Klefarnir Svefnklefarnir nýta rýmið til fullnustu. Á þeim eru gluggar. Gisting sem þessi hefur rutt sér til rúms erlendis.
Klefarnir Svefnklefarnir nýta rýmið til fullnustu. Á þeim eru gluggar. Gisting sem þessi hefur rutt sér til rúms erlendis. — Ljósmynd/City Hub
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Pálmar Harðarson framkvæmdastjóri Þingvangs segir samsetningu lokrekkja/svefnrýma á Hverfisgötu 46 vera á lokastigi.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Pálmar Harðarson framkvæmdastjóri Þingvangs segir samsetningu lokrekkja/svefnrýma á Hverfisgötu 46 vera á lokastigi.

„Hefðbundinn frágangur innanhúss eins og flísalögn votrýma og málun innveggja er hafinn. Einnig mun frágangur utandyra klárast í ágústmánuði,“ segir Pálmar.

Verktakafyrirtækið Þingvangur hefur sem kunnugt er samið við hótelkeðjuna City Hub um útleigu á Hverfisgötu 46 til gistireksturs. Þingvangur á húseignina og er verið að innrétta þar gististað fyrir allt að 188 gesti.

Pálmar segir verklok áformuð í lok ágústmánaðar eða í byrjun september. City Hub áætli að hefja starfsemi seinni hluta septembermánaðar en hafi ekki gefið út opinberlega hvenær hægt verður að bóka gistingu.

Langur aðdragandi

Fram kom í samtali Morgunblaðsins við Pálmar vorið 2023 að verkefnið ætti sér langan aðdraganda. Viðræður hafi hafist fyrir fjórum árum en vegna farsóttarinnar hafi verkefnið verið sett á ís. Verkefnið væri fjármagnað af Landsbankanum.

Þingvangur byggði 70 íbúðir á Hverfisgötu 40-44 og í bakhúsum á Laugavegi 27 a og b. Nýr gististaður City Hub verður framhald af þeirri uppbyggingu og hefur húsið allt verið endurnýjað, að innan sem utan.

Gististaðurinn verður með 94 svefnklefum sem rúma munu tvo gesti hver. Alls mun hann því rúma 188 gesti.

Gestirnir deila baðherbergjum og sturtuaðstöðu en á jarðhæð verður hægt að kaupa drykki og snarl og verður sá hluti öllum opinn. Ekki verður boðið upp á morgunmat og er gengið út frá að gestir kaupi máltíðir í nágrenninu, enda sé gist í hjarta miðborgar.

Fram kom í samtali við Pálmar í fyrravor að ekki verði eiginleg móttaka á City Hub á Hverfisgötu heldur muni gestgjafi (e. host) leiðbeina gestum og aðstoða við skipulagningu á ferðum um Ísland. Hugmyndin sé að ýta undir félagslíf og sameiginlegar ferðir. Til dæmis við útleigu á bílaleigubílum. Þá verði næturvörður á City Hub á Hverfisgötunni.