„Stærstu mótsdagarnir eru laugardagur og sunnudagur og þá verður riðið til B- og A-úrslita í hringvallagreinum og svo verðlaunaafhendingar í flokkum kynbótahrossa.“
„Stærstu mótsdagarnir eru laugardagur og sunnudagur og þá verður riðið til B- og A-úrslita í hringvallagreinum og svo verðlaunaafhendingar í flokkum kynbótahrossa.“ — Ljósmynd/Hank Peterse
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
A-flokkurinn hefur oft verið nefndur einn af hápunktunum enda er hann síðastur í dagskrá og er hefð fyrir því.

Hilda Karen Garðarsdóttir hefur haft í mörgu að snúast undanfarnar vikur við að undirbúa fyrirhugað landsmót. Hilda er mótsstjóri Landsmóts hestamanna árið 2024 sem verður haldið í fjórða skiptið á félagssvæði Fáks frá árinu 2000.

Hún hefur verið á ferð og flugi um svæðið enda í mörg horn að líta. Búist er við að 500 knapar hið minnsta keppi á mótinu og hrossin verði hátt í þúsund. Hún segir að heilt yfir hafi undirbúningur fyrir mótið gengið nokkuð vel enda valinn maður í hverju rúmi.

„Við erum þéttur hópur sem flest höfum gert þetta áður og það ætti ekki að vera margt sem kemur á óvart í undirbúningnum en það er að mörgu að huga og það eru ótrúlega margir vinklar sem við þurfum að hugsa um,“ segir Hilda.

Svæði á heimsmælikvarða

Hestamannafélagið Sprettur fékk að halda mótið og hafði ætlað sér að halda það á félagssvæði sínu í Kópavogi. En þegar nær dró þurfti að breyta þeim áformum og viðræður um samstarf við nágrannafélagið Fák hófust. Síðasta haust var komist að þeirri niðurstöðu að halda mótið á félagssvæði Fáks.

„Svæðið í Víðidal er á heimsmælikvarða. Hér var haldið mót árið 2000, aftur árið 2012 og þá var farið í miklar og góðar framkvæmdir. Árið 2018 kom landsmót aftur í Víðidalinn og þá var bætt við þá innviði sem þurfti að bæta við. Kröfurnar verða sífellt meiri og meiri.

Upplýsingaflæði er stór og mikilvægur þáttur í okkar mótahaldi þannig að netsamband og rafmagn þarf að vera í miklum gæðum og á réttum stöðum. Við erum mjög vel í stakk búin að taka á móti þessu verkefni sem við fengum í hendurnar síðasta haust.“

Engar stórar framkvæmdir hafa verið gerðar á félagssvæðinu vegna mótsins nema fara yfir þá innviði sem eru til staðar og júnímánuður er nýttur til að fegra svæðið.

„Nýjar framkvæmdir eru í lágmarki en búið er að fara yfir efni í keppnisvöllum og sýningarbrautum og sömuleiðis hafa vellir verið heflaðir og mældir út eins og lög gera ráð fyrir. Við sjálf gerum kröfur til okkar og svæðisins og metnaður okkar er mikill og við viljum hafa allt upp á tíu.“

Allt á sama stað

Skiptar skoðanir eru meðal hestamanna á því hvar halda skuli landsmót en Hilda telur knapa og aðstandendur þeirra ánægða með að halda það í Víðidalnum.

„Mótssvæðin sem landsmótin hafa verið haldin á hafa öll sinn sjarma. Ég veit að knöpum finnst Fákssvæðið vel til þess fallið að bera uppi svona viðburð. Hér í Fáki og einnig í Spretti eru næg hesthúsapláss fyrir öll hrossin, þau eru á sínum stað og ekki þarf að eyða miklum tíma í að keyra fram og til baka af mótsstað. Það gefur keppendum tíma til að fylgjast með mótinu. Þetta er þægilegt í framkvæmd fyrir knapa og aðstandendur. Það var mjög góð stemning hérna á svæðinu á síðasta landsmóti. Fólk var að hittast og grilla uppi í hesthúsi en hér er stutt í allt, hér er veitingasvæði og meira að segja Bónus-verslun og það var því allt í göngufæri fyrir fólk.“

Knapar vænta þess að leigja eða fá lánuð hesthús frá vinum og vandamönnum annaðhvort í Fáki eða Spretti en einnig hafa félagsmenn beggja félaga boðið fram hesthús sín meðan á mótinu stendur.

Hefðbundið skipulag

Landsmótsgestir mega búast við fáum breytingum frá síðasta landsmóti á Hellu 2022 þegar íþróttakeppni var bætt inn í mótadagskrá.

„Dagskráin verður mjög hefðbundin, landsmótin snúast um gæðingakeppnina og kynbótahrossin. Íslenski gæðingurinn fær að njóta sín, það er A-flokkur fyrir alhliða hestinn og B-flokkur fyrir klárhestinn og svo eru það yngri flokkarnir; barna-, unglinga- og ungmennaflokkur. Íþróttakeppnin verður líka á sínum stað; tölt, fimmgangur, fjórgangur, slaktaumatölt og gæðingaskeið. Töltið hefur alltaf verið hluti af landsmótinu eins og kappreiðaskeiðið.“

Fyrstu mótsdagana er ákveðin úrvinnsla í gangi en þá eru forkeppnir í gæðinga- og íþróttagreinum og fordómar kynbótahrossa. Þegar líður á vikuna fara svo fram milliriðlar í gæðingakeppninni, skeiðgreinar og yfirlitssýningar kynbótahrossa.

„Stærstu mótsdagarnir eru laugardagur og sunnudagur og þá verður riðið til B- og A-úrslita í hringvallagreinum og svo verðlaunaafhendingar í flokkum kynbótahrossa. Frekar hefðbundið allt saman. Það er þétt dagskráin á þessum mótum en við finnum áhuga, bæði knapa og gesta, að bæta íþróttagreinunum við og við teljum þetta einfaldlega mótinu og hestaíþróttinni til framdráttar.“

Hápunktar á sunnudeginum

Setningarathöfnin fer fram á fimmtudagskvöldinu en þá er hópreið félaga úr hestamannafélögum um allt land sem telur um 100 prúðbúna knapa á öllum aldri. Vænta má góðra gesta til að kynda undir stemingunni og mótið verður sett formlega.

„Þetta er helgin þar sem allir eru að reyna að toppa. Það er þarna sem við fáum að sjá það besta á laugardegi og sunnudegi. Það verða veitt verðlaun í flokki kynbótahrossa, reiðmennskuverðlaun verða veitt og svo er riðið til úrslita í öllum hringavallagreinum. A-flokkurinn hefur oft verið nefndur einn af hápunktum mótsins enda er hann síðastur á dagskrá og sterk hefð er fyrir því að ljúka mótinu á honum.“

Stefnir í frábært mót

„Forsalan hefur verið góð og það er frekar hefðbundin sala fyrir þennan viðburð. Fyrir svona útiviðburð er alltaf hluti gesta sem bíða fram að móti til að sjá hvernig veðrið verður og hagar sinni viðveru eftir því. Aðrir eru grjótharðir og löngu búnir að kaupa miða og gera ferðaplön. Við erum að sjálfsögðu búin að panta brakandi blíðu og vonum að það gangi eftir.“

Hilda finnur fyrir mikilli spennu fyrir mótinu. Hún segir að félagsmenn Fáks og Spretts séu gestrisnir og áhugasamir að taka hátíðlega á móti gestum.

„Við erum á fullu í undirbúningi og leggjum áherslu á gott viðmót og vel skipulagt mót hér í júlí. Landsmótið snýst ekki bara um góð hross heldur er það mannamót og hestamenn koma saman til að hitta vini sína hvaðanæva af landinu og einnig frá útlöndum. Það verður því góð stemning innan og utan vallar, á tjaldsvæðunum og í brekkunni og eins hjá sjálfboðaliðum og starfsfólki.“

Beint streymi hjá Alendis

Hægt verður að fylgjast með öllu mótinu á streymisveitunni Alendis sem ætti að vera kunnug öllum hestamönnum. „Við erum farin að þekkja það vel og orðin háð því að fletta upp í Alendis og horfa á hesta og það verður frábært fyrir þá sem eiga ekki heimangengt.“

Þar að auki mun RÚV sýna frá mótinu allan sunnudaginn, eða úrslitadaginn, og er áhugi hjá RÚV að vera með samantektarþætti öll kvöld vikunnar.