Valdimar Þór Ingimundarson, sóknarmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings, var besti leikmaðurinn í tíundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.
Valdimar lék mjög vel með Víkingum gegn Val í stórleik umferðarinnar á Hlíðarenda síðasta þriðjudagskvöld, skoraði bæði mörk liðsins í dramatískum jafnteflisleik, 2:2, og fékk tvö M fyrir frammistöðu sína hjá Morgunblaðinu.
Valdimar er 25 ára gamall, uppalinn Fylkismaður og lék með Árbæjarliðinu til sumarsins 2020. Hann hafði þá skorað 17 mörk í 53 leikjum í efstu deild og þrjú mörk í 18 leikjum í 1. deild.
Hann fór þá til Strömsgodset í Noregi og lék þar í hálft annað ár, spilaði 26 úrvalsdeildarleiki og skoraði tvö mörk.
Þaðan fór Valdimar til Sogndal og lék í B-deildinni 2022 og 2023 þar sem hann skoraði 14 mörk í 56 deildarleikjum.
Valdimar gekk síðan til liðs við Víking í vetur og mörkin tvö voru hans fyrstu fyrir liðið í Bestu deildinni en hann hefur leikið tíu af ellefu leikjum meistaranna.
Valdimar hefur leikið tvo A-landsleiki og hann lék 11 leiki með 21-árs landsliðinu. Hann er einn af átta nýliðum í úrvalsliði 10. umferðar hjá Morgunblaðinu en aðeins þrír í liðinu hafa verið valdir áður á tímabilinu. Óli Valur Ómarsson er í liðinu í fjórða sinn.