Á Göngu Verðmætasköpun á mann er óvíða meiri í Evrópu en hér.
Á Göngu Verðmætasköpun á mann er óvíða meiri í Evrópu en hér. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Landsframleiðsla á Íslandi mælist sú fimmta mesta í Evrópu og er 34% yfir meðaltalinu í álfunni. Raunar eru aðeins Sviss, Noregur, Írland og Lúxemborg ofar á listanum, eins og sýnt er á grafinu hér fyrir ofan

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Landsframleiðsla á Íslandi mælist sú fimmta mesta í Evrópu og er 34% yfir meðaltalinu í álfunni. Raunar eru aðeins Sviss, Noregur, Írland og Lúxemborg ofar á listanum, eins og sýnt er á grafinu hér fyrir ofan.

Þetta má lesa úr tölfræði sem birt var á vef Hagstofu Íslands.

Var 34% meiri en í Evrópu

Segir þar að landsframleiðsla á mann á Íslandi hafi verið 34% meiri á Íslandi í fyrra en að jafnaði í 36 Evrópuríkjum sem borin voru saman. Þá eru meðtalin 27 ESB-ríki eftir útgöngu Breta úr sambandinu árið 2020.

„Einstaklingsbundin neysla á mann á Íslandi var 21% meiri en í Evrópusambandinu árið 2023. Verðlag á mat og drykk var 36% hærra á Íslandi en í Evrópusambandinu að jafnaði árið 2023,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

Skiptist í norður og suður

Af grafinu hér fyrir ofan má lesa að öll ríkin sem eru yfir meðaltali ESB (100) eru í norður- og vesturhluta Evrópu, auk Mið-Evrópuríkjanna Sviss og Austurríkis.

Þessi tölfræði er athyglisverð með hliðsjón af nýjum tölum um aðflutning erlendra ríkisborgara til landsins sem fjallað var um í blaðinu í fyrradag. Þar kom fram að á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 1. maí 2024 fjölgaði Pólverjum sem eru búsettir á Íslandi um 5.272, Litáum fjölgaði um 1.377, Rúmenum um 2.822, Úkraínumönnum um 4.196 og Lettum um 1.124.

Mörg ungmenni án vinnu

Landsframleiðsla í öllum þessum ríkjum er undir áðurnefndu meðaltali (100). Af öðrum dæmum má nefna að hingað fluttu 911 frá Spáni á tímabilinu, 600 frá Portúgal og 659 frá Ítalíu.

Töluvert atvinnuleysi er í þessum ríkjum. Það var 7,5% á Ítalíu í febrúar, 11,5% á Spáni og 6,7% í Portúgal, að því er lesa má á vef Eurostat. Atvinnuleysi meðal yngra fólks er enn meira. Þannig mældist það 22,8% meðal 25 ára og yngri á Ítalíu, 28,2% á Spáni og 23,1% í Portúgal.