María Hjörvar
Viðar Guðjónsson
Félögin Wokon ehf. og EA17 hafa verið úrskurðuð gjaldþrota en voru þau bæði í fullri eigu Quangs Lés.
Quang Lé, sem einnig gengur undir nafninu Davíð Viðarsson, var látinn laus í síðustu viku og úrskurðaður í tólf vikna farbann, ásamt öðrum manni og einni konu, eftir að hafa setið í varðhaldi lögreglu í 14 vikur vegna rannsóknar á meintu mansalsmáli, skipulagðri brotastarfsemi, peningaþvætti og brotum á atvinnuréttindum útlendinga.
Sakborningar í málinu eru nú orðnir tólf talsins. Gunnar Axel Davíðsson lögreglumaður kveðst í samtali við mbl.is ekki eiga von á að þeim fjölgi, þó útilokar hann það ekki.
Auglýsingar um gjaldþrot félaganna voru birtar í Lögbirtingablaðinu í gær.
175 milljónir í eignir
Gjaldþrotin koma eftir að lögregla frysti bankareikninga og kyrrsetti aðra fjármuni í tengslum við rannsókn á fyrirtækjum sem tengd eru honum.
Samtals voru félögin með um 175 milljónir í eignir árið 2022 samkvæmt ársreikningi þess árs. Þá var Wokon ehf. með jákvætt eigið fé um 60 milljónir en EA17 neikvætt eigið fé upp á sex milljónir. Félögin hafa þó ekki skilað ársreikningum fyrir árið 2023.
Tekið til gjaldþrotaskipta
Vietnam Cuisine ehf. er meðal þeirra fjölmörgu veitinga- og fasteignafélaga sem voru í eigu Quangs Lés en það var tekið til gjaldþrotaskipta fyrir rúmum tveimur vikum.
Meðal annarra félaga í eigu hans voru Vietnam market ehf., NQ fasteignir, Vietnam Restaurant og Vy-þrif.
Wokon ehf. var með rekstur á sjö veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Auk þess sáu utanaðkomandi rekstraraðilar um rekstur Wok On í Vík í Mýrdal og Hveragerði.