt Þóra. Tíminn leið og fjórum árum síðar, á fimm ára brúðkaupsafmæli okkar, 15. okt. 1971, fæðast tvíburarnir Guðrún Svava og Reynir Örn, bráðmyndarleg og gullfalleg börn eins og Þóra stóra systir þeirra. Nú þrengdi að í þriggja herbergja íbúð og önnur stærri keypt ofar í Hraunbænum á jarðhæð sem kom sér vel með farangur sem fylgir þremur börnum. Árin átta í Hraunbæ 110 voru góð en við tókum til við að byggja okkur raðhús í Brekkubæ 36 þar sem við bjuggum næstu 40 árin eða þar til tímabært var að minnka við sig aftur enda börnin farin að heiman og komin með fjölskyldur, barnabörnin orðin sjö og barnabarnabörnin sex.

Í Boðaþingi 20 leið okkur vel þar til Ellý veikist, hún er lögð inn á spítala og er greind með MND-sjúkdóminn sem hefur verið búinn að taka sér bólfestu í líkama hennar í þó nokkurn tíma. Hún sveif inn í sumarlandið 8. júní, eftir sit ég og skil ekki neitt í neinu, hvernig gat þetta gerst? Þá er óumræðilega gott að finna hvað fjölskylda okkar Ellýjar heldur vel utan um mig á þessum erfiða og óraunverulega tíma.

Ellý, ástin mín, takk fyrir lífið okkar saman og allt sem það hefur gefið.

Ég elska þig.

Þinn

Þröstur.

Þau eru þung skrefin, elsku mamma, án þín verður ekkert eins. Við systkinin vorum lánsöm að hafa þig meira og minna heimavinnandi okkar uppvaxtarár, þið pabbi bjugguð okkur öruggt og ástríkt heimili sem ég er svo óendanlega þakklát fyrir. Þú sást til þess að heimilið væri óaðfinnanlegt, allt hreint og strokið og hver hlutur á sínum stað, ég vildi óska að ég hefði getað tileinkað mér aðeins meira af þessum eiginleika þínum. Ég veit að ég var ekki alltaf skemmtileg þegar ég átti að þurrka af í herberginu mínu enda þannig gerð að ég vil sjá unnið verk skila árangri en að mínu mati var aldrei rykkorn á nokkrum hlut, samt átti að þurrka af og þrífa. Ég gerði að gamni þegar ég kenndi þér um rykofnæmið og sagði það þér að kenna enda fékk ég ekki frá fæðingu að komast í tæri við neitt sem var óhreint, skipt var á vöggunni daglega, ég þvegin og strokin, hvernig ætti annað að vera en ég hafi fengið ofnæmi! Við gátum hlegið að þessu.

Þú hafðir einstakan frásagnarhæfileika og gerðir óspart grín að sjálfri þér. Þú gerðir góðar sögur enn betri og sussaðir á pabba þegar hann sá sig knúinn til að skjóta inn leiðréttingum, hann var fljótlega vaninn af því. Þegar tvíbbarnir fæddust vorum við tvær fínt teymi því þótt ég væri ekki nema rétt fjögurra ára þá var ég liðtæk í að hafa ofan af fyrir öðru meðan þú sinntir hinu enda afþakkaðir þú þá aðstoð að senda mig á leikskóla. Við gerðum oft grín að því hvernig heimur okkar fór á hvolf við komu þessara tveggja og að hárið á mér hafi ekki verið greitt í viku eftir að þau mættu á heimilið.

Mamma, þú sagðir að þú hefðir átt að þrífa minna og læra meira en staðreyndin er nú sú að þú lagðir svo miklu meira til en hreint og óaðfinnanlegt heimili, þú varst til staðar fyrir okkur öll og gafst óendanlega ást og umhyggju fyrir öllu þínu fólki.

Elsku mamma, takk fyrir allt.

Þín

Þóra.

Elsku mamma lést 8. júní síðastliðinn eftir stutt en erfið veikindi.

Mig langar með þessum fátæklegu orðum að minnast hennar. Samveran með mömmu einkenndist alltaf af gagnkvæmri virðingu og væntumþykju. Við mamma vorum miklar vinkonur og töluðum saman upp á hvern dag. Þegar eitthvað bjátaði á hjá mér var nóg að heyra í mömmu og þá leið mér betur. Mamma var búin mörgum góðum kostum og reyndist mér og fjölskyldu minni alltaf vel. Hún elskaði að fylgjast með okkur og taka þátt í því sem við fjölskyldan vorum að gera. Oft grínaðist hún með það og spurði okkur Gumma hvort við ætluðum ekki að fara að drífa í að útbúa íbúðina í kjallaranum svo þau pabbi gætu endanlega flutt til okkar. Mamma var mikill lestrarhestur enda talaði hún fallegt mál, hún hafði dálæti á ferðalögum og þær eru ófáar ferðirnar sem við fórum saman, bæði sem börn og eftir að við krakkarnir urðum fullorðin. Mamma var glæsileg og ein snyrtilegasta kona sem fyrirfinnst. Heimili hennar og pabba var óaðfinnanlegt og pabbi komst ekki upp með neitt annað en að ganga sjálfur vel um. Hver hlutur átti sinn stað og átti hvergi annars staðar að vera. Glæsileikinn fylgdi henni hvert sem hún fór svo eftir var tekið enda sagði hún sjálf að hún færi ekki út með ruslið án þess að setja á sig varalitinn fyrst. Mamma var mikill húmoristi og sagði skemmtilega frá, hún gerði óspart grín að sjálfri sér og tók sig ekki hátíðlega. Síðastliðið ár tókum við eftir því að heilsu mömmu fór að hraka án þess þó að átta okkur á því almennilega. Mamma var ekki vön að kvarta og í þau fáu skipti sem það gerðist þótti henni það leiðinlegt. Þrátt fyrir heimsóknir til lækna undanfarna mánuði fannst ekkert að. Það var því mikið áfall að fá niðurstöðuna úr ítarlegri rannsóknum eftir að hún var lögð inn á spítala þann 13. maí síðastliðinn. Taugahrörnunarsjúkdómurinn MND hefur eflaust verið búinn að koma sér fyrir í mömmu fyrir löngu og lengra genginn en okkur óraði fyrir. Ég er fyrst að átta mig á því núna að mamma var miklu meira hörkutól en ég gerði mér grein fyrir. Elsku mamma, það verður skrítið að geta ekki heyrt í þér áfram. Þú tókst af mér loforð um að ég myndi passa upp á pabba, þú getur treyst því að það munum við Gummi gera. Elsku fallega mamma mín, góða ferð í sumarlandið og takk fyrir vináttu okkar og samveru í lífinu. Ég mun sakna þín en minningin um yndislega móður og vinkonu mun fylgja mér um ókomin ár.

Þín elskandi dóttir,

Guðrún (Rúna).

Þegar mamma sem alltaf hafði verið hraust fékk þær sorglegu fréttir nýlega að hún hefði greinst með taugasjúkdóminn MND var eitt af því fyrsta sem hún sagði á fundinum með læknateyminu, „hver á nú að þurrka af?“. Ekki gerir hann það“ og benti á pabba og brosti. Hún tók þessum ömurlegu fréttum af ótrúlegri yfirvegun.„Ég sem hélt alltaf að ég myndi jarða hann,“ sagði hún og hélt um leið í höndina á pabba. Mamma lést aðeins þremur vikum síðar. Mamma var lengst af heimavinnandi húsmóðir á yngri árum okkar systkina. Það hentaði okkur vel. Alltaf heima þegar við komum heim úr skólanum. Seinna meir þegar við uxum úr grasi og gátum séð um okkur sjálf fór hún út á vinnumarkaðinn. Mamma var ekki mikil útivistarkona en lét stundum til leiðast og kom með í veiðitúra. Minnisstæður er einn túr í ónefnda laxveiðiá á Suðurlandi. Pabbi sá um að tala hana til og lofaði huggulegustu vistarverum, heitum potti og fleiri næsheitum. Þegar á staðinn var komið sá mamma „heita pottinn“ sem búið var að lofa. Heiti potturinn var „fiskikar með ísköldu vatni og dauðum flugum,“ eins og hún lýsti því. En hún lét sig hafa það að vera áfram en í „heita pottinn“ fór hún ekki. Tilraun númer tvö var gerð þegar farið var í Mývatnssveitina til veiða. Ekki hugnaðist henni magn mýflugna í gluggakistum og víðar. Þá var bara eitt til ráða. Bruna á Akureyri til Ellu frænku og fá lánaða handryksugu. Nokkuð viss um að veiðihúsið í Haganesi hefur hvorki fyrr né síðar verið snyrtilegra.

Hjónaband mömmu og pabba var friðsælt. Örugglega komið upp einhver ágreiningur en þá hefur hann verið leystur án áhorfenda. Kærustuparaárin og hjónabandið þeirra telur nú rúm 63 ár og lykillinn að svo farsælu samneyti sagði pabbi mér eitt sinn að væru tvö algjör lykilorð: „Já elskan,“ og svo brosti hann. Þegar þau höfðu verið gift í 50 ár upp á dag fóru þau saman í Dómkirkjuna og endurnýjuðu heitin.
Pabbi ólst upp að hluta hjá móðursystur sinni í Landeyjum. Áður við börnin komum í heiminn hafði pabbi haft á orði við mömmu hvort hún hefði áhuga á að kaupa jörð í Landeyjunum og þau gerðust bændur með öllu tilheyrandi. Hann spurði kærustuna með varalitinn, rauðu neglurnar og túberaða hárið bara einu sinni.

Mamma var gríðarlega vel að sér í ættfræði og tengslum fólks og þekkti marga og nánast allar þeirra ættir. Hún hafði mikinn áhuga á fólki yfir höfuð og sérstaklega þeim sem tengjast okkur langt aftur í ættir. Hún las bækur af miklum móð og alltaf var bók á náttborðinu.
Mömmu minnist ég með hlýju, alltaf til staðar og kvartaði helst yfir því ef ég væri ekki nógu duglegur að hafa samband, hún vildi helst heyra í öllum daglega.

Elsku mamma, takk fyrir allt. Við systur mínar munum hugsa vel um pabba og sjá til þess að hann njóti eins og hægt er í breyttum aðstæðum eftir áratuga félagsskap ykkar. Og takk fyrir uppskriftina að bestu döðluköku í heimi.

Þinn sonur

Reynir Örn.

Það var um vorið 2001 sem ég kynntist henni Rúnu minni. Ég man að þegar ég kom heim til foreldra hennar að sækja hana á einum af fyrstu stefnumótunum okkar þá var víst talsverður spenningur og forvitni hjá tilvonandi tengdaforeldrunum, og ekki síst henni Ellý, að sjá hvaða maður þetta væri sem var byrjaður að deita Rúnu þeirra. Þetta voru fyrstu kynni mín af Ellý og Þresti þarna úti á plani þar sem ég var snöggrannsakaður uppúr og niðrúr. Ég stóðst greinilega væntingar þeirra og upp frá þessu hófst mikil og góð samvera okkar og vinátta sem aldrei hefur borið skugga á.

Við höfum í gegnum tíðina varið miklum og góðum tíma saman bæði á ferðalögum innanlands og erlendis og svo voru þau hjónin líka tíðir gestir hjá okkur Rúnu. Alltaf var notalegt að koma til Ellýjar og Þrastar en ekki síður að fá þau til okkar, og vorum við svo heppin að fá Þröst til okkar nánast daglega frá 2019 en þá kom hann upp aðstöðu hjá okkur varðandi bókbandið sitt.

Ellý var litríkur persónuleiki og var oft mikið hlegið og sagði hún skemmtilegar sögur með miklu látbragði. Þau voru dugleg að taka þátt í því sem við fjölskyldan vorum að gera og keyptu sér meira að segja Októberfest-klæðnað til að geta tekið þátt í þeirri gleði með okkur.

Ellý var glæsileg, alltaf óaðfinnanlega klædd og snyrt og með hlýtt og gott viðmót. Hún reyndist mér og okkur fjölskyldunni mjög vel og tengdist okkur og börnunum okkar þeim Þresti og Þóru sterkum böndum. Ég mun ávallt sakna hennar og hennar samveru og karakters. Nú verður tengingin við hana meira í gegnum Þröst tengdapabba, en samverustundir okkar með honum koma vonandi til með að verða enn fleiri í framtíðinni.

Elsku Ellý mín, takk fyrir allt og sérstaklega fyrir að hafa gengið með og alið hana Rúnu mína. Guð blessi minningu þína.

Þinn tengdasonur,

Guðmundur Karl (Gummi).

Það er óraunverulegt að setjast niður og skrifa þessi orð um elsku ömmu Ellý. Ég kynntist ömmu Ellý 10 ára þegar við fjölskyldan fluttum í næsta hús við Ellý og Þröst í Brekkubænum. Þau voru yndislegir nágrannar sem björguðu málunum oft þegar ég var yngri og gleymdi lyklunum mínum. Það var líka mikið spjallað á svölunum um allt og ekkert. Um 15 árum seinna urðu þau tengdaamma mín og -afi sem var einstaklega skemmtileg tilviljun.

Við amma Ellý vorum alla tíð miklar vinkonur og það var alltaf gott að hringja í hana bara til þess að spjalla. Hún hafði alltaf mikinn áhuga á því sem við fjölskyldan vorum að bralla og þá sérstaklega börnin okkar Ragga, Sölvi og Kolbrún. Hún var einstaklega hlý amma og langamma og við eigum eftir að sakna hennar mikið.

Elsku amma Ellý við vitum að þú heldur áfram að fylgjast með fólkinu þínu sem þér þótti svo vænt um.

Þangað til næst,

Tinna, Ragnar, Sölvi og Kolbrún.

Elsku amma, það er svo margs að minnast og margt sem um huga minn fer þegar ég horfi yfir þann tíma sem við áttum saman.

Ég finn fyrir þakklæti, þakklæti fyrir það einstaka samband sem við áttum.

Öll mín uppvaxtarár var ég fyrirferðarmikil og uppátækjasöm og stundum pínu ósanngjörn við foreldra mína. Þá var gott að geta leitað til þín, sem alltaf tókst mér með opnum örmum og lagðir þig fram við að leiðbeina mér og koma mér niður á jörðina.

Þegar ég varð eldri varð samband okkar enn nánara, við áttum nefnilega svo ótal margt sameiginlegt. Þú hafðir endalausa trú á mér og varst dugleg að segja mér hversu stolt þú værir af mér. Þú spurðir mig reglulega, eftir að ég kláraði grunnnámið mitt í sálfræði, hvort ég ætlaði ekki að sækja mér starfsréttindi sem sálfræðingur því það væri svo gott að tala við mig, það segir meira en þúsund orð um okkar fallega samband. Ég var til staðar fyrir þig og þú mig, alltaf.

Heimilið ykkar afa var alltaf hreint og fínt og ég tala ekki um litla hreiðrið ykkar í bústaðnum. Það er mér ofarlega í minni þegar ég fékk eitt sinn hreiðrið að láni og nokkrum dögum seinna hringdir þú í mig til að hrósa mér fyrir að ganga vel um, sagðir svo: „Þú raðaðir púðunum næstum því eins og ég hefði gert það!“ Við höfum hlegið saman að þessu síðan. Þú varst nefnilega alltaf með allt upp á tíu, sama hvað það var.

Elsku amma, glæsilegri konu er erfitt að finna, þú varst alltaf algjör skvísa í hælaskóm með þínar lökkuðu neglur, varalit og glingur. Við fjölskyldan munum halda minningu þinni á lofti, passa afa og hugsa vel hvert um annað.

Draumadísin þín,

Ellý.

Elsku amma mín.

Ég hef verið að draga það að skrifa þessi orð á blað, þetta er enn svo óraunverulegt allt saman. Þú varst alltaf að hugsa um fólkið þitt, hringdir alltaf til að kanna líðan Hrafntinnu ef hún var lasin og varst alltaf til staðar ef maður þurfti á að halda.

Þú varst mesta puntupía sem ég þekki, við töluðum alltaf um það og ég gleymi aldrei þeim stundum í Brekkubænum þar sem við eyddum heilu tímunum saman að skoða skartgripasafnið þitt, þú vissir hvað ég var heltekin af öllu því fína glingri sem þú áttir og laumaðir oft að mér skartgripum sem ég mun geyma um ókomna tíð og ekki má gleyma öllum tásuböðunum í vaskinum, það var alltaf í uppáhaldi.

Ég mun sakna þess að fá hlýju knúsin þín og varalit á kinnina með því en ég veit að þarna uppi tekur á móti þér heill her af fólki sem elskar þig.

Elsku amma Ellý, við lofum að passa upp á afa eins og þú baðst okkur um og halda minningu þinni á lofti um ókomna tíð.

Ég elska þig.

Þín ömmustelpa,

Rúna.

Elsku amma Ellý, ég trúi því ekki enn að þú sért farin frá okkur en ég vil trúa því að þú sért komin á fallegan stað og sért áhyggjulaus núna. Ég hugsa til baka og er svo þakklátur fyrir hversu miklum tíma þið afi eydduð hjá okkur fjölskyldunni, það var bara skrítið ef þið voruð ekki búin að koma heim til okkar þegar það voru liðnir aðeins fáeinir dagar síðan þið komuð seinast. Við vorum í nánast daglegum samskiptum og myndi ég segja að þið afi hafið

tekið stóran þátt í uppeldi mínu og Þóru. Þegar mamma og pabbi fóru til útlanda þá var ekki tekið í mál að einhver annar en þið afi kæmuð að passa. Ég er svo þakklátur fyrir þessa tíma, okkur Þóru leið svo vel með þér. Oft þegar mamma og pabbi komu heim úr fríinu sínu þá grét Þóra því það þýddi að þú þyrftir að fara heim. Við amma deildum mjög skrítnu áhugamáli og það voru skór, við vorum alltaf jafn spennt þegar við eignuðumst nýtt par af

skóm og þú varst alltaf heilluð af hversu mörg pör ég átti. Elsku amma, það verður skrítið að spyrja ekki mömmu lengur „ertu búin að heyra í ömmu og láta hana vita að við séum komin heim“ því þú hafðir stanslausar áhyggjur af að eitthvað kæmi fyrir, t.d. þegar við vorum á leiðinni heim úr bústaðnum, en mér finnst það sýna hversu mikið þér þótti vænt um okkur. Ég trúi því að þú vakir yfir okkur og passir okkur frá himnum.

Elska þig út yfir endimörk alheimsins.

Þinn

Þröstur.

Elsku besta amma mín er núna komin í draumalandið. Hún var ekki bara besta amma sem ég hefði getað hugsað mér heldur líka besta vinkonan. Við amma vorum mjög nánar. Síðan ég man eftir mér hafa amma og afi verið mjög dugleg að koma í mat til okkar. Ég hef alltaf verið ömmustelpa og þegar ég var yngri var mamma farin að þurfa að banna ömmu að koma í stutta heimsókn því alltaf þegar hún fór heim grét ég í dyragættinni á eftir henni. Ég fór oft með ömmu og afa í bústaðinn þegar ég var yngri og amma sendi afa alltaf inn í gestaherbergi á svefnsófann. Ég og amma vorum í hjónaherberginu og sungum uppi í rúmi þangað til ég sofnaði.

Amma var alltaf svo fín með rauðan varalit og rauðar neglur og fyrsta snyrtidótið sem ég eignaðist var úr snyrtitöskunni hennar ömmu.

Elsku amma, þetta eru búnir að vera verulega skrítnir tímar og ég á erfitt með að trúa að þú sért farin frá okkur. Ég á mjög erfitt með að tala um þig í þátíð en ég vona að þú njótir þín þarna uppi og ég trúi því að þú horfir yfir og passir okkur. Það verður skrítið að fá þig ekki lengur í mat nokkrum sinnum í viku og hringja í þig þegar mér finnst of langt síðan ég hitti þig, þó það séu ekki nema örfáir dagar. Ég mun alltaf hugsa til þín og þú verður alltaf stór partur af manneskjunni sem ég er og verð.

Elsku amma, eins og þú sagðir alltaf við mig: „Ég elska þig út yfir endimörk alheimsins draumadísin mín.“

Þín

Þóra G.

Ætli ég komi ekki bara með döðludrusluna, sagði Ellý frænka mín, aðspurð hvað hún kæmi með á árlegt kaffihlaðborð Soroptimista í Árbænum. Það var ekkert druslulegt við tertuna né nokkuð annað sem tengdist Ellý. Hún var líklegast einn mesti snyrtipinni sem ég hef kynnst. Svarið þarna sýnir eðlislægan húmor hennar, sem beindist ekki síst að henni sjálfri.

Við Ellý erum bræðradætur og hún sjö árum eldri. Á barnsárum voru það mörg ár. Hún var flotta frænka mín sem vann í snyrtivörubúð og ég fór með vinkonur mínar þangað til að sýna hana. Hún átti líka kærasta, hann Þröst sem var eins og kvikmyndastjarna og ég ofboðslega feimin við.

Ég fylgdist með Ellý minni úr fjarlægð. Man þegar hún giftist Þresti sínum og man fallegu brúðarmyndina af þeim hjá ömmu og afa. Svo komu börnin hvert öðru yndislegra, Þóra og svo tvíburarnir Rúna og Reynir. Það er svo fyrir rétt 40 árum þegar ég flyt í Árbæinn að raunveruleg kynni takast með okkur og það var eins og við hefðum verið samferða alla tíð. Við áttum svo margt sameiginlegt en þó svo ólíkar. Fyrst og fremst var það þessi ósvikna væntumþykja sem við bárum hvor til annarrar sem bara jókst með árunum. Það var einhvern veginn alltaf þannig að ég fór stærri af hennar fundi.

Ég á margar góðar minningar frá samverustundum í Soroptimistaklúbbi Árbæjar sem Ellý mælti með mér í á sínum tíma. Minningar um heimsóknir í Brekkubæinn og símtölin sem voru mörg og löng. Við vorum aldrei uppiskroppa með umræðuefni, gátum hlegið og grátið saman. Við fylgdumst með börnum og fjölskyldum hvor annarrar. Það fór ekki á milli mála hve stolt hún var af börnum sínum og afkomendum öllum. Síðasta símtalið áttum við um miðjan apríl. Það var greinilegt að Ellý var ekki með sjálfri sér, ekkert gengi að hressa hana við né fyndist hvað væri að henni. Við stefndum þó á að þau Þröstur kæmu í heimsókn í sumar. Það var áfall að fá fréttir af hversu alvarleg veikindi Ellýjar voru og síðan um lát hennar.

Þakklæti er efst í huga þegar ég kveð Ellý, fallegu og góðu frænku mína. Þakklæti fyrir að hún var mikilvæg í lífi mínu og gerði það auðugra.

Missir Þrastar og fjölskyldunnar er mikill en minningar um einstaka konu lifa. Við Guðjón og börnin okkar sendum Þresti og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður Marteinsdóttir.

Systur í Soroptimistaklúbbi Árbæjar kveðja í dag góða systur, Ellý Kratsch. Ellý gekk í Árbæjarklúbbinn í maí 1983 og var því Soroptimisti í 41 ár. Hún gegndi ýmsum embættum í klúbbnum og vann þau í anda Soroptimista, af sæmd og ábyrgðartilfinningu. Það er margs að minnast eftir svo langan tíma. Við minnumst margra skemmtilegra stunda; klúbbfunda, landssambandsfunda og ekki má gleyma ferð systra til Hollands en tilefni þeirrar heimsóknar var að heimsækja eina systur sem þar bjó.

Ellý var einkar glæsileg kona, smekkleg og mikill fagurkeri sem naut þess að hafa fallegt í kringum sig. Hún var hlý og notaleg og það var alltaf gaman að spjalla við Ellý því hún sá oft spaugilegu hliðina á ýmsum málum og var hnyttin í tilsvörum.

Við kveðjum Ellý með virðingu, þakklæti og hlýju og þökkum henni samfylgdina. Hennar verður sárt saknað. Fjölskyldu Ellýjar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd systra í Soroptimistaklúbbi Árbæjar,

Kristjana Jónsdóttir.

Við erum harmi slegin yfir því að elsku Ellý sé farin frá okkur. Eftir sitja minningar og mikil væntumþykja. Fjölskylda Ellýjar og Þrastar er ein ástríkasta fjölskylda sem ég hef verið svo heppin að kynnast. Lífið fer með mann á marga staði en koma mín í þessa fjölskyldu var ógleymanleg og umvefjandi. Ég og Ellý urðum samstundis miklar trúnaðarvinkonur þegar ég kynntist henni. Við tókum löng símtöl yfir öllu og engu í lífinu, svona eins og gengur með góðar vinkonur. Ég gat trúað henni fyrir hugsunum mínum og upplifunum. Ellý dæmdi mig aldrei og hélt trúnað við mig um allt. Hún var skynsemisröddin mín og hlustaði þegar ég þurfti á því að halda. Sú vinátta sem við áttum saman er vandfundin, hún var skilyrðislaus og byggð á sterkri tengingu. Þegar leiðir okkar Reynis skildi árið 2015, sagði hún við mig ógleymanleg orð: „Ég elska þig og ætla aldrei að hætta að vera tengdamamma þín og þú verður alltaf tengdadóttir mín.“ Ég hætti aldrei að kalla hana tengdamömmu eftir þessa ástarjátningu. Ellý bjó yfir þessu mikla ástríki sem hún ræktaði eins og blóm. Þótt margt breyttist og ég kynntist öðrum manni þá tók hún honum opnum örmum og okkar djúpa og góða vinátta hélst fram á síðasta dag.

Ég minnist elsku Ellýjar minnar með kökk í hálsinum og þungum tárum, en hugsa þó um gleðistundirnar sem ég átti með henni til dæmis í barnaafmælum þar sem hún sat manna lengst með mínum vinum og fjölskyldu og naut sín í botn, full af húmor, hlýju og gleði. Allir höfðu á orði hvað hún væri skemmtileg og yndisleg hún tengdamamma mín. Við misstum ekki bara hlýja og góða ömmu heldur missti ég góða vinkonu mína sem ég gleymi aldrei. Ellý er nú komin á friðsælan stað þar sem hún vakir yfir okkur og minningarnar um þessa tignarlegu og glæsilegu drottningu ylja okkur.

Þín vinkona,

Helga Arnardóttir.