ÍBV styrkti verulega stöðu sína í toppbaráttu 1. deildar karla í fótbolta í gærkvöld með því að sigra Aftureldingu á sannfærandi hátt í Mosfellsbæ, 3:0.
Arnar Breki Gunnarsson, Nökkvi Már Nökkvason og Hermann Þór Ragnarsson skoruðu mörkin og ÍBV er komið í þriðja sætið eftir slæma byrjun á mótinu.
Nýliðar ÍR unnu óvæntan sigur, 3:1, á Fjölni sem þar með tapaði sínum fyrsta leik og náði ekki að velta Njarðvík aftur úr toppsæti deildarinnar. Mörkin komu í seinni hálfleik, Bjarni Þór Hafstein skoraði fyrir Fjölni, Kristján Atli Marteinsson jafnaði og Bragi Karl Bjarkason tryggði sigur ÍR með tveimur mörkum undir lokin.
Kostiantyn Iaroshenko tryggði Þrótti úr Reykjavík óvænt jafntefli í Keflavík, 1:1, með glæsilegu skoti úr aukaspyrnu rétt fyrir leikslok. Ari Steinn Guðmundsson hafði áður komið Keflavík yfir.