Grunnlaun á vinnumarkaðinum hækkuðu að jafnaði um 11,1% í síðustu kjarasamningalotu frá nóv. 2022 til janúar 2024. Kaupmáttur grunntímakaups jókst á þessum tíma um 2,6%. Að meðaltali voru heildarlaun allra fullvinnandi á vinnumarkaðinum 935 þúsund kr. á mánuði á seinasta ári en mismunandi eftir samtökum og mörkuðum.
„Meðallaun voru hæst hjá ríkinu hvort sem litið er til grunnlauna, reglulegra launa eða heildarlauna en launadreifing er meiri á almenna markaðnum en hjá hinu opinbera,“ segir í vorskýrslu kjaratölfræðinefndar aðila vinnumarkaðarins, sem kynnt var í gær.
Farið er mjög ítarlega yfir launaþróun og samsetningu launa í skýrslunni. Hrafnhildur Arnkelsdóttir formaður kjaratölfræðinefndar benti á í umfjöllun um heildarlaunadreifinguna, og hvort hægt væri að draga þá ályktun að ríkið greiddi hæstu launin, að enn eru hæstu laun á Íslandi greidd á almennum vinnumarkaði. Meðaltölin segja ekki alla söguna, hóparnir eru misstórir, hafa mismikið vægi í niðurstöðum og ólík samsetning starfa hefur áhrif á launastig.
Heildarlaun voru að jafnaði 953 þús. kr. á almenna markaðinum, 1.025 þús hjá ríkinu, 792 þúsund hjá Reykjavíkurborg og 788 þús. hjá öðrum sveitarfélögum. Vægi grunnlauna í heildarlaunum var mest í fyrra hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur, 84%, en minnst hjá ríkinu, 75%.
Fram kemur í samanburði milli landa að í fyrra var launakostnaður á unna stund hæstur á Íslandi af Norðurlöndunum, mældur í samræmdum gjaldmiðli. omfr@mbl.is