Soffía Líndal Eggertsdóttir fæddist 6. september 1964 á Blönduósi. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 11. júní 2024.

Foreldrar hennar eru Kristín Hjördís Líndal, f. 26. júní 1941, og Eggert Egill Lárusson, f. 16. september 1934, d. 4. janúar 2007. Systkini Soffíu eru Sigríður Jóna Eggertsdóttir, f. 17. nóvember 1958, Páll Örn Líndal, f. 22. maí 1967, Þröstur Heiðar Líndal, f. 24. apríl 1972, og Jónatan Líndal Eggertsson, f. 26. júní 1973.

Soffía á tvö uppkomin börn, Hafdísi Líndal, f. 15. maí 1993, og Hafþór Frey Líndal, f. 26. apríl 1996. Faðir þeirra er Steingrímur Kristinn Reynisson, f. 6. júlí 1967.

Soffía sótti nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og útskrifaðist þaðan sem sjúkraliði og stúdent árið 1985. Hún lærði til búfræðings við Landbúnaðarskólann á Hvanneyri og útskrifaðist 1990. Hún vann lengi sem sjúkraliði á ýmsum stöðum, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Ísafirði, Sjúkrahúsinu á Blönduósi, Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga, hjúkrunarheimilinu á Hlíð og einnig á hjúkrunarheimilum í Danmörku og Noregi. Soffía stundaði einnig fjárbúskap frá 1993-2005 í Grímstungu í Vatnsdal og hrossabúskap frá 1993-2020.

Útför verður frá Grensáskirkju í dag, 21. júní 2024, klukkan 11.

Þá er þinni þrautagöngu lokið elsku stúlkan mín. Þú varst dugleg og kvik strax, hljópst á milli Hjarðartungu og Grímstungu fljótlega eftir að þú fórst að ganga. Áttir þar gæðastundir með föðurömmu þinni, báðar vaknaðar klukkan sex, ekki seinna. Skrappst yfir í Þórormstungu að bjóða brjóstsykur, ekki orðin þriggja ára, og um haustið straukst þú úr pössun og mættir í Undirfellsrétt. Þú vildir vera í réttum.

Þú varst á mótorhjóli í nokkur ár og varst með það í Danmörku og komst í heimsókn til Þýskalands þar sem við vorum í sumarhúsi. Þú bjóst í Grímstungu, áttir tvö yndisleg börn, Hafdísi og Hafþór. Þau voru þér allt, vildir allt fyrir þau gera, kannski meira en þú hafðir heilsu til. Þú fékkst nú þinn skammt af leiðindum og erfiðleikum, lentir undir steinvegg og hefðir getað legið lengi ef Hafþór hefði ekki verið svona þrár, hann bjargaði þér. Það var með ólíkindum hvað þú varst æðrulaus í þessum veikindum.

Þér var mjög annt um systkini þín og fjölskyldur þeirra og fylgdist með þínu frændfólki, varst vinaföst og góð fólki. Við viljum þakka starfsfólki á lyfjadeild Sjúkrahússins á Akureyri fyrir góða og faglega umönnun og gott viðmót við okkur aðstandendur. Sérstaklega Guðjóni lækni fyrir langa og góða þjónustu. Þakka fyrir samveruna elsku Soffía mín og ég mun sakna þín, engin símtöl lengur. Ég veit að pabbi þinn tekur vel á móti þér, góða ferð.

Þótt ég sé látinn

harmið mig ekki með tárum.

Hugsið ekki um dauðann

með harmi og ótta.

Ég er svo nærri að hvert eitt

ykkar tár snertir mig og kvelur,

því látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið

með glöðum hug

sál mín lyftist upp í mót

til ljóssins.

Verið glöð og þakklát

fyrir allt sem lífið gefur.

Og ég, þótt látinn sé,

tek þátt í gleði ykkar

yfir lífinu.

(Höf. ók.)

Þín elskandi,

mamma.

Í dag eru stigin þung skref þar sem við fylgjum systur minni Soffíu Líndal hennar síðustu spor. Hún hefur glímt við erfið veikindi síðustu ár sem hófust með ristilkrabbameini fyrir um 17 árum. Þessi barátta hefur verið erfið, hörð og ósanngjörn. Það er ekkert réttlát við það að vera að skrifa minningarorð núna þegar maður ætti miklu frekar að vera að skrifa tækifærisræðu fyrir sextugsafmælið hennar sem hefði átt að vera núna 6. september.

Soffía var mikill náttúru- og dýravinur, hún var mjög næm fyrir umhverfinu og velferð allra í kringum sig, sérstaklega dýra, og hugsaði vel um sinn bústofn. Hún var með stórt hjarta, ósérhlífin, vinnusöm, glögg og næm á umhverfið og náttúruna, heiðarleg, vinur vina sinna, mótorhjólatöffari og mjög þrjósk.

Þær eru margar minningar sem flæða fram þegar horft er aftur til fortíðar. Soffía sleit barnsskónum á ósköp venjulegu sveitaheimili í Hjarðartungu í Vatnsdal. Byrjaði ung að aðstoða við bústörfin og var ekki mjög gömul þegar hún var farin að vinna við flest bústörf. Á Nalla eða Ferguson 35- og 135-traktorum í heyskap á sumrin við að rifja, múga garða og ýta í sátur. Hún var alltaf skrefi á undan mér í þessum verkefnum, enda nokkrum árum eldri. Ég naut góðs af því þar sem hún leyfði mér að þvælast með sér, já sennilega gerist þetta ekki í dag. Soffía tíu ára og ég sjö ára að þvælast um túnin heima á traktor við bústörf.

Við vorum ekki gömul þegar við stálumst út á sumarkvöldum og fórum í hestagirðinguna með baggabönd í vösunum. Notuðum baggaböndin sem beislisspotta og fórum í reiðtúr, við tvímenntum og riðum berbakt. Eins þegar við fórum á fallegum norðurljósakvöldum á skauta á síkin eða Vatnsdalsá, lögðumst á svellið eða í snjóinn og gerðum engla og horfðum á himinstjörnurnar. Stjörnuhrap og stjörnumerki var ævintýraheimur sem við horfðum á og bjuggum til alls konar sögur og ævintýri.

Hestar áttu mikinn þátt í lífi Soffíu og hún hafði mjög næmt auga fyrir góðum og fallegum hestum. Hún hafði gott lag á hrossum og tókst að gera erfiða hesta að góðum reiðhestum. Vert er minnast á jarpan stóran hest sem var mjög erfiður, hrekkjóttur og hljóp út undan sér. Soffía tók hann að sér og gerði hann að sínum reiðhesti. Nafnið sem hún gaf honum vakti nokkra athygli, Djöfull. Djöfull var ljúfur töltari, þrekmikill og frábær gangnahestur. Hann var Soffíu mjög traustur. Ekki má gleyma honum Jarpi, þvílíkur gæðahestur. Þeir voru ófáir reiðtúrarnir sem við áttum um sveitina á fallegum sumarkvöldum.

Soffía tók mótorhjólapróf um leið hún gat og keypti sér Kawasaki GPZ-750. Glæsilegt hjól sem hún fór á um alla Evrópu ein síns liðs og lét sig ekki muna um að gista hér og þar. Mótorhjólatöffarinn Soffía var Snigill nr. 98. Þetta var eitt af okkar sameiginlegu áhugamálum og áttum við marga góða spretti saman um vegi landsins.

Elsku mamma, Hafdís, Hafþór og makar, ég votta ykkur mína dýpstu samúð vegna andláts elsku Soffíu systur.

Æskustöðvarnar

Alltaf vakir í mér þrá,

oft er mig að dreyma.

Fyrir norðan fjöllin blá

fegurðina heima.

Sumarið með sól og yl

sé og glöggt má finna.

Berð þú kveðju blærinn til,

bernskustöðva minna.

Vatnsdalinn ég vona að sjá,

vill minn huga teyma.

Það er víst ég aldrei á

annars staðar heima.

(Grímur Heiðland Lárusson)

Þinn bróðir,

Páll Örn (Palli).

Elsku Soffía systir er farin alltof snemma í sumarlandið eftir langa baráttu við veikindi.

Soffía var sveitakona og ætlaði sér ekki að hætta því en veikindin komu í veg fyrir það. Hún var hörð af sér og kvartaði aldrei þótt hún væri kvalin. Hún var með mikið af Grímstungu-genum.

Ég gleymi því seint þegar ég og Dóri vinur minn fórum í heyskap til hennar og þegar líða fór á kvöldið og byrjað var að skyggja var ákveðið að taka göngutúr út að Álku, það var komin þoka og frekar kalt úti. Þegar við komum að brúnni stekkur Soffía út í og spyr okkur hvort við séum ekki karlmenn. Við reyndum allt til að sleppa við að fara ofan í en Soffía tróð bara marvaða og kallaði okkur aumingja, þannig að við gáfumst upp og fórum ofan í. Daginn eftir urðum við Dóri svo kvefaðir að annað eins hefur ekki sést …

Soffía lét ekkert stoppa sig og var mjög sjálfstæð, hún vann erlendis, keyrði mótorhjól, ræktaði hross og hafði gaman af því að stríða manni.

Elsku mamma, Hafþór og Hafdís, minning Soffíu lifir um ókomna tíð.

Kveð ég þig, elsku Soffía, með sorg í hjarta.

Þinn bróðir,

Þröstur Líndal,
óðalsbóndi.

Elsku Soffía okkar.

Okkur langar að þakka fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir okkur í gegnum árin. Það var sérstaklega gaman þegar við vorum að hjálpa þér á Grímstungu þegar Hafdís og Hafþór voru lítil. Okkur þótti leitt að heyra um öll veikindi þín. Það var gaman þegar þú keyrðir okkur frá Grímstungu og út á Bakka. Það var mjög skemmtileg ferð. Elsku Hafdís og Hafþór og öll stórfjölskyldan, okkur dýpstu samúðarkveðjur. Okkur langar að kveðja þig með með þessu:

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum)

Ykkar vinir að eilífu,

Bára og Alda.

Soffía flutti ung úr sveitinni, en sveitin flutti aldrei úr henni, þannig að þegar tækifæri gafst, þá kom hún heim í Grímstungu, stofnaði fjölskyldu og bjó þar með kindur og hross. Undi hag sínum vel, og tók virkan þátt í lífi sveitar. En svo dimmdi yfir, búskap lauk, og þau héldu sína leið. Og sálin hvarf úr Grímstungubænum. Hún flutti til Akureyrar, en reyndi að halda tengslum við Vatnsdalinn á meðan heilsan leyfði.

Það var venja að koma við í Grímstungu þegar lagt var upp í göngur á heiðinni, og Soffía, líkt og forfeður hennar, tók vel á móti gangnamönnum og veitti vel. Gangnamenn úr Vatnsdal og Þingi þakka góðan viðgjörning, og votta aðstandendum samúð.

Jón Gíslason.

Í dag kveðjum við kæra vinkonu og fylgjum henni síðasta spölinn, í þetta sinn ekki til að smala, flytja hross, gera við girðingar, skoða folöldin eða gefa útigangi, hún hefur nú gengið sinn síðasta spöl.

Samskipti fjölskyldna okkar snerust í upphafi mest í kringum hrossastúss er Soffía keypti jörðina Finnstaði en þróaðist upp í góðan vinskap. Lífið var Soffíu ekki alltaf auðvelt, slys og veikindi mörkuðu mörg hennar seinni ár en henni var ekki fisjað saman. Hún lenti í ýmsum hremmingum, meðan annars hrundi ofan á hana steinveggur en hún lét það ekki hindra sig í að vera trúss í margra daga hestaferð hjá ferðahópnum okkar þó svo hún væri á hækjum.

Soffía hafði mikinn áhuga á hrossarækt og ræktaði hross undan Grímstungumerunum sínum. Það var henni mjög erfitt þegar hún gerði sér grein fyrir því að heilsan leyfði ekki lengur þetta umstang en lengi þrjóskaðist hún við, já hún Soffía komst langt á þrjóskunni því þótt heilsuleysi hrjáði hana í mörg ár reis hún einhvern veginn alltaf upp aftur en í þetta sinn dugði þrjóskan ekki til, líkaminn sagði stopp.

Soffía var hrein og bein, var umhugað um sitt fólk og aðra í kringum sig. Þegar móðir mín lá um tíma á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en þar lá Soffía á sömu deild, var hún ekki að tala um að hún miklu yngri manneskjan kæmist ekki heim, heldur hafði hún meiri áhyggjur af því að móðir mín ætti ekki afturkvæmt á Blönduós. Þessi umhyggja lýsti Soffíu vel og þó svo hún væri ekki kannski allra var hún vinur vina sinna og hún var vinkona okkar.

Að lokum vottum við börnum Soffíu, Hafdísi og Hafþóri, móður hennar og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Elsku Soffía, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Árný Þóra
Árnadóttir
og fjölskylda.