Á sviði Leikritið Ferðamaður deyr, úr höfundasmiðju leikfélagsins.
Á sviði Leikritið Ferðamaður deyr, úr höfundasmiðju leikfélagsins. — Ljósmynd/Adam Thor Murtomaa
„Það er þeim í sjálfsvald sett hvað þau vilja styrkja í sínu bæjarfélagi,“ segir Ingveldur Lára Þórðardóttir, varaformaður Leikfélags Hafnarfjarðar, en stjórn leikfélagsins sendi bæjarstjórn og menningarmálanefnd bréf um fyrirhuguð endalok starfsemi þess

Guðrún S. Sæmundsen

gss@mbl.is

„Það er þeim í sjálfsvald sett hvað þau vilja styrkja í sínu bæjarfélagi,“ segir Ingveldur Lára Þórðardóttir, varaformaður Leikfélags Hafnarfjarðar, en stjórn leikfélagsins sendi bæjarstjórn og menningarmálanefnd bréf um fyrirhuguð endalok starfsemi þess. Félagið hyggst bera upp tillöguna á aðalfundi, að öllu óbreyttu.

Starfsemi leikfélagsins, sem er að verða 90 ára, hefur verið kröftug í gegnum tíðina. Húsnæðisskortur hefur þó haft neikvæð áhrif á starfsemina og hefur nú fyllt mælinn hjá stjórn leikfélagsins. Síðustu ár hefur Leikfélag Kópavogs lánað sitt húsnæði undir starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar og höfundasmiðja leikfélagsins, sem er stór hluti starfseminnar, hefur verið haldin í heimahúsi í Hafnarfirði.

Á miðvikudagsmorgun var haldinn fundur hjá menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar. Á þeim fundi kom fram að málið yrði skoðað, sem er í sjálfu sér ekkert nýtt af hálfu bæjarstjórnar, að sögn Ingveldar.

Niðurstaða fundarins var sú að leikfélagið mætti vænta svara á næstu dögum og vonast leikfélagið eftir svörum fyrir aðalfund sem verður haldinn í lok júní.

Ingveldur telur ástæðuna fyrir áhugaleysinu vera að gríðarlegar fjárhæðir eru lagðar í íþróttastarfsemi en einnig að nú þegar sé starfandi atvinnuleikhús. Mögulega finnist bænum það nóg. Ingveldur telur bæinn ekki átta sig á muninum á atvinnu- og áhugaleikhúsi, sem er tómstundastarf. „Við í leikfélaginu köllum þetta lýðheilsustarf.“