Jón Einar Jakobsson fæddist í Wynyard, Saskatchewan í Kanada 16. desember 1937. Hann lést á Landspítalanum 2. júní 2024.

Foreldrar hans voru sr. Jakob Jónsson, dr. theol., f. 1904, d. 1989, og Þóra Einarsdóttir, f. 1901, d. 1994. Hann var yngstur fimm systkina en hin eru Guðrún Sigríður, f. 1929, d. 2018, Svava, f. 1930, d. 2004, Jökull, f. 1933, d. 1978, og Þór Edward, f. 1936.

Jón Einar ólst upp í Reykjavík eftir að fjölskyldan fluttist heim frá Kanada í stríðinu 1940. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1956, var við nám og störf í Þýskalandi, Noregi, Íran og víðar 1959-62 og lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1965. Jón Einar var fulltrúi og aðalfulltrúi bæjarfógetans í Keflavík 1965-67. Stofnaði hann þá eigin lögfræðistofu sem hann rak fyrst í Keflavík en í Reykjavík frá 1971 og á heimili sínu í Garðabæ frá 2007. Hann varð héraðs-
dómslögmaður 1967 og hæstaréttarlögmaður 2008. Hann starfrækti umboðs- og heildverslun í Reykjavík og rak ásamt konu sinni húsgagnaverslunina Bústofn um 18 ára skeið frá 1974 auk þess að stunda viðskipti og lögfræðistörf erlendis, s.s. í Danmörku og Kanada. Ungur annaðist hann ýmsar þýðingar, m.a. á útvarpsleikritum, og tók þátt í sjónleikjum. Helstu áhugamál hans voru bókmenntir, tungumál, fótbolti og sígild tónlist.

Eftirlifandi eiginkona Jóns Einars er Helga Gudrun Jakobsson, f. 15. apríl 1941, dóttir Helge Larsson, vallarvarðar íþróttaleikvangs í Gautaborg, f. 1915, d. 2001, og Elsu Larsson, f. 1916, d. 2002. Börn þeirra eru: 1) Þór, f. 15.8. 1964, sviðsstjóri, blaðamaður og lögfræðingur, í sambúð með Gunni Rós Grettisdóttur kennara, f. 1980, í Kaupmannahöfn, og eiga þau dæturnar Sigurrós Indu, f. 2018, og Guðrúnu Rós, f. 2020, en börn Þórs með fv. eiginkonu, Ragnheiði Traustadóttur, f. 1966, eru Jakob Sindri sérfræðingur, f. 1991, í sambúð með Aldísi Ernu Vilhjálmsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 1990, og eiga þau dæturnar Mareyju Ösp, f. 2016, og Hugrúnu Viðju, f. 2018; Víglundur Jarl nemi, f. 1992, í sambúð með Margréti Björk Grétarsdóttur nema, f. 1998; og Freydís Jara nemi, f. 1999. 2) Bryndís Eva, f. 13.7. 1967, innanhússarkitekt, gift Ólafi Jóhannessyni sölustjóra, f. 1968. Börn hans og stjúpbörn Bryndísar eru Arnar járnsmiður, f. 1987, kvæntur Ingu Lóu Ragnarsdóttur, aðstoðarmanni endurskoðanda, f. 1993, og eiga þau börnin Bríeti Lóu, f. 2018, og Laufeyju Lóu, f. 2021, en úr fyrra sambandi á Arnar Alexander Breka, f. 2008, og Emblu Rán, f. 2011, og Hanna Ósk viðskiptafræðingur, f. 1992, í sambúð með Viðari Andréssyni flugvirkja, f. 1988, og eiga þau Díönu Ólöfu, f. 2018, og Fanneyju Dóru, f. 2021. 3) Gudrun Birgitta, f. 5.4. 1969, í sambúð með Eiríki Víkingssyni, f. 1958. Dóttir Birgittu er Bryndís Unnur, sjálfstæður atvinnurekandi, f. 1988, gift Tim Stjerna, f. 1991, en börn þeirra eru Eva Lóa, f. 2017, og Úlfur Boas, f. 2018. Sonur Eiríks er Víkingur, f. 1988, og dóttir hans er Jóhanna Björk, f. 2008.

Útför Jóns Einars fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 21. júní 2024, klukkan 13.

Tengdafaðir minn, Jón Einar, hafði mikinn áhuga á fótbolta, sér í lagi á enska boltanum. Þar deildum við sorg og gleði sem Manchester United-aðdáendur. Samtöl okkar snerust mikið um boltann og við vorum alls ekki alltaf sammála. Báðir þrjóskir og bökkuðum því aldrei með skoðanir okkar en reyndum heldur aldrei að breyta skoðunum hvor annars. Við höfðum gaman af því að rökræða um leikmenn, þjálfara og leiki.

Jóni var umhugað um sína nánustu og mér þótti sérlega vænt um áhuga hans á börnum mínum en hann spurði ávallt frétta af þeim þegar við hittumst. Hann talaði oft um hve vænt honum þótti um hjálpsemi Arnars, elsta sonar míns, og hafði orð á því oftar en einu sinni hve hlýr hann væri. Hann hafði líka fylgst vel með skólagöngu dóttur minnar Hönnu og dáðst að dugnaði hennar. Fjölskyldan var Jóni mikilvæg.

Jón Einar var mikill áhrifavaldur þegar kom að kaupum fyrsta húss okkar Bryndísar. Við höfðum skoðað fallegt einbýlishús í Hafnarfirði en verðið var utan fjárhagsramma okkar. Tengdapabbi hvatti okkur áfram í kaupum og sagði okkur að þetta væri vel yfirstíganlegt. Hraunbrúnin varð því okkar og þar áttum við mörg yndisleg ár, margar góðar stórfjölskyldustundir yfir einföldum kaffibolla sem og jól, afmæli, brúðkaup, skírn og fermingu. Ég lít svo á að hann eigi stóran part í þeim góða kafla í lífi okkar hjóna sem Hraunbrúnarárin voru.

Þær fáu heimsóknir síðustu ára sem tengdapabbi treysti sér í á núverandi heimili okkar Bryndísar voru okkur kærar.

Ég er þess fullviss að Jón Einar gengur nú orkumikill um græna dali með hundinum sínum Fídó, Vini og öllum öðrum fjórfætlingum sem honum þótti svo vænt um.

Megi kær tengdafaðir hvíla í friði.

Ólafur Hreinn
Jóhannesson.

Við barnabörnin kölluðum afa okkar „afa Jónsson“. Nafnið festist við hann þegar Jakob Sindri ákvað barn að fyrst pabbi væri Jónsson hlyti afi að heita það.

Afi Jónsson hvatti okkur öll áfram í námi og íþróttum og sagði ósjaldan við okkur mens sana in corpore sano; mikilvægt væri að rækta bæði líkama og sál. Hann sýndi menntun okkur mikinn áhuga og fylgdist reglulega með hvernig okkur gekk. Síðasta samtal afa við Víglund Jarl snerist um hvernig honum gengi í flugvirkjanáminu í Danmörku og hann var spenntur að fagna með honum útskrift í júní. Það munaði ekki miklu.

Víglundur Jarl og Freydís Jara bjuggu um skeið á neðri hæðinni í Hegranesi 35. Enski fótboltinn var þá helsta samtalsefni þeirra Víglundar Jarls og afa en liðið þeirra hefur alltaf verið Manchester United. Við Freydísi Jöru ræddi afi um glæpamenn og glæpi sem voru hennar áhugamál. Þau samtöl áttu þátt í að ýta Freydísi Jöru út í nám í afbrotafræði. Afa leist ekki nógu vel á það, vildi ekki að Freydís Jara væri nálægt glæpamönnum, en studdi hana engu að síður með því að gefa henni bækur sem hafa nýst henni í náminu. Hann sýndi heimspekinámi Jakobs Sindra áhuga og ræddi gjarnan ýmis heimspekileg álitamál. Þá var hann iðinn við að ota að honum bókum úr bókahillunum sínum um trúarbrögð, heimspeki og stjórnmál, þannig að Aldísi Ernu, konu Jakobs Sindra, fannst nóg um og bað hann að draga úr bókagjöfunum. Það entist stutt og í síðustu heimsókn til afa í Hegranesið lét hann þrjár bækur fylgja Jakobi Sindra heim; eina um þróun heimsmála, aðra um lífið á dögum Jesú Krists og þriðju um eðlisfræði. Hann átti líka til að hringja í Aldísi Ernu til að benda henni á fróðlega sjónvarpsþætti um atvinnu hennar hjúkrunarfræði, s.s. um Florence Nightingale.

Amma og afi hafa alltaf verið einstaklega góð við dýr og borið mikla virðingu fyrir öllu lífi. Þau héldu bæði hunda og ketti. Lýsandi fyrir viðhorf þeirra er eftirminnileg afmælisveisla föður okkar sem haldin var í Hegranesi í ágústmánuði úti á palli í góða veðrinu. Geitungar höfðu gert sig heimakomna á pallinum og gert sér stærðarinnar bú. Afmælisgestirnir kvörtuðu sáran undan óboðnu gestunum en amma og afi létu þá ekki trufla sig og sögðu að þeir hefðu verið þarna í allt sumar í sátt og samlyndi. Aldrei kom til greina að láta fjarlægja búið.

Alltaf stóðu okkur dyrnar opnar og alltaf gátum við reitt okkur á stuðning afa. Hann lá ekki á skoðun sinni og gat verið hvass en það var alltaf einlægt og af góðum hug. Lungnaveikin rændi hann lífsgæðum hin síðustu ár en þrátt fyrir það elskaði hann lífið.

Við eigum eftir að sakna þess að ræða við afa. Það er undarlegt að hugsa til þess að koma í heimsókn í Hegranes og heilsa ekki upp á afa Jónsson.

Jakob Sindri, Víglundur Jarl og Freydís Jara
Þórsbörn.

Það er eðlilegt hlutskipti manna í ellinni að vera í námunda við hrörnun og dauða. Gamlir vinir, kunningjar og systkini falla frá á nokkurra mánaða fresti svo að nánast verður daglegt brauð. Það er þó sérstök reynsla því að hvert andlát eru endalok samskipta og kynna, stundum náinna kynna um áraraðir. Heimurinn deyr smám saman frá manni.

Jón Einar hafði verið lengi veikur og því ekki óviðbúið að hann þyldi ekki skyndiágjöf hertra veikinda sem sóttu á. En hugur og heili hafði verið heilbrigður sem fyrr og því viðbrigði að sjá á bak honum. Hann var sá sem ég þekkti lengst og best. Eins árs var ég þegar hann kom til sögunnar og í bróðerni fylgdumst við að í æsku og skóla. Þrátt fyrir ólíkar leiðir í námi og störfum síðan heima og erlendis hélst óbrigðul vináttan.

Jón bróðir var söngvarinn í fjölskyldunni, lést vera Benjamino Gigli – eða Benjamín á Gili eins og við kölluðum hann – eða Tito Gobbi eða Mario Lanza sem að vísu var í ónáð fyrir að falla fyrir bandarískri ómenningu í Hollywood. Já, hann söng svo undir tók í húsinu. Bróðir minn var fjölhæfur maður og hugmyndaríkur, léttur í lund, fróður og frásagnarglaður. Á námsárum sínum vann hann sér inn pening með ýmsum hætti, m.a. með því að aka bílaleigubílum milli landa á meginlandinu og írönskum auðkýfingi frá Danmörku heim til hans í Íran. Þar heimsótti hann systur okkar, Guðrúnu Sigríði, og fjölskyldu sem þar bjó um þær mundir.

Tungumál léku honum á vörum og góður íslenskumaður var hann, enda aðdáandi Íslendingasagna. Gagnrýninn var hann á málfar í útvarpi og blöðum. Um tíma ráku þau Gudrun kona hans húsgagnaverslun í Kópavogi og verkefni hans í innflutnings- og útflutningsviðskiptum voru harla margvísleg og ekki alltaf hlaupið að því fyrir utanaðkomandi að henda reiður á þeim. Hann flutti vikur út og kanadískan lax inn, var lögfræðingur flugfélags og gott ef ekki byrjaði hann sjálfur að læra að fljúga. Í lögmannsstarfinu varði hann smákrimmana, ógæfumenn í þjóðfélaginu og velgerðarmaður var hann nokkurra þakklátra ólánsmannanna. Jón Einar bróðir var rausnarlegur og gjafmildur og eru margar glæsilegustu bækurnar í bókasafni okkar Jóhönnu afmælis- og jólagjafir frá þeim Gudrunu.

Síðustu árin átti bróðir minn við veikindi að stríða sem komu í veg fyrir að hann gæti farið um sem fyrr og notið elliáranna sem skyldi með hjartkærri fjölskyldu sinni, Gudrunu, börnum þeirra, Þór, Bryndísi Evu og Birgittu, og fjölskyldum. Þrautseigja og fórn Gudrunar við hjúkrun mannsins síns þessi ár er aðdáunarverð og börn þeirra studdu þau að vonum allan tímann. Ég mun sakna bróður míns en góðar minningar munu ylja mér um hjartarætur árin sem eftir eru. Blessuð sé minning Jóns Einars.

Þór Jakobsson.

Við Jón Einar vorum bræðrasynir. Mikill samgangur var á milli fjölskyldna okkar, sérstaklega eftir að séra Jakob föðurbróðir minn flutti heim frá Kanada. Börn þeirra bræðra Eysteins og Jakobs voru á svipuðum aldri og náðu vel saman. Minnist ég sérstaklega afar skemmtilegra samverustunda um jól. Við Jón náðum sérstaklega vel saman. Var talað um okkur sem „þetta Jón“ og „hitt Jón“. Við vissum aldrei hvor var hvað og göntuðumst með þetta alla tíð!

Við vorum á tímabili afar nánir. Það vildi svo til að við lukum lögfræðiprófi sama vor eða vorið 1965. Jón hóf þá störf hjá bæjarfógetanum í Keflavík en ég var að bardúsa við að reka lögfræðistofu á Laugavegi 11. Segir fátt af þeirri frumraun. Jón Einar hafði þá samband og tjáði mér að ég gæti komist að sem fulltrúi með honum hjá bæjarfógeta. Ég sló til og þetta reyndist örlagaríkasta ákvörðun sem ég tók. Síðan bauð Jón mér að koma með sér á lögfræðistofu í Tjarnargötu 3 í Keflavík. Þar störfuðum við saman í nokkur misseri.

Jón Einar var afar fær lögmaður. Það var ekki svo sjaldan sem fjölskylda mín leitaði til hans með vandamál. Alltaf var hann reiðubúinn að aðstoða og lauk málunum á sanngjarnan hátt sem allir sættu sig við. Reyndist hann traustur vinur alla tíð.

Við Jón Einar vorum vinir, frændur og samstarfsfélagar. Hann var afar traustur og heiðarlegur. Skemmtilegur var Jón og er ógleymanlegt kankvíst bros hans, sem mætti manni ávallt. Því miður höfðum við lítil samskipti síðustu ár en spjölluðum þó í síma af og til og voru það ávallt upplífgandi samtöl.

Kæra Guðrún og fjölskylda, við Magga sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minningin um góðan dreng lifir.

Jón Eysteinsson.

Jón Einar er dáinn. Hann var bæði hlýlegur og stríðinn með fínan breskan húmor og fallegar hreyfingar. Jón Einar og Gudrun kona hans voru eitt. Ella Stína elskaði þau einsog hún elskaði alla og fannst allt merkilegt. En þau voru ein af undirstöðunum í hennar lífi. Fjölskylda. Svo eignuðust þau þrjú ljóshærð og krúttleg börn, Þór, Bryndísi Evu og Birgittu. Það var spennandi.

Þau eru öll svo falleg, vel menntuð, vel gerð og náin foreldrum sínum. Halda alltaf sambandi við okkur systkinin.

Svo skildu foreldrar Ellu Stínu. Samgangurinn minnkaði en alltaf hélt fjörið áfram í jóla- og nýársboðum í Engihlíð og hjá Svövu frænku þar sem farið var í leiki. Og allir fengu að vera með. Ellu Stínu fannst þetta allt merkilegt.

Ég kynntist Jóni Einari svo á fullorðinsárum, eftir að pabbi minn dó. Jón Einar var með skrifstofu niðrí Aðalstræti og var með Ikea-umboðið. Keypti af honum borð, borðstofuborðið, sem ég skrifa þessi fátæklegu orð á. Ég bjó rétt hjá í Suðurgötunni. Það var gaman og sjálfsagt að koma við hjá Jóni Einari frænda, hann var jú föðurbróðir minn. Þar sat ég í kaffi og spjallaði. Einn daginn gerðist svo merkilegur atburður að Jón Einar gaf mér ritvélina hans pabba. Hún var appelsínugul og hét Gabríella.

Kannski hjálpar ritvélin þér til að sættast betur við sjálfa þig, sagði Jón Einar við Ellu Stínu sem hét alltaf Ella Stína hjá föðurfjölskyldunni. Það var mikið hamrað og glamrað á þessa ritvél, hugleiðingar og ljóð, fyrsta leikritið mitt. Skrifað 1987. Eldhestur á ís.

Hann var alltaf glaður og fínn nema þegar féll á hann víxill af mínum völdum, ég var ekki beinlínis á greiðslutímabili og í neyslu. Jón Einar varð hundfúll einsog gefur að skilja en leyfði mér svo nokkrum árum seinna að borga sér í bókum. Hann var örlátur á sjálfan sig einsog systkini hans, Didda, Svava, Jökull og Þór. Og afi og amma í Engihlíð. Ég er stolt af því að vera komin af vísindamönnum, fræðimönnum, trúmönnum og lögfræðingum, (hver sín fræðin, einnig skáldskaparfræði). En Jón Einar náði þeim merkilega áfanga að verða hæstaréttarlögmaður í hatrömmum veikindum sínum.

Einu sinni gerðist sá merkilegi atburður að Jón Einar frændi hringdi í mig í áfengismeðferð, en þá hafði ég ekki heyrt í honum í fjölda ára eða ég hugsa það. Þá vildi hann hrósa mér fyrir að hafa stigið þetta skref.

Og aftur greip Jón Einar inn í á mikilvægri stundu (Ella Stína kallar það örlagastundir og finnst það mjög merkilegt) … en þá var ég í forsetaframboði 2016. Hann vildi skrifa undir hjá mér. Ég fór heim til hans í fallega húsið hans og Gudrunar. Þar lá Jón Einar fárveikur í allskonar leiðslum en hress að vanda og stríðinn. Ég var ægilega stolt af því að fá hans undirskrift, vera kölluð til og einhverjum úr föðurfjölskyldunni skyldi vera svona annt um virðingu mína og framboð. Þegar ég þakkaði honum óskaplega mikið með buktum og beygjum, þá sagði hann á sinn stríðna og trygga hátt: Láttu ekki svona manneskja, ég er föðurbróðir þinn.

Og þegar ég keypti mér bíl árið 2018 var það ein af mínum fyrstu hugsunum að fara og heimsækja Jón Einar. Það fannst mér merkilegt.

Gudrunu konu hans, börnum hans: Þór, Bryndísi Evu og Birgittu og öllu hans tengdafólki og afkomendum, Þór frænda, Jóhönnu. Já öllu þessu fólki sem hann elskaði mínar dýpstu samúðarkveðjur. Lifi minning Jóns Einars.

Elísabet Kristín
Jökulsdóttir
(Ella Stína).

Bólu-Hjálmar orti „Mínir vinir fara fjöld“ og undir þau orð geta vinirnir tekið, sem luku stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1956. Við Jón Einar vorum nánir vinir í barnaskóla og allt til stúdentsprófs, en eftir menntaskólann skildi leiðir við háskólanám, stofnun fjölskyldu og annasöm störf. Hann nam lögfræði og starfaði fyrstu árin hjá bæjarfógeta í Keflavík, en stofnaði síðan eigin lögfræðistofu og tæplega 71 árs öðlaðist hann rétt til að flytja mál fyrir Hæstarétti.

Jón kvæntist ágætri sænskri konu, Guðrúnu, og þau ráku saman húsgagnaverslun um langt skeið. Nánari kynni hafði ég ekki af störfum hans, frekar en margra annarra samstúdenta. Þegar starfsævi okkar lauk naut hópurinn þess að endurnýja fyrri kynni og rifja upp góða daga í menntaskólanum. Jón Einar átti þó erfitt með þátttöku vegna lungnasjúkdóms og við söknuðum hans. Þar var efnt til mánaðarlegrar hádegissúpu, vorferða að heimsækja skólafélaga úti á landi, og þá, sem sest höfðu að erlendis. Þeir, sem hér bjuggu, fóru einnig að stunda gönguferðir í Elliðaárdal í öllum veðrum og luku þeim með kaffifundum, þar sem málum hvers dags voru gerð skil. Þar sem Jón hafði ekki heilsu til að fylgja okkur í þessu minnist ég hans helst frá skólaárunum en þar fylgdumst við að frá barnaskóla. Bræðurnir, Þór Edward og Jón Einar, fæddust Wynward í Saskatchewan í Kanada, þar sem faðir þeirra gegndi prestsþjónustu.

Fjölskyldan flutti heim í byrjun heimsstyrjaldarinnar og þeir Jón og Þór bættust í G-bekkinn í Austurbæjarskóla hjá Stefáni Jónssyni rithöfundi. Þótt Jón væri ári yngri en börnin í bekknum þótti ekki ástæða til þess að skilja bræðurna að. Þar var fyrir samheldinn hópur, sem tók þeim vel. Ég hafði strax á fyrsta ári tengst Hrafnkatli Thorlacius fóstbræðraböndum og nú urðum við fjórir nánir félagar í öllu. Fyrirmyndir okkar voru stóru bræðurnir, Örnólfur, bróðir Hrafnkels, og Jökull, bróðir Jóns og Þórs. Jökull hélt fyrir okkur leiksýningar með teiknimyndum. Örnólfur var frábær skopmyndateiknari og stóð með sínum bekkjarfélögum að skólablaðinu Hauki í menntaskólanum árin 1946-1948. Við fjórmenningarnir máttum ekki síðri vera og gáfum út myndskreytt bekkjarblað, Mjölni, í 11 og 12 ára bekk. Þar birtust frumsmíðar margra ungskálda og skopmyndir af kennurum og skólasystkinum, sem Jón, Þór og Hrafnkell teiknuðu. Blaðið náði góðum vinsældum og var selt í meira en 100 eintökum til ágóða fyrir ferðasjóð bekkjarins. Örnólfur var sveitarforingi skáta og við gengum í hans sveit. Við félagarnir áttum allir reiðhjól og nú var gert út til ferða. Við sigldum 11 ára með Laxfossi upp á Akranes og hjóluðum þaðan til útilegu og indíánaleiks í Vatnaskógi. Önnur ferð var farin með áætlunarbíl að Laugarvatni og þaðan hjóluðum við gamla kóngsveginn að Geysi. Þar sáum við Sigurð Greipsson espa Geysi til gosa með grænsápu. Okkur var treyst til þessara ævintýra, en það mundi ekki gilda um unglinga í dag.

Guðrúnu og börnum vottum við fyllstu samúð vegna fráfalls Jóns.

Sveinbjörn Björnsson.