Fjórði Anton Sveinn McKee ósáttur við að hafa ekki náð bronsinu í gær.
Fjórði Anton Sveinn McKee ósáttur við að hafa ekki náð bronsinu í gær. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir þurftu bæði að sætta sig við fjórða sæti í sínum greinum á Evrópumeistaramótinu í sundi í 50 metra laug í serbnesku höfuðborginni Belgrad í gær. Bæði voru þau í hörðum slag um að komast á…

EM í sundi

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir þurftu bæði að sætta sig við fjórða sæti í sínum greinum á Evrópumeistaramótinu í sundi í 50 metra laug í serbnesku höfuðborginni Belgrad í gær.

Bæði voru þau í hörðum slag um að komast á verðlaunapallinn, sérstaklega Anton Sveinn sem var aðeins 8/100 úr sekúndu á eftir Pólverjanum Jan Kalusowski í baráttunni um bronsið. Kalusowski synti á 2:10,20 mínútum en Anton Sveinn á 2:10,28 mínútum. Anton var þriðji eftir 100 metra en Pólverjinn var sjónarmun á undan eftir hnífjafna keppni þeirra á síðustu fimmtíu metrunum.

Í undanúrslitunum í fyrradag synti Anton á 2:10,14 mínútum sem hefði nægt honum til að komast á verðlaunapallinn en Íslandsmet Antons í greininni frá árinu 2017 er 2:08,74 mínútur.

Lyubomir Epitropov frá Búlgaríu og Erik Persson frá Svíþjóð deildu gullverðlaununum en þeir komu í mark á nákvæmlega sama tíma, 2:09,45 mínútur.

Ólympíusætið tryggt?

Snæfríður Sól var líka mjög nálægt bronsinu og var um tíma þriðja í úrslitasundinu. Hún setti Íslandsmet annan daginn í röð á mótinu, bætti met sitt frá því í undanúrslitunum um 13/100 úr sekúndu og synti á 1:57,85 mínútu.

Nicole Maier hafði betur í baráttunni við Snæfríði og fékk bronsið á 1:57,36 mínútu, eða 49/100 úr sekúndu á undan henni.

Barbora Seemanova frá Tékklandi varð Evrópumeistari á sannfærandi hátt á 1:55,37 mínútu og silfrið fékk Minna Abraham frá Ungverjalandi á 1:57,22 mínútu.

Snæfríður gulltryggði sér væntanlega keppnisrétt á Ólympíuleikunum í París í sumar með árangrinum í gær því tíminn, 1:57,85 mínúta, er nákvæmlega sá sami og boðstíminn er fyrir leikana í 200 metra skriðsundinu.

EM heldur áfram í dag og þrír Íslendingar verða snemma á ferð í lauginni í Belgrad en Jóhanna Elín Guðmundsdóttir keppir í 50 metra skriðsundi og þeir Einar Margeir Ágústsson og Snorri Dagur Einarsson í 50 metra bringusundi.