Sundahöfn Ráðagjafarfyrirtækjum ber ekki saman um hvernig best sé staðið að rekstri Faxaflóahafna.
Sundahöfn Ráðagjafarfyrirtækjum ber ekki saman um hvernig best sé staðið að rekstri Faxaflóahafna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ráðgjafarfyrirtækið Portwise fer hörðum orðum um skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Drewry vann fyrir Faxaflóahafnir um þróun Sundahafnar til framtíðar. Þeir segja þá niðurstöðu Drewry að það muni skila sér í aukinni hagræðingu og bættri þjónustu að…

Viðtal

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Ráðgjafarfyrirtækið Portwise fer hörðum orðum um skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Drewry vann fyrir Faxaflóahafnir um þróun Sundahafnar til framtíðar. Þeir segja þá niðurstöðu Drewry að það muni skila sér í aukinni hagræðingu og bættri þjónustu að hverfa frá samkeppni yfir í einokun ekki standast skoðun.

Í endurmati þeirra á mati Drewry kemur meðal annars fram að byggt sé á vafasömum forsendum og að matsþættir við val á ólíku rekstrarfyrirkomulagi endurspegli ekki markmið Faxaflóahafna. Þá er gagnrýnt að matsþættir séu ekki vigtaðir eftir mikilvægi og loks að stigakvarðinn sem notaður var við matið sé til þess fallinn að gefa skakka mynd.

Forsaga málsins er sú að ráðgjafar Drewry voru fengnir til að meta annars vegar rekstrarfyrirkomulag Sundahafnar til framtíðar og hins vegar fjárfestingar og þróun hafnarinnar til framtíðar. Hvað rekstrarfyrirkomulag varðar reka Eimskip og Samskip hvort sína aðstöðu í Sundahöfn, í samkeppni hvort við annað. Niðurstaða Drewry var að hagkvæmast væri fyrir Faxaflóahafnir að gera sérleyfissamning við einn rekstraraðila í Sundahöfn, og hverfa þannig frá núverandi fyrirkomulagi með samkeppni tveggja fyrirtækja. Sú niðurstaða kom forsvarsmönnum Eimskips spánskt fyrir sjónir og í kjölfarið óskaði félagið eftir því að ráðgjafar Portwise legðu mat sitt á skýrslu Drewry.

Morgunblaðið ræddi við dr. Yvo Saanen, framkvæmdastjóra og stofnanda Portwise, og Pim van Leeuwen ráðgjafa sem unnu skýrsluna fyrir Eimskip ásamt dr. Zack Lu. Þeir segja það rekstrarfyrirkomulag sem Drewry leggur til ekki til þess fallið að auka hagkvæmni og bæta þjónustu. „Það kom okkur mjög á óvart að sjá ráðgjafa sem er þekktur fyrir hagfræðilegar rannsóknir ráðleggja einokunarfyrirkomulag. Það þarf ekki djúpa hagfræðiþekkingu til að vita að einokun leiðir ekki til nokkurs góðs,“ segja þeir.

Drewry sé sömuleiðis á villigötum hvað fjárfestingar og þróun Sundahafnar varðar. „Faxaflóahafnir höfðu gert fjárfestingaráætlun sem okkur þykir mjög skynsamleg, en Drewry leggur aftur á móti til leið sem felur í sér miklar hafnarstækkanir sem okkur þætti mjög óráðlegt að fara í.“

Einokun lækki hvorki verð né bæti þjónustu

Ráðgjafarnir segja Drewry hafa litið framhjá því að fyrirtæki í einokunarstöðu nýti yfirburði sína til þess að hámarka hagnað. „Við einokun geta fyrirtæki rukkað það verð sem þeim sýnist án þess að þurfa að veita góða þjónustu, enda stendur viðskiptavininum ekki annað til boða. Við mat Drewry skein sú ranghugmynd í gegn að einokunaraðilinn hefði einhvern sérstakan velvilja í garð Íslands. Hann myndi þannig gera allt til að þjónusta íslenska þjóð sem best, bæta skilvirkni og lækka kostnað þannig að Íslendingar fengju vörur sínar á lægra verði – sem dæmin sanna að er fjarstæðukennt.“

Að mati Portwise tók Drewry ekki til greina hversu öflugu rekstrarlíkani Eimskip og Samskip búa yfir. „Rekstrarlíkan félaganna byggist á samþættri aðfangakeðju sem nær yfir fraktflutninga, hafnarþjónustu, gámasvæði og vöruflutninga innanlands. Stóra alþjóðlega rekstraraðila dreymir um að komast á þann stað sem Eimskip og Samskip hafa þegar náð. Líkan þeirra býr yfir samlegð og skilvirkni sem skilar sér í lægra verði til íslenskra neytenda. Það að ætla að brjóta þessa keðju upp mun eyðileggja þá miklu samlegð og hagkvæmni sem náðst hefur.“

Faxaflóahafnir hafa lagt mikla áherslu á að draga úr aðgangshindrunum nýrra fyrirtækja á íslenska markaðinn. Portwise telur að hindrunin felist ekki í núverandi rekstrarfyrirkomulagi. „Það er sannarlega aðgangshindrun til staðar, en hún felst ekki í því að Eimskip eða Samskip vilji ekki þjónusta keppinauta. Hindrunin felst öðru fremur í því að félögin búa yfir mjög skilvirku líkani sem erfitt er fyrir nýjan aðila á markaði að keppa við. Eina leiðin til að lækka þröskuldinn væri að draga úr skilvirkni.“

Þeir telja ályktun Drewry um að einokunarfyrirkomulagið leiði til lægra verðs óraunhæfa þótt litið sé framhjá eðli einokunar. „Verð Eimskips er í lægri kantinum í samanburði við það sem gengur og gerist í Evrópu. Það er töluverður verðmunur á milli landa, en það er alveg ljóst að verð Eimskips er lágt. Í raun væri frekar svigrúm til hækkunar en lækkunar.“

Matsþættir endurspegli ekki markmið

Faxaflóahafnir hafa sett fram mjög skýr markmið sem í grundvallaratriðum snúast annars vegar um að ýta undir opinn markað og samkeppnishæfni og hins vegar að nýta almannafé og land með ábyrgum hætti. Að mati Portwise endurspegla matsþættir Drewry við val á rekstrarlíkani ekki markmið hafnaryfirvalda.

„Að okkar mati ættu matsþættirnir alltaf að endurspegla sett markmið. Sumir matsþættir Drewry tengjast markmiðunum lítið eða ekkert og því er það óskiljanlegt í okkar huga að styðjast við þá yfirhöfuð. Á móti söknum við matsþátta sem skipta miklu máli fyrir þá framtíðarsýn sem stefnt er að.“

Sem dæmi um matsþátt sem hefur engin tengsl við markmið Faxaflóahafna nefna þeir „Skýr hlutverkaskipting“ en það er fyrsti matsþáttur á blaði hjá Drewry. „Matsþátturinn leiðir ekki að niðurstöðu sem þjónar markmiðum hafnaryfirvalda en hann hefur engu að síður sama vægi og matsþættir með skýr tengsl við markmiðin, svo og matsþættir sem snúa að hagkvæmni og reynslu. Ef hagkvæmnin er lítil eða ef aðili hefur enga reynslu af slíkum rekstri ætti það í raun að dæma hann alfarið úr leik, en þessir veigamiklu þættir hafa sama vægi í mati þeirra og aðrir með engin tengsl við það sem stefnt er að.“

Loks gagnrýna ráðgjafar Portwise að Drewry meti leiðirnar á stigakvarðanum 1-3. „Þessi stigakvarði er aldrei notaður við mat á valkostum. Þriggja stiga kvarðinn er helst notaður til að spyrja hvort einhver sé ósammála, sammála eða hlutlaus í afstöðu til einhvers, en jafnvel þá er algengara að nota fimm stiga kvarða. Þeir eru einfaldlega að beita rangri aðferð. Á kvarðanum 1-3 er 3 þrisvar sinnum betri útkoma en 1, sem getur leitt til gríðarlegrar skekkju, því venjulega er munurinn á milli ólíkra kosta ekki svo mikill í reynd.“

Tilefni til bjartsýni

Við endurmat sitt nýtti Portwise 0-10-kvarðann, tók út matsþætti sem ekki tengdust markmiði Faxaflóahafna og bætti öðrum við. Þá vigtuðu þeir matskosti ólíkt eftir mikilvægi. Niðurstaða þeirra er að ákjósanlegast sé að Faxaflóahafnir haldi sig í grundvallaratriðum við það rekstrarfyrirkomulag sem í dag er í Sundahöfn.

Í dag fer um hálf milljón gámaeininga um Sundahöfn á ári en Drewry spáir því að magnið verði komið upp í milljón árið 2050. Portwise telur þá spá raunhæfa. „Miðað við það magn sem gert er ráð fyrir hentar mjög vel að hafa tvo skilvirka rekstraraðila í virkri samkeppni. Ef þeim þriðja væri bætt við drægi það úr skilvirkni, því magnið er einfaldlega ekki nægjanlegt.“

Ráðgjafar Portwise vonast eftir því að skýrsla þeirra nýtist Faxaflóahöfnum vel. Niðurstaða þeirra gefi tilefni til bjartsýni og það sé ekki of seint að breyta um kúrs. „Ef þeir vilja taka upplýsta ákvörðun um framtíð Sundahafnar geta þeir tekið tvennt jákvætt út úr skýrslunni okkar. Annars vegar varðandi fjárfestingaráformin sem koma snemma til á tímabilinu í skýrslu Drewry og myndu kosta almenning mikið fé. Að okkar mati má seinka þeim verulega, því okkar niðurstaða er sú að með núverandi aðstöðu geti höfnin vaxið upp í milljón gámaeiningar án þess að stækka Faxaflóahafnamegin. Fjármagnið er því hægt að nýta í annað þarfara.

Hins vegar það að hér hefur tekist að koma á fót rekstrarlíkani sem er til fyrirmyndar og þykir eftirsóknarvert á heimsvísu. Íslendingar ættu því að vera mjög stoltir af Sundahöfn og þeim árangri sem náðst hefur.“

Höf.: Andrea Sigurðardóttir