Guðrún Gunnarsdóttir, 1948 Refill / Tapestry, 1996 Blönduð tækni; vír, 80 x 280 cm
Guðrún Gunnarsdóttir, 1948 Refill / Tapestry, 1996 Blönduð tækni; vír, 80 x 280 cm
Refill Guðrúnar Gunnarsdóttur er ekki útsaumað veggtjald heldur lágmynd þar sem fínlegur vírinn verður efniviður í þrívíða teikningu þar sem línan og kúlurnar lyftast frá veggnum og skuggarnir taka við

Refill Guðrúnar Gunnarsdóttur er ekki útsaumað veggtjald heldur lágmynd þar sem fínlegur vírinn verður efniviður í þrívíða teikningu þar sem línan og kúlurnar lyftast frá veggnum og skuggarnir taka við. Kveikjan að verkinu er klassíski íslenski refillinn og lopapeysumynstur sem Guðrún vann fyrir sýningu á Kjarvalsstöðum sama ár. Á þeirri sýningu var vírinn hennar helsti efniviður. Hægt er að leika með táknmerkingu þráðarins þar sem allt tengist með einum eða öðrum hætti. Stundum býr listakonan til nýjan þráð úr þræði og tengir saman hin ólíklegustu form, sem leiðir hugann að tilraunum og væntingum manna um þráðlaus og snertilaus samskipti. Í eðli sínu byggist listin á slíkum samskiptum þar sem tenging við verkin byggist á skynfærunum og úrvinnslu þeirra rafboða sem heilanum berast. Með refilsaumi voru sagðar sögur bæði af trúarlegum toga og veraldlegum og mynstrin í lopapeysunum eru margvísleg og vitna um hvernig handverkshefð gengur sífellt í endurnýjun lífdaga með nýrri kynslóð notenda. Í verkinu gerir Guðrún hvoru tveggja hátt undir höfði og bendir jafnframt á að áhorfandanum gefst færi á að lesa í verkið og túlka söguna út frá eigin brjósti.

Guðrún Gunnarsdóttir hefur stundað myndlist og textílhönnun frá árinu 1976. Hún stundaði nám í vefnaði í Kaupmannahöfn ásamt því að hafa sótt sér menntun til Bandaríkjanna og ferðast víða um heim allan þar sem hún hefur dvalið á vinnustofum, meðal annars í Japan. Þar heillaðist hún af japanskri fagurfræði. Síðastliðin 20 ár hefur Guðrún unnið sérstaklega með þráðinn sem sinn meginefnivið, og hefur hún lýst sér sem þráðlistakonu.