Magnús Harðarson
Magnús Harðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðskipti með félög sem eru tvískráð í kauphöll, þ.e. bæði á Íslandi og í útlöndum, eru almennt meiri hér heima en í útlensku kauphöllinni. „Með fáeinum undantekningum má segja að við séum með meirihluta viðskiptanna, og stundum miklu…

Viðskipti með félög sem eru tvískráð í kauphöll, þ.e. bæði á Íslandi og í útlöndum, eru almennt meiri hér heima en í útlensku kauphöllinni. „Með fáeinum undantekningum má segja að við séum með meirihluta viðskiptanna, og stundum miklu meiri,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri íslensku kauphallarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

Af þeim þrjátíu og þremur fyrirtækjum sem skráð eru í íslensku kauphöllina eru sjö einnig skráð erlendis. Eitt félaganna er meira að segja þrískráð; málmleitarfyrirtækið Amaroq sem er skráð á Íslandi, í Lundúnum í Englandi og í Toronto í Kanada.

Hin félögin sex eru Arion banki, skráður í Stokkhólmi og Íslandi, Kaldvík skráð í Osló og Íslandi, Oculis í New York og á Íslandi, Arnarlax í Osló og Íslandi, Alvotech í Lundúnum og Íslandi og Marel í Amsterdam og Íslandi.

Magnús segir að með tvískráningu séu félögin að fá aukinn seljanleika.

„Það ánægjulegasta af öllu er að þetta er raunverulega aukinn seljanleiki. Viðskiptin úti eru ekki að minnka út af viðskiptunum hér.“

Lengi skráð úti

Magnús tekur Amaroq sem dæmi. Það hafi lengi verið skráð úti áður en það kom til Íslands. „Amaroq byrjaði í Kanada, færði sig svo til Lundúna og þrískráði sig svo á Íslandi. Ef maður lítur yfir viðskiptin með fyrirtækið frá upphafi og skoðar tímapunktinn þar sem viðskipti á Íslandi hefjast má sjá að það er hrein viðbót. Það er því gleðilegt að íslenski markaðurinn er að þjónusta fyrirtækin bæði með fjármögnun og seljanleika. Að öllu jöfnu ætti hvort tveggja að auka virði félaganna.“

Spurður hvort þetta þýði að hægt sé að mæla með tvískráningu játar Magnús því. „Já svo framarlega sem félögin hafa tengingu við Ísland. Öll félögin á markaði hér hafa slíka tengingu með einum eða öðrum hætti. Sum, eins og Amaroq er dæmi um, hafa starfsemi erlendis, en þá er sterk tenging í gegnum forstjórann og hluthafana.“

Nánar um ástæðu tvískráningar segir Magnús að íslensk fyrirtæki sem þetta gera séu gjarnan vaxtarfyrirtæki með sína aðalmarkaði erlendis. Þau leiti í erlendar kauphallir til að fá aðgang að sérhæfðum fjárfestum. „Það er samt mikilvægt fyrir þessi félög, til að fá fullan ávinning af kauphallarskráningu, að líta ekki fram hjá íslenska markaðnum. Þannig fá þau það besta úr báðum heimum ef svo má segja. Sagan sýnir hvað eftir að annað fram á gagnsemi tvískráningarinnar.“

Sérhæfðir líftæknifjárfestar

Annað dæmi um gildi tvískráningar sé líftæknifyrirtækið Alvotech. „Það skráir sig á Nasdaq í New York í fyrsta flokks líftæknikauphöll. Þar nær það athygli sérhæfðra líftæknifjárfesta. En á móti er ekki eins auðvelt að ná þar athygli almennings, lífeyrissjóða og verðbréfasjóða. Til þess þurfa þau að vera mjög stór og vel þekkt.“

Á Íslandi hins vegar eru þessi félög vel þekkt með tengingu við íslenskt efnahagslíf. „Það spilar með þeim hér heima. Svo er ánægjulegt að þetta virkar ekki bara í fræðunum heldur í verki líka. Alvotech hefur náð að fjármagna sig myndarlega hér heima og sótt sér fé erlendis líka.“

Aðspurður segir Magnús að ekkert erlent félag ótengt Íslandi sé skráð hér á landi. Eitt íslenskt félag sé aftur á móti skráð erlendis en ekki hér, stoðtækjafyrirtækið Össur. Það er skráð á Nasdaq í Kaupmannahöfn í Danmörku.

Magnús þvertekur ekki fyrir þann möguleika að erlent félag með enga tengingu við land og þjóð skrái sig í íslensku kauphöllina. Fyrirtæki sem markaðssetja þjónustu sína á norðurskautssvæðinu gætu átt heima hér í kauphöll að hans mati. Þá sér hann fyrir sér að erlend sjávarútvegsfyrirtæki gætu notið góðs af íslenskri skráningu enda er mikill fjöldi áhugasamra sjávarútvegsfjárfesta á Íslandi.

Ekki sjálfgefið

Magnús segir að lokum að ekki sé sjálfgefið að auðvelt sé að tvískrá fyrirtæki á markað. „Ég veit að kollegum okkar í Eystrasaltsríkjunum hefur þótt þetta ganga mjög vel hjá okkur. Við sjálf höfum líka verið mjög ánægð með framkvæmdina. Þá er mjög mikilvægt hvað Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur getað þjónustað þessi fyrirtæki vel. Bréf flæða til dæmis mjög auðveldlega á milli markaða,“ segir Magnús að endingu.

Tvískráningar

Sjö fyrirtæki

Málmleitarfyrirtækið Amaroq, tæknifyrirtækið Marel, líftæknifyrirtækið Alvotech, fiskeldisfyrirtækið Kaldvík, Arion banki, fiskeldisfyrirtækið Arnarlax og líftæknifyrirtækið Oculus.

Öll félögin í íslensku kauphöllinni með tengingu við íslenska markaðinn.

Eitt íslenskt félag skráð í útlöndum en ekki á Íslandi.