Stuð Dead Congregation mætir á Ascension.
Stuð Dead Congregation mætir á Ascension. — Ljósmynd/Stefan Bollmann
Á þessum vettvangi hefur ljósvaki áður nýtt tækifærið til þess að lofsama eftirlætistónlistarstefnuna, þungarokk. Fram undan er dýrindissvartmálmshátíð sem ber heitið Ascension Festival og fer fram í Hlégarði í Mosfellsbæ dagana 3

Gunnar Egill Daníelsson

Á þessum vettvangi hefur ljósvaki áður nýtt tækifærið til þess að lofsama eftirlætistónlistarstefnuna, þungarokk. Fram undan er dýrindissvartmálmshátíð sem ber heitið Ascension Festival og fer fram í Hlégarði í Mosfellsbæ dagana 3. til 6. júlí næstkomandi.

Á samfélagsmiðlum hafa stjórnendur hátíðarinnar undanfarin misseri bent á að miðasala hafi gengið hægt. Hátíðarpassar eru til sölu með 50 prósenta afslætti sem gera rétt rúmlega 3.000 krónur á hvern dag.

Það er kannski rétt að benda á að ekki er um auglýsingu eða samstarf að ræða enda ljósvaki dagsins að öllum líkindum ekki nægilega merkilegur til þess að koma neinu slíku í kring.

Það sem vakir fyrir ljósvaka er einungis að breiða út fagnaðarerindið, ekki síst vegna þess að ef sala á hátíðina verður áfram dræm er framtíð hennar óljós. Það væri allillt ef hátíðin hyrfi af sjónarsviðinu enda ekki hlaupið að því að fá margar af bestu málmsveitum heims hingað til lands, að minnsta kosti ekki á þessum síðustu og verstu.

Það er eitthvað sem Ascension hefur hins vegar tekist undanfarin ár líkt og Eistnaflugi og Reykjavík Deathfest, svo tvö dæmi til viðbótar séu tekin. Allir í Mosó að þeyta flösu!