Myndbirting Stúlkan festi sig á milli steinveggja í skúlptúrnum Stuðlum.
Myndbirting Stúlkan festi sig á milli steinveggja í skúlptúrnum Stuðlum. — Ljósmynd/Slökkviliðið
„Þegar þessi mynd er birt þá er það bara í góðri trú og hugsað sem svona víti til varnaðar,“ segir Guðný E. Ingadóttir, mannauðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgasvæðisins, í samtali við Morgunblaðið um myndina sem þau birtu í síðustu viku

María Hjörvar

mariahjorvar@mbl.is

„Þegar þessi mynd er birt þá er það bara í góðri trú og hugsað sem svona víti til varnaðar,“ segir Guðný E. Ingadóttir, mannauðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgasvæðisins, í samtali við Morgunblaðið um myndina sem þau birtu í síðustu viku.

Slökkviliðið birti þá mynd á facebook-síðu sinni af stúlku undir lögaldri sem fest hafði á milli tveggja steinveggja í skúlptúr við Háskólabíó.

Á myndinni sést ekki í andlit stúlkunnar en myndbirtingin hefur verið gagnrýnd af almenningi á samfélagsmiðlum.

Hægt að rekja án andlits

Guðný segir að þau séu að skoða málið og að slökkviliðið passi alltaf upp á persónuvernd. „Við leggjum okkur fram við að birta ekki myndir sem gætu einmitt verið viðkvæmar fyrir fólk á vettvangi.“

Guðný segir þau hafa fengið eina kvörtun um myndina ásamt athugasemdum á facebook-síðunni en þeim hafi hvorki borist kvörtun frá stúlkunni sjálfri né einhverjum nákomnum henni svo hún viti til.

„Þeir sem leita til viðbragsaðila á Íslandi búast við því að geta treyst þeim og viðbragðsaðilar þurfa að fara mjög varlega með myndbirtingar í slíkum aðstæðum,“ segir Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar í samtali við Morgunblaðið um atvikið.

Fara þarf varlega

Þó að ekki sjáist í andlit stúlkunnar á myndinni segir Helga að samt sem áður sé vel hægt að rekja mál til ákveðins einstaklings.

Hún segir einnig að persónuvernd barna njóti sérstakrar verndar og að það eigi að fara mjög varlega með myndbirtingu þegar um börn sé að ræða.