Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Að þessu máli skulu allir þingmenn Norðausturkjördæmis koma og bregðast við áhyggjum heimamanna.

Guðmundur Karl Jónsson

Meira en fjórir áratugir eru liðnir síðan Vegagerðin lét vinna að frumathugunum til jarðgangagerðar á Austurlandi. Fimm árum síðar var skipuð nefnd sem fékk það hlutverk að vinna að framgangi gangagerðar á Mið-Austurlandi og gera tillögur um leiðir til fjármögnunar. Þegar nefndin skilaði þeim árið 1993 var gert ráð fyrir því að í fyrsta áfanga skyldi byggja göng sem leystu vetrareinangrun Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, í öðrum áfanga göng milli Vopnafjarðar og Héraðs, og einnig Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Þá var gert ráð fyrir tvennum veggöngum, inn í Stöðvarfjörð. Síðan þessar tillögur voru lagðar fram hafa verið harðar deilur um þessa áfangaröðun í fjórðungnum án þess að niðurstaða hafi fengist. Til skoðunar voru þrjú samgöngumynstur. Í mynstri A er vegakerfið eins og það lítur út, nema fjallvegirnir um Fjarðarheiði og Oddskarð, sem verða í jarðgöngum. Meira þarf til að Seyðfirðingar, Egilsstaða- og Héraðsbúar fái greiðan aðgang að stóra Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Í mynstri B var reiknað með 5,3 km löngum veggöngum frá Seyðisfirði inn í botn Mjóafjarðar og þaðan vel uppbyggðum vegi út með suðurströndinni samhliða 3,9 km löngum göngum til Norðfjarðar, auk sömu 4,2 km ganganna undir Oddskarð og í mynstri A. Frá Eskifirði hefðu þessi veggöng undir skarðið verið tekin í 340 m.y.s. og úr 300 m hæð í Seldal í Norðfirði. Sem betur fer voru þau afskrifuð vegna þess að framtíðarlega þjóðvegarins í gegnum íbúðabyggðina og upp frá Eskifjarðarkaupstað var talin óljós og erfið úrlausnar. Staðsetning Fjórðungssjúkrahússins réttlætir ekki að Seyðfirðingar, Egilsstaða- og Héraðsbúar keyri 200 km báðar leiðir til að treysta á þessa þjónustu í Neskaupstað vegna snjóþyngsla og blindbyls á Fagradal, Fjarðarheiði og beggja vegna Oddskarðsins. Svona er heimamönnum á Djúpavogi og víðar á suðurfjörðunum líka mismunað þegar þess er krafist að þeir keyri samanlagt 400 km báðar leiðir.

Árið 2009 tók Alþingi ákvörðun sem var óhjákvæmileg um að grafa 7,9 km löng veggöng í 10-20 m hæð vestan við nýja íbúðahverfið á Eskifirði og sunnan við Tandrastaði í Norðfirði í sömu hæð, þótt stuðningsmenn Axarvegar væru á öðru máli. Skammarlegt er að engin svör fengust fyrir kjördæmabreytinguna frá þingmönnum Austurlands í tíð Halldórs Blöndals þáverandi samgönguráðherra þegar þeir voru spurðir að því hvort til greina hefði komið að skoða möguleika á heilborun vegganga á Mið-Austurlandi, sem hefðu gagnast Egilsstöðum, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Reyðarfirði. Þarna geta ný Austfjarðagöng tryggt öruggara vegasamband suðurfjarðanna við Mið-Austurland og byggðirnar norðan Fagradals. Til þess að einangrun Fjarðabyggðar við Egilsstaði og Hérað hverfi endanlega skulu þingmenn Norðausturkjördæmis flytja á Alþingi þingsályktunartillögu um þrenn veggöng á Mið-Austurlandi og þau fjórðu undir Sómastaðatind norðan Reyðarfjarðar, sem stytta vegalengdina frá suðurfjörðunum til Seyðisfjarðar að Fáskrúðsfjarðar- og Norðfjargöngum meðtöldum. Fyrir heimamenn búsetta á svæðinu norðan Fagradals og Seyðfirðinga, sem þurfa að treysta á illviðrasaman og snjóþungan þröskuld í 640 m hæð, yrði fljótlegra að sækja vinnu til Alcoa í Reyðarfirði. Upp í þessa hæð á Fjarðarheiði fara þeir ekki vegna snjóþyngsla og blindbyls þegar starfsmenn Vegagerðarinnar gefast upp sem eðlilegt er. Upp á heiðina verða vegheflar að draga flutningabíla, sem spóla í brekkunum vegna mikillar hálku. Á þessum viðkomustað Norrænu verða heimamenn illa settir, þegar vegurinn á heiðinni milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar, sem þolir ekki þungaflutningana, fær engar undanþágur frá hertum öryggiskröfum ESB. Að þessu máli skulu allir þingmenn Norðausturkjördæmis koma og bregðast við áhyggjum heimamanna sem spurðu Ögmund Jónasson árangurslaust, hvort það væri betra fyrir viðkomustað Norrænu að fá tengingu við Egilsstaði í formi jarðganga undir þennan snjóþunga þröskuld, eða missa ferjuna endanlega. Nú hafa Norðfirðingar brotist út úr vítahring náttúruaflanna. Dánarvottorð hefur loksins verið skrifað á einbreiðu slysagildruna.

Höfundur er fv. farandverkamaður.