María Pétursdóttir, húsfreyja í Víðidalstungu II, fæddist á Geitafelli á Vatnsnesi 23. mars 1932. Hún lést á sjúkrahúsinu á Hvammstanga 8. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Pétur Gunnarsson sjómaður og bóndi, f. í Viðey 1889, d. 1946, og Auðbjörg Gunnlaugsdóttir, húsfreyja og kaupmaður, f. 1911 á Geitafelli, d. 1980. Systkini Maríu voru Auðbjörg, f. 1933, d. 2009, Sigurlaug Erla, f. 1934, Gunnlaugur, f. 1935, d. 2014, Guðrún, f. 1939, og Soffía, f. 1941.

Þann 18.11. 1950 giftist Maja, eins og hún var jafnan kölluð, Teiti Eggertssyni, f. 20.7. 1923, d. 28.2. 1996, frá Þorkelshóli í Víðidal. Kjörsonur þeirra er Eggert, f. 1970, endurskoðandi, maki Ásta Malmquist, f. 1967, viðskiptafræðingur. Dætur þeirra eru a) Sigríður María, f. 1999, hjúkrunarfræðingur, sambýlismaður Gunnar Pálmi Hannesson, f. 1996, flugmaður, og eiga þau Tryggva Hrafn, f. 2024, og b) Herdís Hörn, f. 2006, nemi. Þá ólst upp hjá Maju og Teiti frá fjögurra ára aldri systursonur Maju, Guðmundur St. Sigurðsson, f. 1953, múrari, kórstjóri og organisti. Maki hans er J. Valgerður Valgeirsdóttir, f. 1959, sérfræðingur. Börn þeirra eru a) Fanney Dögg, f. 1989, viðskiptastjóri, maki Árni Snær Jónsson, f. 1992, bílstjóri, og eiga þau Henry Stefán, f. 2022, og b) Andri Páll, f. 1991, þýðingafræðingur. Dætur Guðmundar St. frá fyrri sambúð eru a) Anna Lára, f. 1976, innanhússhönnuður, maki Árni Víðir Alfreðsson, f. 1968, sprengistjóri, búsett í Noregi, og eiga þau Júlíu Ósk, f. 2005, Orra, f. 2007, og Sigrúnu Völu, f. 2010, b) María Ögn, f. 1980, hjólaþjálfari, sambýlismaður Hafsteinn Ægir Geirsson, f. 1980, hjólari, og eiga þau Hafrúnu Bríeti, f. 2017. Dóttir Maríu úr fyrra sambandi er Katla Björt, f. 2007.

Maja ólst upp stóran hluta ungdóms síns á Vatnsnesi sem hún bar mjög sterkar taugar til alla tíð. Fyrst var hún á Geitafelli en síðar hjá móðursystur sinni Sesselju á Gnýstöðum en einnig á heimili foreldra sinna á Árbakka á Hvammstanga. Hún var elst sex systkina og faðir hennar heilsulítill. Voru barns- og unglingsárin oft nokkuð krefjandi en best leið henni á Gnýstöðum sem og á Akureyri þar sem hún var eitt sumar í vist, árið er Pétur faðir hennar lést. Skólaganga var takmörkuð við farskóla á þessum árum. Maja var vinnukona, t.d. í Árnesi í Miðfirði og á Reykjum í Hrútafirði og er þar 1949 er hún kynnist Teiti, sem þá var vinnumaður á Brekkulæk í Miðfirði. Fluttust þau að Þorkelshóli í Víðidal árið 1950 og bjuggu þar til þau festu kaup á hálfri Víðidalstungu árið 1953. Þar byggðu þau upp öll hús, ræktuðu tún og bjuggu alla sína starfsævi, fram til 1996. Eftir andlát Teits bjó Maja áfram í húsi sem þau höfðu reist sér í Tungu II og tók á móti gestum við öll tilefni, bauð upp á nóg af veitingum, bakstur var hennar líf og yndi. Þá átti hún seinni árin afdrep í eigin íbúð í Reykjavík þar sem var sömuleiðis gestkvæmt. Maja var mikil félagsvera, sótti í að kynnast nýju fólki við hvaða tilefni sem var. Maja var virkur félagsmaður í Kvenfélaginu Freyju í Víðidal.

Útförin verður frá Hvammstangakirkju í dag, 21. júní 2024, klukkan 14 og jarðsett í Víðidalstungukirkjugarði.

Tengdamóðir mín María Pétursdóttir eða Maja í Tungu eins og hún var jafnan kölluð hefur kvatt þetta jarðlíf. Það er mikill sjónarsviptir að henni Maju minni enda engin lognmolla þar. Áfram gakk, hlutirnir áttu að gerast, þar var hún fremst í flokki að láta þá gerast og lagði sig mest fram. Maja fæddist við fátækt, elst sex systkina og aðeins 14 ára þegar hún missir föður sinn. Hún fór ung að vinna en fyrsta vinnan hennar var að gæta hesta þeirra sem komu í þorpið, brynna þeim og gefa hey, 5 kr. fyrir hvern hest. Þetta gerði hún þrátt fyrir hræðslu við hrossin en hún varð að hjálpa til við að leggja til heimilisins. Heima við var hennar hlutverk að passa „krakkastóðið“ eins og hún orðaði sjálf, sjá um matseld og var uppistaðan kartöflur og uppstúfur til að drýgja matinn. Sumarið 1946 hafði hún ráðið sig í vist norður á Akureyri og undi sér þar vel en var kölluð heim til að kveðja föður sinn. Ekki sneri hún aftur í vistina því frænka á Gnýstöðum gekk með yngsta barn sitt og var hún fengin í að hjálpa Sesselju. Þar leið henni vel og yljaði sér oft við þær minningar sem úr vistinni á Akureyri.

Ég kom fyrst í Tungu fyrir 30 árum og það var kvenskörungur sem tók á móti mér, gekk bókstaflega í öll verk! Útbjó morgunmat, brauð úr brauðvélinni, undirbjó mat, fór í rauðu treyjuna, prjónakollan á og í gúmmískó. Út á tún að snúa heyinu. Heim rétt fyrir hádegi, kveikja undir matnum, hræra í köku, út aftur. Hún slakaði aldrei á, kunni það ekki og naut þess heldur ekki. Ef ekki voru útiverk þá voru það inniverk, bakstur átti hug hennar allan en þeir feðgar oft þreyttir á brölti hennar, sértaklega þegar prófaðar voru nýjar kleinuuppskriftir, þeir elskuðu þá gömlu. Þegar við Eggert bjuggum í Tungu kenndi hún mér á traktor og réttu handtökin við að hjálpa ám við burð. Hún var þolinmóð við þetta en við áttum ekki samleið í bakstrinum en kenndi hins vegar dætrunum að baka. Hún var mikil stoð fyrir okkur Eggert þegar stelpurnar veiktust eða starfsdagar voru. Snögg að vinda sér upp í Norðurleið og orðin málkunnug bílstjórunum, mikil hjálp á allan máta heima fyrir. Í Svarthömrum var gestkvæmt og hún til staðar fyrir stelpurnar. Þar var hálfgert mötuneyti því hún eldaði alltaf eins og þegar hún var með stórt og mikið heimili, of mikið magn en ekki amalegt að koma heim úr vinnu beint í kvöldverð. Þar undi hún sér þokkalega þó Tunga væri alltaf best og hugurinn stefndi alltaf heim eins og viku fyrir andlátið.

Kvenhetjan María í Tungu er fallin frá. Bjó við fátækt í æsku, hóf búskap í tjaldi með tvö börn í sveit, átti við heilsubrest að stríða, ól upp drengina sína með sóma, missti Teit allt of snemma. En þá fór Maja líka að ferðast með kórnum, löggum og okkur og hafði mikið yndi af. Hún var alltaf glöð og kát þó lífið væri ekki alltaf auðvelt.

Nú er hún Maja mín komin til Teits síns, farin á rúntinn eða í reiðtúr, búin að kveikja í filterslausri Camel og njóta saman.

Ég er mjög þakklát fyrir hugulsemi þína, ást og virðingu alla tíð.

Hafðu þökk fyrir allt elsku Maja mín.

Meira á www.mbl.is/andlat

Þín tengdadóttir,

Ásta.

Mig langar að minnast ömmu minnar sem var mér svo mikils virði. Amma í Tungu var ein af mínum fyrirmyndum í lífinu. Dugnaður, þrautseigja og ákveðni voru klárlega orð sem lýstu ömmu í sveitinni vel.

Ég var svo heppin að fá að fara í sveit til ömmu á sumrin, frá því að ég var 6 ára til 21 árs. Fyrst byrjaði það með því að amma passaði mig en síðan mætti segja að hlutverkin hafi snúist við hin seinni ár. Þessa sumarmánuði ár hvert tók amma við uppeldinu á mér og mótaði mig mikið. Við amma vorum bestu vinkonur og gerðum ýmislegt saman. Í sveitinni lærði ég hitt og þetta af ömmu, svo sem að baka, elda, halda rosaleg partí og margt fleira. Amma var höfðingi heim að sækja og ætlaði svo sannarlega að kenna mér það. Ekki leið sá dagur að enginn kæmi í kaffi og auðvitað var langoftast eitthvað nýbakað á borðinu, Tunga 2 var eins og kaffihús og félagsheimili á sama tíma. Einnig geta ekki allir sagt að þeir hafi lært 6 ára að blanda G og T fyrir ömmu sína, amma í sveitinni var engum lík.

Fyrsti bíltúrinn okkar með mig sem bílstjóra er mér mjög minnisstæður. Kannski vita ekki allir að hún var frekar bílhrædd og þá sérstaklega þegar

aðrir en hún sjálf voru að keyra. Við amma vorum sem sagt á leiðinni í kaupstaðarferð á Hvammstanga á bláa bílnum hennar. Amma var búin að reyna að sannfæra mig um að bíllinn kæmist ekki hraðar en 60 km/klst og ef hann mögulega gæti það færi það mjög illa með bílinn. Við keyrum af stað og amma ekki sátt að ég væri að keyra á 90 km/klst hraða, svo mætum við bíl. Amma byrjar á því að taka í gírstöngina hjá mér og tekur bílinn úr gír og ég nauðhemla og á sama tíma tekur amma í handbremsuna og segir síðan að ég hafi verið að keyra allt of hratt! Við komumst nú samt heilar á húfi á

leiðarenda en báðar frekar ósáttar hvor við aðra en vorum nú fljótar að gleyma því.

Amma var engum lík og mikill karakter sem tók þátt í að gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég sakna hennar mjög mikið en minning hennar lifir og ég minnist hennar á hverjum degi. Takk fyrir allt, elsku besta amma.

Þín

Sigríður María.

Amma Maja var ein af mínum allra uppáhaldsmanneskjum enda var hún mikil stemningskona og nánast alltaf brosandi. Þegar ég hugsa um ömmu þá hugsa ég um hana með flottar lambakrullur, í einhverju bláu og heldur annaðhvort á kaffibolla eða sígó. Jafnvel þótt ömmu liði best í sveitinni sinni og væri flest sumur þar með systur minni, var ég svo heppinn að fá að eyða miklum tíma með henni á veturna í Svarthömrum, sérstaklega eftir skóla á grunnskólaárunum. Þar kynntist ég fullt af vinum hennar og fjölskyldu, borðaði líka fullt af pylsum, poppi og snakki, horfði á allskyns sjónvarpsefni og hjálpaði henni að elda eða baka fyrir gesti. Ég var líka svo heppin að fá fullt af vinum mínum í heimsókn til hennar og fá þau til að kynnast stórskemmtilegu ömmu minni sem mér fannst svo geggjað. Hún reykti meira og drakk meira kaffi en nokkur sem ég hef kynnst og minningin um þá lykt flytur mig oft í nostalgíu í Svarthamra. Stundum fékk ég að gista hjá ömmu í Svarthömrum og fór beint í skólann daginn eftir, lyktandi eins ég væri búin að reykja 5 pakka af Camel enda var lyktin í Svarthömrum stundum frekar yfirþyrmandi.

Ég á margar fallegar minningar með ömmu. Mínar helstu gerast í eldhúsinu, bæði í Tungu og í Svarthömrum, að baka saman fyrir fólkið okkar, og þegar ég er að vinna í eldhúsinu í vinnunni minni í Sumarbúðum KFUM&K hugsa ég mikið til ömmu og veitir það mér mikla hugarró. Eins og margir kannski vita þá var það ekkert leyndarmál að amma hélt meira upp á stráka en stelpur en mér leið aldrei þannig, amma alltaf yndisleg við okkur systur. Ég var oft kölluð herforinginn hennar þar sem ég var frekar fljótfær og æst sem barn (mögulega út af öllu snakkinu sem hún gaf mér) og þykir mér mjög vænt um þetta viðurnefni og svo auðvitað var ég líka oft kölluð Dísa af henni sem mér þykir enn meira vænt um.

Eftir að amma fór norður á spítalann var ég stundum hrædd um að hún myndi gleyma okkur þar sem minnið var orðið verra og við gátum ekki hitt hana eins oft og við höfðum áður gert. Því var ég alltaf þakklát fyrir að hún mundi eftir Dísu og Siggu sinni og litla drengnum sínum (pabba) og gaf okkur knús þegar við löbbuðum inn. Ömmu minni og Hrímsa okkar komu líka mjög vel saman og enduðu flestallar máltíðir ömmu hjá okkur með því að Hrímsi fékk eitthvað af disknum hennar. Eitt sinn í jóladagsboði var amma ein úti í horni að borða rjómatertu og fékk Hrímsa til þess að sleikja allan diskinn fyrir sig. Ég er mjög þakklát fyrir að við eigum þetta atvik á myndbandi.

Amma mun alltaf vera ein af mínum helstu fyrirmyndum og ég vona að einn daginn muni ég verða jafn góð og yndisleg amma og hún og hinar ömmur mínar. Amma Maja mun alltaf eiga stóran hlut í hjarta mínu og ég mun vera ævinlega þakklát fyrir allt sem hún gaf mér. Söknuður minn er mikill en minningar um yndislegu ömmu mína lifa. Ég vona að hún sitji nú með afa mínum og fái sem mest af vínarbrauði og Baileys hvar sem hún er. Takk fyrir allt, elsku amma.

Þín

Herdís.

Í dag kveðjum við elskulega föðursystur okkar Maríu Pétursdóttir eða Mæju í Tungu eins og við kölluðum hana alltaf. Okkur eru minnisstæðar margar góðar stundir í Tungu hjá þeim hjónum Mæju og Teiti. Móttökurnar voru alltaf höfðinglegar hjá þeim, enda stutt innlit ekki í boði á þeim bænum. Hlaðborð og næturgisting var meira í hennar anda.

Mæja var mjög mannblendin og oftar en ekki hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom og laðaði fólk að sér með skemmtilegum tilsvörum og tilheyrandi hlátrasköllum.

Eftir að Teitur lést fór hún að dveljast lengur hjá fjölskyldunni í Reykjavík og urðu samskipti okkar þá tíðari. Ófáar kaffihúsaferðir, matarboð og spjall um mataruppskriftir eru ógleymanlegar stundir með henni.

Alltaf var hugur hennar samt heima í Tungu og var henni mikils virði að geta dvalið þar á sumrin og stundum með aðstoð móður okkar Ásdísar, sem hún kallaði gjarnan vinnukonuna sína. Náðu þær mágkonur mjög vel saman og var þeim báðum dýrmætur tími. Góðar minningar um endalausan kökubakstur, gestamóttökur og kaupstaðarferðir voru oft rifjaðar upp með mikilli gleði. Síðustu árin dvaldi hún á Heilbrigðisstofnun Hvammstanga, nálægt sveitinni sinni sem var henni svo kær.

Blessuð sértu sveitin mín,

sumar, vetur, ár og daga.

Engið, fjöllin, áin þín,

yndislega sveitin mín,

heilla mig og heim til sín

huga minn úr fjarlægð draga.

Blessuð sértu, sveitin mín,

sumar, vetur, ár og daga.

(Sigurður Jónsson)

Við kveðjum elsku Mæju okkar á afmælisdegi Gulla bróður hennar og sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Birna Guðný,
Pétur Þór, Bryndís
Gunnlaugsbörn.

Okkur systkinin langar að minnast Maríu Pétursdóttur eða Maju í Tungu. Við kynntumst Maríu og Teiti eiginmanni hennar þegar systir okkar og Eggert sonur þeirra hófu sitt samband.

Fyrsta ferðin í Víðidalstungu sumarið 1994 er minnisstæð þar sem við borgarbörnin fengum að taka þátt í heyskap í fyrsta sinn. Það fór nú reyndar lítið fyrir heyskapnum þann daginn heldur fór meirihluti dagsins í að neyta þeirra ýmsu kræsinga sem María bauð upp á. En þessi dagur markaði tímamót í lífi okkar þegar við fengum að kynnast sveitinni þeirra Maríu og Teits og ljóst að þaðan í frá væri skylda að renna við í Tungu þegar við værum á ferðinni. Víðidalinn höfum við heimsótt oft og finnst við eiga smá hlut í. Það verður þó ekki eins að heimsækja Víðidalinn fagra heim enda er dalurinn og María í okkar huga eitt. Áfram mun þó minning Maríu og Teits lifa í dalnum.

Allt frá fyrstu tíð varð María hluti af fjölskyldunni okkar í Lálandinu og margar af okkar skemmtilegustu minningum um Maju tengjast jólum. Við, rétt skriðin yfir tvítug, yngstu „börnin“ á heimilinu, vorum vön að fá flesta pakka eða þar til Maja mætti. Það var gaman að fylgjast með gleðinni þegar hún tók upp hvern pakkann á fætur öðrum en svo virtist sem hún fengi gjafir frá allri sveitinni. Keppnisskapið hennar Maju og gleði í félagsvistinni á jóladag yljar okkur nú um hjartarætur.

Síðar þegar við stofnuðum okkar eigin fjölskyldur fylgdist María alltaf af áhuga með börnum okkar, tók þátt í lífi þeirra og þau tengdust ömmu Maju nánum böndum. Þá var aldrei leiðinlegt þegar kleinusending barst frá ömmu Maju. Við erum öll ríkari að hafa fengið að kynnast Maríu og sveitinni hennar en þar höfum við farið í réttir og veitt í ánni hennar Maríu, Víðidalsá.

Við þökkum einnig fyrir að María hafi fengið að hitta Tryggva Hrafn, yngsta barnabarnabarnið sitt, áður en hún kvaddi.

Elsku Eggert, Ásta, Guðmundur, Valla, börn og barnabörn við vottum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning Maríu mun alltaf lifa í hjörtum okkar.

Rúna og
Jón Eðvald
Malmquist.

10. júní 1957 lagði tíu ára strákur frá Akranesi af stað með Norðurleiðarrútunni til sumardvalar í sveit. Ferðalagið var langt fyrir þann, sem var að fara í fyrsta sinn að heiman. Víðidalur var í huganum í órafjarlægð frá Akranesi og auk þess var ferðinni heitið til fólks, sem var mér og mínum bláókunnugt og óskylt. Líklega hef ég aldrei farið í „lengra“ ferðalag á lífsleiðinni.

Ekki voru símar á hverju heimili og eitthvað höfðu skilaboðin skolast til, um hvenær von væri á kaupamanninum. Hann þurfti því að labba með sitt dót frá þjóðveginum niður í dalinn. Svolítið óöruggur og ekki alveg viss um hvort hann hefði gengið að réttum bæ. Bankaði á útidyrahurðina í litla torfbænum í Tungu og til dyra koma Maja. Það voru fyrstu kynnin. Faðmlag, ég var öruggur. Upphafið að áratuga tryggð og vináttu.

Og nú hartnær 70 árum frá fyrstu kynnum er komið að kveðjustundinni. Það er erfitt að kveðja, sérstaklega þá sem eru svo samofnir uppvaxtarárunum, maður er í reynd að kveðja hluta af sínum þroskaárum.

Hluta af þeim tengslum við bernskuna, sem maður vill halda í sem lengst. Maja í Tungu var svo sannarlega hluti af mínum uppvexti og þroska.

Ég fæ aldrei fullþakkað það veganesti sem ég fékk hjá Maju og Teiti þau sumur sem ég dvaldi þar og í reynd miklu miklu lengur.

Hjá mér var vakinn áhugi á landinu og kennt að virða það og líf þess. Mér var kennt til verka. Og ekkert skólakerfi hefði getað komið í stað þeirrar kennslu sem ég fékk í íslensku máli. Ég, sem kom frá sjávarþorpi, lærði tungumál sveitarinnar. Þá var umhverfið ekki síður til að vekja áhuga á menningu og sögu.

Þarna var mikið unnið og þess á milli voru málin rædd enda ekki nein truflun af tækjum nútímans. Engir farsímar eða slíkt, aðeins facebook þess tíma, sveitasíminn, þar sem hægt var að fylgjast með gangi mála í dalnum; tvær langar tvær stuttar.

Öll sumur í Tungu eru sólbjört í minningunni; Teitur að slá með Rauð og Bleik fyrir sláttuvélinni og Maja á fullu í öllum útiverkum eða að baka lummur og matreiða annað góðgæti. Þarna urðu til yndislegar minningar fyrir lífstíð sem enn vekja góðar tilfinningar.

Þegar ég nú rýni í gegnum illa skrifaðar dagbækur frá þessum sumrum rifjast hvert atvikið upp af öðru og mér verður enn frekar ljóst hve mikil áhrif Maju og Teits voru í að móta mig og viðhorf mitt til lífsins. Maja fylgdist svo vel með manni alla ævi. Það var gott að finna það á lífsleiðinni og kort, bréf og símtöl að norðan yljuðu oft.

Í hvert sinn sem ég fer um Víðidalinn á norður- eða suðurleið þá hlýnar mér um hjartarætur og minningarnar hellast yfir mig. Maja og Teitur eru þar yfir og allt um kring.

Við Inga kveðjum Maju með sárum söknuði um leið og við felum hana Guði og þökkum fyrir þau forréttindi að fá að kynnast henni og þiggja af henni veganesti til lífsins sem vel hefur dugað.

Kæru ástvinir Maju, megi Guð gefa ykkur styrk á þessari kveðjustund og minningin veri ykkur ljós til framtíðar.

Guð blessi minningu Maju í Tungu.

Magnús Oddsson.

Þá hefur Maja kvatt og haldið yfir í Sumarlandið til Teits.

Okkar kynni ná langt aftur. Árið 1958, rétt að verða sjö ára var ég send í sumardvöl til þeirra hjóna Maju og Teits. Eldri bróðir minn hafði verið þar sumarið á undan og var á leiðinni aftur en nú fylgdi litla systir með. Ég man hve ég var spennt að hitta nýju húsbændurna, rútan stoppaði við afleggjarann að Víðidalstungu og þar beið Maja eftir okkur á grænum Dodge Vípon-pallbíl.

Augun stækkuðu við þessa sjón, vá þessi kona var töffari.

Síðustu daga hafa minningar frá okkar kynnum farið í gegnum huga minn og ekki hægt að gera þeim öllum skil í stuttri minningargrein.

Á þessum árum var ekki komið rafmagn og þau hjón nýflutt úr torfbæ í nýtt steinhús sem þau byggðu.

Kýrnar voru handmjólkaðar og ekki komu mjaltavélar fyrr en síðasta sumarið sem ég var kaupakona.

Ekki veit ég nákvæmlega hvað henni fannst um nýju kaupakonuna en ég átti eftir að fara þessa leið næstu níu vorin. Maja var dugnaðarforkur og tók þátt í öllum búverkum, myndarleg húsmóðir sem elskaði að prófa nýjar uppskriftir, enda snillingur í mat og bakstri. Hún var hagsýn og dugleg að nýta öll hráefni vel, sem dæmi þá fór hún ríðandi með Ásu vinkonu sinni á Kolugili upp á Arnarvatnsheiði á vorin til að leggja net og veiða silung. Þær komu til baka með strigapoka fulla af afla og var silungur nýttur í öll mál, soðinn nýr, í bollur og saltaður. Á þessum árum var hvorki ísskápur né frystir í Víðidalstungu.

Mikið var að gera í kringum göngur og réttir þar sem sá siður var hjá Maju að taka á móti gangnamönnum er þeir komu niður með safnið og réttað var í gömlu réttinni á melunum út við Kerið.

Þau hjón voru vinmörg og stórar fjölskyldur hjá þeim báðum og því var alltaf mikill gestagangur, alltaf voru allir velkomnir, hvort sem var í kaffisopa eða lengri dvöl, alltaf var pláss við borðið.

Maja og Teitur voru mjög samstiga í búskapnum og ráku myndarlegt bú. Bæði ákveðin en virtu skoðanir hvort annars. Það var mikill missir fyrir hana þegar Teitur féll frá eftir stutt en erfið veikindi 1996.

Það urðu fastir liðir í sumarfríi minnar fjölskyldu að fara norður í Tungu og mörg haust mættum við hjónin í réttir líka. Maja mátti ekki heyra á það minnst að við kæmum ekki en við vorum jú orðin fimm manna fjölskylda og viku stopp var lágmark að mati Maju. Það var margt brallað og tókum við þátt í því sem verið var að vinna hverju sinni. Áttum við tvær oft gæðastundir seinni árin og vöktum saman í bjartri sumarnóttinni og ræddum heimsmálin, gjarnan með drykk við hönd.

Alla tíð hefur Maja reynst mér og minni fjölskyldu vel, tvö af mínum börnum fóru til þeirra hjóna í sveit en ekki varð dvölin eins löng og hjá mér, enda breyttir búskaparhættir og meiri vélvæðing.

Við Maja náðum strax mjög vel saman og var oft ansi gaman hjá okkur í heyskapnum. Í þá daga var heyinu ýtt saman og svo sett í sæti og oft myndaðist keppni á milli para við að sæta, alltaf höfðum við tvær samt vinninginn og má örugglega þakka það dugnaði Maju.

Maja hafði mjög gaman af því að ferðast og á seinni árum voru farnar nokkrar ferðir bæði innanlands og til útlanda. Teitur var heimakær og fannst svona flandur algjör óþarfi.

Alla tíð taldi Maja mig með eins og eina af fjölskyldunni og hafa Eggert og Ásta haldið því áfram. Síðasta samvera okkar var 20. júlí 2023 en þann dag hefði Teitur orðið 100 ára. Þrátt fyrir háan aldur og gleymsku þekkti hún alltaf allt sitt fólk og var allaf glöð og skemmtileg.

Innilegar samúðarkveður til Eggerts, Ástu, Guðmundar, Völlu og fjölskyldna þeirra.

Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir vináttu elsku Maju í 68 ár, minning þín lifir.

Þórunn Drífa
Oddsdóttir.