Íslenski hesturinn á marga aðdáendur um allan heim og á hverju landsmóti hestamanna er talið að 10-20% mótsgesta komi frá öðrum löndum. Jens Füchtenschneider er einn af fjölmörgum erlendum unnendum íslenska hestsins og hann hyggst mæta á Landsmót hestamanna í Reykjavík í ár. Jens, sem búsettur er í Suður-Þýskalandi, hefur getið sér gott orð sem þjálfari, reiðkennari og dómari og rekur ásamt konu sinni Íslandshestabúgarðinn Gestüt Auchtert.
Frjálsræði og velgengni hestsins
Jens mætti fyrst á Landsmót hestamanna árið 1990 og hefur síðan þá mætt á öll mót fyrir utan eitt. Hann segir íslenska hestinn hafa haft gríðarlega mikil áhrif á sig, líf sitt og starf. Hann sé enn jafn heillaður af íslenska hestinum og hann var þegar hann kynntist honum fyrst. Jens segir íslenska hestinn hafa kennt sér margt, svo sem auðmýkt og þrautseigju en hann tengi einnig frjálsræði og velgengni við íslenska hestinn.
Aðspurður hvað honum finnist hápunktar landsmóts segir hann að A-flokkur gæðinga og sýning kynbótahrossa sé það sem heilli hann mest og hann fylgist best með. „Ég heillast einnig af því að fylgjast með ungu kynslóðinni í keppni, þau eru framtíðin. Gaman hefur verið að fylgjast með knöpum í barna-, unglinga- og ungmennaflokkum skína og seinna meir taka skrefið og gerast atvinnumenn í greininni. Mér finnst mjög áhugavert að fylgjast með þróuninni í reiðmennsku og hvað hún tekur miklum framförum ár frá ári.“
Stjarna á hverju móti
Jens segir öll landsmót hafa sína sérstöðu og sjarma en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna sem markaðssetning og auglýsing á íslenska hestinum á heimsvísu. Skipulag og framkvæmd landsmótanna hefur þróast samhliða stækkun mótanna, auknum fjölda gesta og keppenda.
Þá segir Jens að hvert landsmót eigi sína stjörnu. „Á hverju móti kemur fram ný stjarna og hver ný stjarna er frábær á sinn hátt. Fyrir mér stendur þó eitt hross upp úr af öllum þeim hrossum sem sýnd hafa verið á þeim landsmótum sem ég hef sótt. Sýning Christinu Lund á Álfadísi frá Selfossi, sem þá var einungis fjögurra vetra gömul, á Landsmóti í Reykjavík árið 2000 var einstök. Hryssan var algjörlega frábær og sýningin einnig. Það var gæsahúðaraugnablik og hún er að mínu mati eftirminnilegasta hrossið á þeim landsmótum sem ég hef sótt. Svo hefur Álfadís einnnig skilað frábærum afkvæmum sem hafa skinið skært á landsmótum og bera uppi hennar hróður í ræktun og keppni.“
Jens hlakkar mikið til móstins en hann nýtir einnig tímann til að heimsækja vini og kunningja hérlendis sem eru fjölmargir. „Ég hitti þó langflesta vini mína á landsmóti hestamanna því mótið er jú ekki bara hestamót heldur líka mannamót þar sem áhugamenn og unnendur íslenska hestsins koma saman, ræða málin, hafa gaman og njóta þess að horfa á landsins bestu hesta.“