Æfing Krakkarnir fá góða leiðsögn í fótbolta í Mosfellsbæ.
Æfing Krakkarnir fá góða leiðsögn í fótbolta í Mosfellsbæ.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellsbæ byrjaði í lok maí sl. með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ fyrir iðkendur með sérþarfir og lofar tilraunin góðu, að sögn Árna Braga Eyjólfssonar íþróttafulltrúa

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellsbæ byrjaði í lok maí sl. með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ fyrir iðkendur með sérþarfir og lofar tilraunin góðu, að sögn Árna Braga Eyjólfssonar íþróttafulltrúa. „Verkefnið er í raun fyrir alla sem eru með fötlun, hömlun eða röskun af einhverju tagi og vilja koma og spila fótbolta og fylgja æfingum þjálfara.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, sem er fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og lék 102 A-landsleiki, flutti heim í ársbyrjun 2023 og var þá ráðin yfirþjálfari í knattspyrnu hjá Íþróttafélaginu Ösp, sem starfar í þeim tilgangi að efla hreyfingu og íþróttaiðkun hjá fólki með sérþarfir. Hún færði starfið inn í Ungmennafélagið Stjörnuna í Garðabæ undir merkinu Stjarnan/Ösp og hefur það gengið mjög vel, eins og fram kom hér í Morgunblaðinu í fyrradag.

Tony Presley, yfirþjálfari Aftureldingar og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna, vann sem sjálfboðaliði hjá Gunnhildi Yrsu og kynnti verkefnið í Aftureldingu. „Tony sá tækifæri til að byrja með sambærilegt verkefni í Mosfellsbæ og lét verkin tala,“ segir Árni Bragi.

Æfingar opnar öllum

Tilraunaverkefnið stendur yfir í átta vikur. Æft er einu sinni í viku, klukkan 11.00 til 12.00 á sunnudagsmorgnum. Tony er verkefnisstjóri og stjórnar æfingunum en Árni Bragi heldur utan um það sem viðkemur öðru skipulagi. Verkefnið hefur farið rólega af stað en það lofar góðu. „Það hefur verið fámennt en góðmennt á æfingunum og við höfum fundið fyrir gríðarlegri gleði, jafnt á meðal iðkenda sem forráðamanna þeirra,“ segir Árni Bragi. Hann hvetur áhugasama til að hafa samband og leggur áherslu á að æfingarnar séu ekki eingöngu fyrir félagsmenn Aftureldingar eða íbúa í Mosfellsbæ heldur séu líka allir velkomnir úr öðrum sveitarfélögum. „Þetta hefur spurst fljótt út og við vonum að iðkendum haldi áfram að fjölga.“

Árni Bragi segir að forráðamenn barnanna séu mjög þakklátir fyrir framtakið. „Þeir hafa sjálfir vakið athygli á því að það vanti aðstoð til að koma þessum krökkum í íþróttir og mikilvægt sé að einhvers konar röskun komi ekki í veg fyrir það.“

Í Aftureldingu eru 11 deildir með samtals tæplega 2.300 iðkendur. „Við erum með eitt fjölmennasta ungmennastarf landsins,“ segir Árni Bragi, sem er uppalinn Mosfellingur, lykilmaður í meistaraflokki karla í handbolta og var kjörinn Íþróttamaður Aftureldingar 2016. Hann lék með KA veturinn 2020/2021, var þá markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar og valinn besti leikmaður hennar. Hann fékk háttvísiverðlaun HSÍ á lokahófi úrvalsdeildanna í liðinni viku.

Afturelding sér um umrætt verkefni með stuðningi frá Mosfellsbæ. Gangi allt að óskum er stefnt að því að það verði sérstakur liður í starfsemi knattspyrnudeildar félagsins. Árni Bragi sér fyrir sér að þegar fram í sæki verði Afturelding með lið í þessum flokki og keppi við samsvarandi lið í öðrum félögum. „Þetta er mjög spennandi.“