Sigríður Helga Sverrisdóttir
sigridurh@mbl.is
Vantrauststillögum á ríkisstjórn og einstaka ráðherra hefur farið fjölgandi síðustu ár. Frá 1944 hafa samtals verið lagðar fram 24 þingsályktunartillögur um vantraust á ríkisstjórn og samtals átta sinnum lögð fram vantrauststillaga á hendur einstaka ráðherrum.
Af þeim hefur vantraust á ríkisstjórn aðeins í eitt skipti verið samþykkt á Alþingi, en það var árið 1950 í ríkisstjórn Ólafs Thors. Einnig var lögð fram tillaga um vantraust á ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar árið 1974, en Ólafur rauf þing áður en tillagan kom til umræðu.
Það sem af er þessu ári hafa samtals fjórar þingsályktunartillögur um vantraust verið lagðar fram á Alþingi; tvær þeirra voru afturkallaðar og tvær felldar.
„Þessi vantraust eru augljóslega ekki borin fram vegna þess að stjórnarandstaðan heldur að þau verði samþykkt heldur er þetta fyrst og fremst svona táknræn aðgerð og kannski líka til að koma því aðeins í umræðuna að þeir séu ekki ánægðir með ríkisstjórnina. En pólitískt séð þá skiptir þetta afar litlu máli,“ segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor í samtali við Morgunblaðið, en bætir því við að stjórnarandstaðan hefði náttúrulega fullan rétt á að bera þær fram.
Vantrauststillögur á einstaka ráðherra segir Ólafur að séu mjög sjaldgæfar og þegar ráðherrar hafi sagt af sér þá hafi það aldrei verið eftir vantraust en þeir hafi nokkrir, sérstaklega í seinni tíð, sagt af sér eftir að hafa lent í erfiðum málum. „Þessi tilhneiging núna upp á síðkastið, að það komi svona margar vantrauststillögur á einstaka ráðherra, það er alveg nýtt. Það ber bara að líta á það sem taktík stjórnarandstöðunnar.“
Afsagnir einstaka ráðherra voru fáheyrðar á 20. öldinni. Þótt þær séu ekki algengar núna og ekki eins algengar og í mörgum nágrannalöndunum, hefur þeim augljóslega fjölgað verulega á þessari öld. Ólafur telur þetta vera dæmi um meiri óróleika á þessari öld heldur en þeirri síðustu. Þá má vera að fleiri vantrauststillögur á einstaka ráðherra tengist þessu. „Þegar það er komið fordæmi fyrir því að ráðherrar séu að segja af sér við og við, verður þetta eðlilegra í okkar pólitíska kúltur,“ sagði Ólafur enn fremur.