Glæsimark Morten Hjulmand fagnar eftir að hafa jafnaði fyrir Dani gegn Englendingum með stórglæsilegu skoti af 25 metra færi.
Glæsimark Morten Hjulmand fagnar eftir að hafa jafnaði fyrir Dani gegn Englendingum með stórglæsilegu skoti af 25 metra færi. — AFP/Angelos Tzortzinis
Spánverjar urðu í gærkvöld fyrsta liðið til að vinna sinn riðil á Evrópumóti karla í fótbolta í Þýskalandi þegar þeir sigruðu Ítali í sannkölluðum stórveldaslag í Gelsenkirchen, 1:0. Spænska liðið er með sex stig, Ítalir þrjú, Króatar og Albanar…

EM 2024

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Spánverjar urðu í gærkvöld fyrsta liðið til að vinna sinn riðil á Evrópumóti karla í fótbolta í Þýskalandi þegar þeir sigruðu Ítali í sannkölluðum stórveldaslag í Gelsenkirchen, 1:0.

Spænska liðið er með sex stig, Ítalir þrjú, Króatar og Albanar eitt stig hvor, og vegna sigursins verður Spánn alltaf fyrir ofan Ítalíu þó liðin myndu enda jöfn að stigum.

Þetta þýðir að Spánn fer áfram sem sigurvegari B-riðils og leikur sunnudagskvöldið 30. júní í Köln í 16-liða úrslitum, gegn einhverju þeirra liða sem kemst áfram í þriðja sæti úr A-, D-, E- eða F-riðlum.

Slagur Ítala og Króata

Ítalir eiga hins vegar fyrir höndum afar áhugaverðan úrslitaleik um annað sæti riðilsins gegn Króötum í lokaumferð hans á mánudagskvöldið. Króatar verða að vinna en jafntefli myndi nánast örugglega fleyta Ítölum áfram.

Þá má ekki afskrifa Albana sem gætu komist áfram úr riðlinum með því að vinna Spánverja, sem hafa ekki að neinu að keppa í lokaumferðinni.

Það var sjálfsmark sem skildi að lið Spánar og Ítalíu í gærkvöld. Á 55. mínútu sendi Nico Williams fyrir mark Ítala, Álvaro Morata skallaði áfram, beint í hné ítalska miðvarðarins Riccardo Calafiori og þaðan í netið, 1:0.

Spánverjar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og markvörðurinn Gianluigi Donnarumma kom í veg fyrir stærri sigur þeirra.

Galopinn C-riðill

Báðir leikir C-riðilsins í gær enduðu með jafntefli, 1:1. Fyrst voru það Slóvenar og Serbar sem skildu jafnir og síðan Danir og Englendingar.

Þar með er riðillinn galopinn fyrir lokaumferðina næsta þriðjudag en þrír af fjórum leikjum hans hafa endað 1:1. England er nánast öruggt með að komast í 16-liða úrslitin, 4 stig munu nær örugglega duga til þess, en enska liðið gæti samt endað í þriðja sæti riðilsins með ósigri gegn Slóveníu og þar með þurft að mæta einhverju af sigurliðum riðlanna.

Slóvenar þurfa sigur til að fara áfram og eins verður allt undir í leik Dana, sem eru með tvö stig, og Serba, sem eru með eitt stig. Jafntefli þar gæti fellt bæði liðin úr keppni og ljóst að Serbum nægir ekkert annað en sigur.

Danirnir voru betri

Danir voru betri aðilinn gegn Englendingum, sem ollu talsverðum vonbrigðum með leik sínum í Frankfurt í gær.

Harry Kane kom þeim þó yfir eftir góðan undirbúning Kyle Walkers en Morten Hjulmand jafnaði fyrir Dani í fyrri hálfleik með glæsilegu skoti af 25 metra færi í stöng og inn, 1:1. Góður staður og stund fyrir danska miðjumanninn til að skora sitt fyrsta landsliðsmark.

Slóvenar virtust nánast vera komnir í 16-liða úrslitin eftir að Zan Karnicnik kom þeim yfir, 1:0, gegn Serbum í München. En dramatíkin var svakaleg í lokin þegar Luka Jovic jafnaði með skalla á lokasekúndum uppbótartímans, 1:1, og gaf sínu liði þar með nýja von um að komast áfram úr riðlinum.