Alþingi Jón Gunnarsson var harðorður í garð Vinstri-grænna.
Alþingi Jón Gunnarsson var harðorður í garð Vinstri-grænna. — Mogunblaðið/Eyþór
Atkvæði féllu mjög að flokkslínum þegar vantrauststillaga Miðflokksins kom til atkvæða á Alþingi í gær, en tillagan var felld með 35 atkvæðum gegn 23. Allir viðstaddir þingmenn stjórnarandstöðunnar studdu tillöguna, en þingmenn stjórnarflokkanna…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Atkvæði féllu mjög að flokkslínum þegar vantrauststillaga Miðflokksins kom til atkvæða á Alþingi í gær, en tillagan var felld með 35 atkvæðum gegn 23. Allir viðstaddir þingmenn stjórnarandstöðunnar studdu tillöguna, en þingmenn stjórnarflokkanna voru andvígir, að Jóni Gunnarssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins undanskildum, en hann sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Ekki er búist við að hjásetan hafi áhrif á stjórnarsamstarfið.

Gerði Jón grein fyrir afstöðu sinni í atkvæðaskýringu úr ræðustól Alþingis, þar sem hann sagði m.a. að við þetta tækifæri væri rætt vantraust sem byggðist á misbeitingu valds.

„Það er eðlileg krafa að ráðherra víki úr embætti við slíkar aðstæður ef rétt reynist. Ábyrgðin liggur þó fyrst og fremst hjá þingflokki þeim sem ráðherrann situr í umboði fyrir. Flókin staða er hjá þingflokki Vinstri-grænna í þeim efnum, tveir af þremur ráðherrum eru þegar með hæstaréttardóm á bakinu fyrir að brjóta á réttindum sveitarfélaga og almennings og nú má segja að fleiri dómar séu væntanlegir.

Staðreyndin er augljóslega sú að stjórnmálaflokkur sem styður og lætur slík vinnubrögð átölulaus á kannski takmarkað erindi á Alþingi Íslendinga. Það eru viðsjárverðir tímar í íslenskri pólitík og ábyrgðarhluti að rjúfa ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á þessum degi. Ég treysti forsætisráðherra og mörgum ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ég greiði því ekki atkvæði,“ sagði Jón.

Lítur sáttur í spegil

Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar var vöngum velt yfir því hvort Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins kynni að styðja tillöguna eða sitja hjá. Í atkvæðaskýringu tók hann af öll tvímæli um það.

„Eftir að hafa setið hér í þingsal og hlustað á málflutning stjórnarandstöðunnar og málatilbúnað, ef málatilbúnað skyldi kalla, þá get ég aldrei slegist í lið með slíku fólki. Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem reyna að fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ég mun, þegar ég vakna í fyrramálið, líta glaður í spegil og nokkuð sáttur við sjálfan mig, eftir að hafa sagt nei,“ sagði Óli Björn.