Nýliðar Víkings stöðvuðu sigurgöngu Breiðabliks í Bestu deild kvenna í fótbolta í gærkvöld með óvæntum en sanngjörnum sigri í leik liðanna á Víkingsvellinum, 2:1.
Bergdís Sveinsdóttir kom Víkingi yfir eftir sendingu Sigdísar Evu Bárðardóttur og fyrirliðinn Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði, 2:0, eftir sendingu Lindu Lífar Boama.
Katrín Ásbjörnsdóttir minnkaði muninn með hælspyrnu í uppbótartíma og engu munaði að Barbára Sól Gísladóttir jafnaði með síðustu snertingu leiksins þegar hún skallaði yfir tómt markið af tveggja metra færi.
Átta leikja sigurganga Blika var þar með rofin og Valur getur nú náð þeim að stigum í kvöld með heimasigri gegn FH.