Tenging Í verkinu Dúettar dansa fatlaðir og ófatlaðir einstaklingar saman.
Tenging Í verkinu Dúettar dansa fatlaðir og ófatlaðir einstaklingar saman. — Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið – Listahátíð í Reykjavík Dúettar ★★★★· Höfundur: Ásrún Magnúsdóttir. Hönnuður: Guðný Hrund Sigurðardóttir. Hljóð: Baldvin Þór Magnússon. Ljósahönnuður: Pálmi Jónsson. Dansarar: Arngunnur Hinriksdóttir, Garðar Hinriksson, Helga Rakel Rafnsdóttir, Viktoría Blöndal, Juulius Vaiksoo, Ólafur Snævar Aðalsteinsson, Atli Már Indriðason, Ragna Sigríður Ragnarsdóttir, Bára Halldórsdóttir, Friðrik Agni Árnason, Þorbera Fjölnisdóttir, Hrafnkell Karlsson, Sigurður Valur Sigurðsson og Rósa Ragnarsdóttir. Sýnt 9. júní.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Ásrún hefur einstakt lag á að láta fólk skína á sviði og það er sama hver er. Með hlýju, örlæti og virðingu fyrir þeim sem hún vinnur með hverju sinni nær hún að skapa traust og rými fyrir hvern og einn að gefa allt í verkefnið sem verið er að vinna að. Stundum held ég að hún gæti látið dauða dansa. Í pallborðsumræðum innan Klúbbs Listahátíðar undir yfirskriftinni Hér & nú: Danssenan talaði hún um að eitt af meginmarkmiðum hennar með danssköpun væri að hleypa fleirum á svið. Hún vill gefa fleiri og ólíkum hópum rödd og sýnileika og þeim sem sitja í salnum tækifæri til að sjá alla flóru samfélags, ekki aðeins nokkra útvalda.

Í verkinu Dúettar sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu á vegum Listahátíðar 9. júní gaf Ásrún fötluðum sviðið. Sjö pör, annar einstaklingurinn fatlaður og hinn ófatlaður, sem þekktust vel innbyrðis, sköpuðu með aðstoð Ásrúnar dúetta sem síðan voru settir saman í heildrænt dansverk. Uppspretta dansdúettanna var fjölbreytt, allt frá Bach til Eurovision. Útfærsla þeirra var ekki síður fjölbreytt og frumleg.

Styrkleikar hvers og eins flytjanda voru nýttir til hins ýtrasta í sköpuninni sem og þau daglegu hjálpartæki sem sumir flytjendanna nota en þrír þeirra eru í hjólastól. Innkoma Helgu Rakelar Rafnsdóttur var t.d. stórfengleg, þvílíkt tryllitæki sem einn hjólastóll getur verið og kúlið á Helgu, eigum við eitthvað að ræða það? Það var samt fyrst og fremst leikgleði og einlægni sem einkenndi sýninguna enda hrifust áhorfendur með frá fyrstu mínútu. Ég man ekki eftir að hafa verið í svona sterkum sal áður.

Litríkir og glansandi búningar, það vantaði ekki glimmerið, ýttu undir kúlið í atriðunum en leikmunir eins og einhyrningsbúningurinn sem hægt var að klæða sig í og samsama sig með gaf leikgleðinni lausan tauminn. Einlægnin var samt kannski það sem gerði sýninguna ólíka öðrum sýningum. Hún kom ekki síst fram í fallegum samskiptum innan dúettanna. Það er fallegt að sjá vangadans á sviði og verða vitni að væntumþykju og virðingu náinna einstaklinga eins og mæðgina, hjóna, systkina og vina.

Það er kúnst að skapa áhugavert dansverk þó unnið sé með vel þjálfuðum dönsurum en það þarf eitthvað extra til að skapa dansverk með óþjálfuðum dönsurum og ég tala nú ekki um þeim sem hafa ekki fulla hreyfifærni. Það er þetta extra sem Ásrún hefur og getur þannig fylgt köllun sinni að opna sviðið fyrir hópum sem venjulega hafa þar ekki sýnileika né rödd. Með hæfni sinni sem danshöfundur og töfrum leikhússins – sviðið snýst, dansarar svífa, búningar glitra og leikmunir öðlast líf – nær hún að láta dansarana skína í þeirra eigin styrk og fegurð.

Flökt er eitt af þessum dansverkum þar sem áhorfendur og dansarar deila rými. Nándin á milli þessara tveggja hópa var óvenju mikil í þetta skiptið því að verkið var sýnt undir tjaldi úr hvítu, léttu og hálfgegnsæju efni, mögulega silki, sem var á stóra sviði Borgarleikhússins. Áhorfendur sátu þar á mottum á gólfinu en dansararnir dönsuðu inn á milli þeirra. Stemningin í rýminu var sköpuð með lýsingu, hljóðheimi og þykkum reyk, til viðbótar efninu sem afmarkaði sviðið. Í upphafi var reykurinn svo mikill að maður sá ekki handa sinna skil, mjög skemmtileg byrjun, hann minnkaði svo smátt og smátt um leið og lýsingin skýrðist. Það var ekki fyrr en fór að rofa til sem dansararnir komu í ljós. Þeir voru þrír, liggjandi á gólfinu, alveg við áhorfendurna. Dansinn fór rólega af stað með litlum og hægum hreyfingum. Hann varð síðan sífellt ákafari og dansararnir hreyfðu sig og skutust um rýmið, stundum hver fyrir sig en líka saman. Tjaldið eða hjúpurinn sem hýsti verkið var líka á sífelldri hreyfingu og virkaði eins og fjórði dansarinn, eitthvað sem kom mjög vel út. Hreyfingar þess voru aðallega upp og niður og stækkuðu um leið og þær minnkuðu rýmið. Nálægð tjaldsins við áhorfendur varð stundum svo mikil að það lagðist nánast og jafnvel alveg yfir þá. Í lokaatriðinu skapaði þessi leikur með tjaldið einstaklega fagurt augnablik en þegar tjaldið lagðist yfir sviðið og alla sem á því voru birtust snæviþaktir fjallstindar fyrir augum áhorfenda.

Dansverkið Flökt upplifðist sem eðlilegt framhald af verkinu Fabulation sem Bára samdi og sýndi ásamt Orfee Schuijt á Reykjavík Dance Festival síðasta haust. Bára er samt eini danshöfundurinn að Flökti þó Orfee sé ein af flytjendum. Sviðsmyndin þar eins og hér var sköpuð sem hreyfanleg umgjörð og þemað virkar keimlíkt. Það er samt aðallega hreyfistíll dansaranna sem tengir verkin saman í huga þess sem hér skrifar. Hreyfingar dansaranna minna í báðum verkunum meira á skordýr á iði, frumur eða eitthvað þvíumlíkt sem skjótast um rýmið, hnoðast hvert í öðrum eða liggja nánast í kyrrstöðu, en manneskjur. Hefðbundnari fagurfræði hreyfinga og líkamans, langar og beinar línur og stórir hreyfiferlar, var hvergi sjáanleg enda dönsuðu dansararnir ekkert í uppréttri stellingu. Þessi hreyfistíll er mjög áhugaverður og naut sín sérstaklega vel í Flökti þar sem nándin við áhorfendur var mikil. Áhorfendur sáu ekki aðeins dansarana heldur fundu fyrir veru þeirra í rýminu. Hugmyndina að Flökti eiga þær saman Bára og myndlistarkonan Tinna Ottesen sem sá um hönnun sviðsins. Það verður að segjast að þetta samstarf gefur hér góðan ávöxt því að sviðshönnun Tinnu er ótrúlega flott og áhrifarík og færir danssköpunina í æðra veldi. Lýsing Jans Fedingers, tónlist Eivinds Lønnings og búningar Andrea Kränzlin styðja síðan áreynslulaust við umgjörðina og dansinn svo úr verður verk sem býður áhorfendum upp á sterka upplifun.