Rekinn Gregg Ryder tók við KR í vetur en er nú horfinn á braut.
Rekinn Gregg Ryder tók við KR í vetur en er nú horfinn á braut. — Morgunblaðið/Eyþór
Gregg Ryder fékk aðeins tíu leiki í Bestu deild karla sem þjálfari KR en Vesturbæjarfélagið sagði honum upp störfum í gær í kjölfarið á fimmta ósigri liðsins í fyrstu tíu leikjum Íslandsmótsins á þriðjudagskvöldið, 2:1 gegn ÍA

Gregg Ryder fékk aðeins tíu leiki í Bestu deild karla sem þjálfari KR en Vesturbæjarfélagið sagði honum upp störfum í gær í kjölfarið á fimmta ósigri liðsins í fyrstu tíu leikjum Íslandsmótsins á þriðjudagskvöldið, 2:1 gegn ÍA.

Ryder tók við af Rúnari Kristinssyni eftir síðasta tímabil og byrjunin lofaði góðu, KR vann fyrstu tvo leikina í deildinni í vor, en hefur síðan aðeins unnið einn sigur í átta leikjum og er í áttunda sæti deildarinnar, einu stigi á undan HK og Vestra sem eru í níunda og tíunda sætinu.

Óskar hefur ekki áhuga

Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við starfi ráðgjafa hjá knattspyrnudeild KR á dögunum en Páll Kristjánsson formaður deildarinnar sagði við fótbolta.net í gær að Óskar hefði engan áhuga á að taka við þjálfun KR-liðsins.

Pálmi Rafn Pálmason, fyrrverandi leikmaður KR, var í þjálfarateyminu með Ryder og hann mun stjórna liðinu í næsta leik sem er gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings á útivelli annað kvöld.

Staða KR-liðsins í dag er nákvæmlega sú sama og fyrir ári. Eftir tíu leiki árið 2023, undir stjórn Rúnars, var KR líka með 11 stig og hafði tapað fimm leikjum. Þá var liðið í níunda sæti og nú í því áttunda. KR skoraði 19 mörk í tíu leikjum undir stjórn Ryders en fékk á sig 21. Á sama tíma í fyrra var markatala liðsins 9:18.